Fræðslustefna 2019-2022
Kirkjuþing 2018 samþykkir eftirfarandi fræðslustefnu þjóðkirkjunnar þar sem sérstök áhersla er lögð á skírnarfræðslu og fræðslu um umhverfismál. Kirkjuþing 2018 felur biskupi Íslands og kirkjuráði að fylgja eftir framkvæmd hennar samkvæmt aðgerðaráætlun.
Fræðslustefna þjóðkirkjunnar
Frá vöggu til grafar.
Markmið fræðslustefnu þjóðkirkjunnar er að stuðla að góðu og markvissu fræðslustarfi í söfnuðum landsins.
Fræðslustarf fer fram í söfnuðum, á námskeiðum fyrir ákveðna hópa og með fræðslu fyrir starfsfólk kirkjunnar.
Á fjögurra ára fresti eru ákveðin viðfangsefni fræðslumála dregin sérstaklega fram og áhersla lögð á endurskoðun og endurbætur í öllum þáttum þess starfs. Fjárhagsáætlanir til efnisgerðar taka mið af þeirri stefnu.
Áhersluatriði næstu fjögurra ára eru skírnarfræðsla og fræðsla um umhverfismál.
Til að mæta þessum þáttum fræðslustefnu þarf að auka fjölbreytni í framboði fræðsluefnis. Það þarf að vera í samræmi við þarfir og þroska fólks á öllum aldri. Sömuleiðis gefur fjölbreytilegt efnisval, þeim sem starfa við fræðsluna kost á því að laga hana að eigin styrkleikum og möguleikum.
Fræðslustarfinu er skipt í þrjá meginflokka sem aftur greinast í undirflokka:
A. Fræðsla barna og unglinga
1) Barnastarf
2) Fermingarstarf
3) Starf með unglingum og ungu fólki
B. Fullorðinsfræðsla
1) Foreldrafræðsla 2) Almenn fræðsla 3) Eldri borgara starf
C. Símenntun starfsfólks
1) Fyrir starfsfólk þjóðkirkjunnar, t.d. presta
2) Fyrir starfsfólk safnaða: Djákna, organista, kirkjuverði, æskulýðsstarfsfólk o.fl. 3) Fyrir sjálfboðaliða í kirkjustarfi
A 1) Barnastarf – börn, 12 ára og yngri
Markmið:
Í barnastarfi þjóðkirkjunnar er lagður grunnur að trúarvitund barna í samræmi við þroska þeirra og aldur.
Verkefni:
6 ára börn og yngri: Sunnudagaskóli, þ.e. barnastarf sem hluti almennrar guðsþjónustu safnaðarins eða sér fræðsla. Áhersla skal lögð á upplifun og að kenna bænir, vers og barnasálma.
6-9 ára börn: „Hópastarf“ – þ.e. barnastarf sem hluti almennrar guðsþjónustu safnaðarins eða sér fræðsla. Áhersla skal lögð á fela börnunum hlutverk í starfinu. Biblíusögur.
10-12 ára starf (TTT): Hópa- eða klúbbastarf. Áhersla á aukið hlutverk barnanna og á
að starfið sé aðdragandi fermingarinnar. Biblíusögur.
Barnakórar: Efla barnakóra sem mikilvæga leið í barnastarfi þjóðkirkjunnar.
A 2) Fermingarstarf
Markmið:
Fermingarstarfinu er ætlað að styrkja trúarvitund barnanna, kenna þeim grundvallaratriði kristinnar trúar, virkja þau í starfi kirkjunnar og gefa þeim jákvæða og uppbyggilega upplifun af kirkjustarfi. – Mikilvægt að taka mið af misjafnri getu barna til lestrar og þess að leysa skrifleg verkefni.
– Fjölbreytt námsefni og breidd í kennsluháttum.
– Virkja fjölskyldu fermingarbarnsins til þátttöku og samstarfs
A 3) Unglingastarf – unglingar og ungt fólk
Markmið:
Starf þjóðkirkjunnar meðal unglinga og ungs fólks miðar að því að efla þau og styðja og stuðla þannig að jákvæðri lífssýn og sterkri sjálfsmynd í trú á Guð. Jafnframt að ala upp framtíðarleiðtoga í kirkjulegu starfi.
Skapa raunhæfan valkost til þátttöku í kirkjulegu starfi eftir fermingu.
Búa til og viðhalda samfélagi fyrir unglinga í kirkjunni, t.d með æskulýðsfélagi.
Vera vettvangur fyrir tilvistarspurningar.
Miðla kristnum lífsgildum.
Stuðla að trúariðkun og helgihaldi á forsendum unglinga.
Efla unglingakóra sem leið í unglingastarfi þjóðkirkjunnar.
Virkja og styðja við leiðtogafræðslu meðal ungmenna.
Eiga efni fyrir starfsfólk kirkjunnar til að bregðast við aðstæðum og væntingum nærsamfélags kirkjunnar. Nýta lífsleikniefni þjóðkirkjunnar fyrir ungt fólk í framhaldsskólum.
_______________________________________
B 1) Foreldrafræðsla
Markmið:
Þjóðkirkjan styðji foreldra í uppeldishlutverki sínu hvarvetna þar sem kirkjan og foreldrar
mætast. Skírnin verði sett í öndvegi og foreldrum kynnt hvers vegna börn eru skírð, hvað það þýðir að skírast og hvernig skírn fer fram.
V erkefni:
Skírn undirbúin með viðtölum við foreldra og því fylgt eftir í kirkjulegu starfi. Stuðningur við uppeldi á heimilum, með fræðsluefni af ýmsum toga. Dæmi: DVD – diskar, litlir bæklingar, netefni. Skírnin kynnt fyrir foreldrum barna innan þjóðkirkjunnar, t.d. með útsendu efni og boði um þátttöku í kirkjustarfi.
Samvera í kirkjum eða safnaðarheimilum. Svo sem eins og foreldramorgnar, krílasálmar.
Námskeið þar sem veitt er fræðsla um ýmsar aðstæður er tengjast uppeldi. Og aðstæður fólks með börn á framfæri.
Í tengslum við barna- og æskulýðsstarf skal bjóða foreldrum fræðslu um uppeldi og trú.Virkja foreldra í barna- og æskulýðsstarfi.
B 2) Almenn fræðsla
Markmið:
Fræðsla fullorðinna hjálpi fólki að iðka kristna trú á gefandi hátt, vaxa í tilbeiðslu og takast á við verkefni lífsins. Námskeið fyrir fullorðna verði haldin á vegum safnaða, prófastsdæma og
fræðslusviðs biskupsstofu á hverju ári. Dæmi um verkefni:
Námskeið um höfuðatriði kristindómsins og umhverfisfræðsla
Biblíufræðsla Trúfræðsla Íhugunarfræði Bænaiðkun Umhverfisfræðsla
Kirkjufræðsla
Skipulag kirkjunnar
Fræðsla um helgihald og siði kirkjunnar Fræðsla um táknmyndir í kirkjubyggingum
Vöxtur og þroski einstaklinga og fjölskyldna
Viðtöl við verðandi hjón
Námskeið fyrir verðandi hjón, ung hjón og þroskuð hjón á ýmsum lífsskeiðum. Hópastarf og sálgæsla
Sjálfsstyrking
Fjölbreytt hópastarf
B 3)
Tólf spora vinna Sorgarhópar Kórastarf Grænir hópar Ýmis námskeið
Fræðsluefni fyrir eldri borgara
Svipað og í B 2) en aukin áhersla á samverur og helgihald.
Samvera með máltíð sem dregur úr einmannaleika.
Góð umfjöllun um Biblíutexta bæði í fyrirlestrum og námskeiðum.
Söfnuðir leggi áherslu á að skapa umhverfi þar sem eldra fólk getur deilt þekkingu sinni og lífsreynslu með öðrum.
Heimsóknir milli sókna og prestakalla.
_________________________________________
C Símenntun starfsfólks
Markmið:
Að allir sem koma til starfa eða þjónustu á vettvangi þjóðkirkjunnar fái viðeigandi fræðslu og þjálfun.
Sérmenntað starfsfólk innan kirkjunnar eigi reglulega kost á sí- og endurmenntun til að efla og viðhalda starfshæfni og verjast kulnun í starfi.
Að öllum er sinna sjálfboðnu starfi innan kirkjunnar sé boðið að sækja námskeið er efli þau í hlutverki sínu og veiti fræðslu um grundvöll og starfsemi kirkjunnar. Námskeið sem minna á að við erum hluti af stærri heild kristinna einstaklinga.
C 1) Fyrir presta og annað starfsfólk þjóðkirkjunnar
Símenntun starfsfólks í samvinnu við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, Skálholtsskóla og aðrar menntastofnanir.
Fræðsla um eðli og afleiðingar kynferðisbrota og þjálfun um æskileg viðbrögð þegar greint er frá kynferðisbroti.
Fræðsla um sálgæslu í samvinnu við endurmenntun Háskóla Íslands.
Símenntun um predikunarfræði.
Guðfræði- og djáknanemum sé tryggð þjálfun í safnaðarstarfi.
Reglulega sé kannað meðal presta og starfsfólks hvaða atriði þau telja að gott sé að fá fræðslu um. C 2) Fyrir starfsfólk safnaða: Djákna, organista, kirkjuverði, æskulýðsstarfsfólk o.fl.
Starfsfólki þjóðkirkjunnar, launuðu sem ólaunuðu, sé boðið upp á grunnfræðslu um kristna trú og miðlun hennar, svo og mannleg samskipti og um sálgæslu. Námskeið séu löguð að hlutverki ólíkra starfshópa.
Fræðsla um eðli og afleiðingar kynferðisbrota og þjálfun viðbragða þegar greint er frá kynferðisbroti. Sérstök námskeið fyrir starfsfólk, s.s. meðhjálpara/kirkjuverði/hringjara/tónlistarfólk/organista.
C 3) Fyrir sjálfboðaliða í kirkjustarfi
Námskeið fyrir sóknarnefndir um skyldur og ábyrgð þeirra.
Námskeið um kirkjuna og kristna trú.
Uppbyggjandi námskeið fyrir starfsfólk og ýmsir viðburðir til að viðhalda starfsgleði og sína sjálfboðaliðum þakklæti fyrir þeirra framlag.
______________________________________
Almennt um A, B og C
Stærsta verkfæri kirkjunnar er netið og þá sérstaklega Efnisveita kirkjustarfs sem er mikill fjársjóður.
Á hverju ári þarf á markvissan hátt að kanna notkun Efnisveitunnar og samræma áframhaldandi vinnu væntingum og þörfum safnaða.
Á hverju ári verði boðið upp á námskeið fyrir starfsfólk og leiðtoga til að uppbyggjast og endurnýjast í starfi.
Fræðslusvið fylgist með nýjum fræðum og aðferðum í efnisgerð og kennslu og vinnur í nánu samstarfi við útgáfufélag þjóðkirkjunnar; Kirkjuhúsið-Skálholtsútgáfa.
Kirkjuþing og kirkjuráð tryggir að Fræðslusvið hafi mannskap, fjármagn og aðstæður til að 1) halda við og þróa Efnisveituna áfram, 2) standa fyrir námskeiðshaldi sem mætir þörfum safnaða um allt land, 3) geti sótt námskeið og aflað sér þekkingar til framþróunar fræðsluefnis kirkjunnar.
Almennt um fræðslu:
Sóknin er grunneining safnaðarstarfs og að jafnaði er gert ráð fyrir því að grunnþjónusta kirkjunnar sé í boði í hverri sókn. Þar sem prestakall er samsett úr fleiri en einni sókn gengur skipulag starfsins út frá þeirri einingu. Enn fremur er eðlilegt að samstarfssvæði leggi krafta sína saman og eigi samstarf um þá fræðslu sem hagkvæmt þykir að bjóða fram í stærra samhengi.
Hlutverk prófastsdæma
Innan hvers prófastsdæmis er sett saman áætlun um fræðslumál. Skilgreint hvað gert er í
hverri sókn eða prestakalli, hvað innan samstarfssvæðis og hvað á vettvangi prófastsdæmisins í heild. Prófastsdæmi sinni sérstökum verkefnum í unglingastarfi og ungmennastarfi eftir því sem aðstæður leyfa.
Á vegum prófastsdæmis sé starfrækt fræðsla meðal fullorðinna í samvinnu við fræðslusvið biskupsstofu þar sem sókn eða prestakall hafa ekki bolmagn til þess.
Í prófastsdæmum sé boðið upp á starfsmannaþjálfun svo og námskeið fyrir kennara og annað starfsfólk í fræðslu og uppeldismálum, í samvinnu við þjónustumiðstöð biskupsstofu.
Prófastsdæmi geta myndað fræðslusvæði til að sinna fræðsluhlutverki sínu.
Innan hvers prófastsdæmis eða fræðslusvæðis sé fræðslufulltrúi sem annist fræðsluna undir umsjón prófasts og í samvinnu við starfsfólk þjónustumiðstöðvar biskupsstofu.
Þar sem starfsræktar eru kirkjumiðstöðvar geta þær með samþykki héraðsfunda og eða sókna tekið að sér einstaka fræðsluverkefni svo sem barnastarf á sumrin, skipuleggja fermingarbarnamót og fræðslu fullorðinna á svæðinu.
Í Skálholti verði hugað að uppbyggingu miðstöðvar fyrir fræðslu og þjálfun starfsfólks.
Þjónustumiðstöð biskupsstofu
Starfsfólk þjónustumiðstöðvar biskupsstofu hefur það hlutverk að fylgja eftir fræðslustefnu þjóðkirkjunnar í umboði biskups Íslands og vinna aðgerðaráætlun til næstu fjögurra ára. Ábyrgð kirkjuþings og kirkjuráðs er að tryggja að þjónustumiðstöðin hafi mannafla og úrræði til að fylgja stefnunni eftir.
Efnisgerð, menntun leiðtoga og starfsfólks þjóðkirkjunnar verði fyrst og fremst á ábyrgð þjónustumiðstöðvar biskupsstofu.
Á vegum þjónustusviðs er reglulega boðað til funda þar sem lagt er mat á fræðslustarfið á viðkomandi svæði.
Á fjögurra ára fresti skal boða til fræðsluþings kirkjunnar, þar sem lagt skal mat á fræðslustefnu þjóðkirkjunnar innihald og framkvæmd, hvern þátt hennar, svo og á það starf sem unnið er í einstaka starfseiningum kirkjunnar er sinna fræðslustarfi. Til grundvallar mati þessu liggi einnig aðgerðaráætlun þjónustusviðs.
Gildistaka
Endurskoðuð fræðslustefna þjóðkirkjunnar taki gildi 1. janúar 2019.