Um kyrrðarstarf kirkjunnar: Hver er munurinn á bæn og íhugun?

Á fundi um daginn var guðfræðingur að agnúast út í það að kirkjan væri allt of upptekin af dulúð (e. mystik). Það truflaði mig þar sem ég hef talað fyrir kyrrðarstarfi innan kirkjunnar, íhugun og bæn. Ég var að setja inn námskeið um kristna íhugun á vef prófastsdæmisins. Það er sem sagt eitthvað til sem heitir kristin íhugun. Í það minnsta held ég því fram.

Þeir fræðimenn eru til sem gera mikinn greinarmun á bæn og íhugun eða mystik. Ef maður setur það á oddinn sem þeir halda fram þá er bæn ákall til Guðs um hjálp en mystikin á að hafi dulinn galdur fólginn í sér þar sem reynt er að ná tökum á Guði eða örlögunum eða eigin sálarlífi með einhverskonar tækni. Það er enginn vafi í mínum huga að slíkar æfingar geta verið gagnlegar en ekki til að ráðskast með Guð. Það er frekar vonlaus iðja. Og þessar tilfinningar annars vegar af hjálparleysi og hins vegar að reyna að ná tökum á tilverunni eru nú nokkuð samtvinnaðar. Biðjandi maður getur aldeilis tekið upp á því að reyna að snúa Guði að sínum vilja í bjargarleysi sínu. Og sá sem íhugar getur hvílt í augnablikinu og notið djúprar hvíldar.

Þær fjórar bænahefðir sem eru kynntar á áðurnefndu námskeiði sem hægt er að fylgjast með á vefnum sýna að þessi trúarglíma er til staðar í þeim öllum. Tökum bænahefðina frá Loyola sem dæmi sem Jón Sveinsson (Nonni) iðkaði. Á námskeiðinu er það sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson sem kynnir þá hefð og verður með kyrrðardaga á Löngumýri með þessa áherslu. Hún gengur út frá því að hver maður er leitandi á sinn hátt. Nonni talaði oft um „Jesús minn“. Það er Kristur sem gerir bænina kristilega. Það liggur í hlutarins eðli. Hver einstaklingur í samfylgd með Jesú sinn gengur sinn andlega veg. Ég get ekki farið þinn veg og þú ekki minn. En það sem andleg leiðsögn gengur út á er að eiga samtal við Drottinn sinn á vegferðinni. Það er bænin. Í því samtali sálarinnar við Guð sinn lærist biðjandi manni að hvíla í orði hans. Smátt og smátt verður bænin ekki tilraun okkar að láta Guð fara að vilja okkar sem er frekar þreytandi heldur að hvíla í vilja Guðs í eigin lífi. Togstreitan hættir ekki milli þessa að vera og gera en það gerir bæði bænina og íhugunina kristilega að njóta leiðsagnar Meistara bænarinnar.

Næstkomandi sunnudagur er einn af bænadögum kirkjuársins. Tökum okkur tíma til íhugunar og bænar: Biðjið og ykkur mun gefast. Leitið og þið munuð finna. Knýið á og fyrir ykkur mun verða upp lokið. (Matt. 6).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s