Kristin íhugun og bæn. Fjögur erindi

Erindin voru flutt á fræðslu- og umræðukvöldi í Glerárkirkju vorið 2014. Kristin íhugun hefur verið stunduð um aldir. Til eru ýmsar aðferðir og verða nokkrar þeirra kynntar. Íhugun er andleg heilsurækt og þáttur í trúarlegri uppbyggingu kristins fólks í erli dagsins.

Dagskrá:

1. erindi (Flutt miðvikudaginn 5. febrúar 2014)

Sr. Gunnlaugur Garðarson, sóknarprestur í Glerárkirkju. Hann hefur kynnt sér bænahefð og helgihald Rétttrúnaðarkirkjunnar. Hann hefur dvalið um lengri og skemmri tíma í klaustrum þeirra.

Bæn hjartans – Jesúbænin. Íhugunar og bænahefð Rétttrúnaðarkirkjunnar.

Í erindinu segir hann frá heimsóknum sínum í klaustur Rétttrúnaðarkirkjunnar á Aþos-skaganum á Grikklandi, klaustrinu á eyjunni Patmos, Vallamo í Finnlandi og klaustri sem Arkimadrita Sofroni stofnaði þar sem hann hefur dvalið reglulega. Stofnandi klaustursins hefur tekið saman merkan texta um Jesúbænina eftir kenniföður sinn, heilagan Silouan.

Sr. Gunnlaugur fór yfir Biblíutexta sem liggja Jesúbæninni til grundvallar, jafnframt deildi hann með áheyrendum sínum þekkingu sinni og reynslu á bæn hjartans eins og hann hafði tileinkað sér í helgihaldi og iðkun í Rétttrúnaðarkirkjunnar. Honum tekst vel að miðla þessari miklu bænahefð og leiðbeina um notkun Jesúbænarinnar.

 

2. erindi. (Flutt miðvikudaginn 12. febrúar 2014)

Sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson, fyrrum sóknarprestur á Egilsstöðum. Árið 2013 skrifaði hann mastersritgerð um bænahefð Loyola, reglu Jessúíta. Hann hefur í starfi sínu lagt áherslu á andlega iðkun.

Íhugun og andlega fylgd samkvæmt hefð Ignatiusar Loyola en Nonni (Jón Sveinsson) var af reglu hans.

Sr. Vigfús Ingvar sagði frá þessari hefð sem á rætur að rekja til Loyola stofnanda jesúítareglunnar og bókar hans Andlegar æfingar. Eitt af einkennum hennar er að hlusta, hlusta á sjálfan sig og dýpstu þrár sínar, á aðra menn og þannig hlustar maður eftir Guði í lífi sínu. Hann nefndi að hann hefði verið á viku námskeiði þar sem þetta hefði verið aðal viðfangsefnið – að hlusta. Hann benti á að þau sem njóta andlegrar leiðsagnar eru algjörlega á sínum forsendum og leiðbeinandinn bregst við til þess að leiða þau áfram á sinni andlegu vegferð. Innlifun í frásagnir Biblíunnar er ríkur þáttur í þessari hefð. Taldi hann að Gunnar F. Guðmundsson í ævisögu sinni um Jón Sveinsson, mjög svo góðri, hafi yfirsést þetta atriði, þar sem Nonni var andlegur leiðbeinandi í reglu sinni. Það ásamt lifandi frásagnahefði í heimalandinu hefði verið stór þáttur í ritstörfum hans og skýrir þá barnslegu heiðríkju sem er í ritstörfum hans. Andlegt ferðalag sem þetta er alfarið undir merki frelsisins og lífsins eins og það er í raun.

 

“Biðjið og yður mun gefast, … knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.”
Jesús, Meistari bænarinnar

3. erindi. (Flutt miðvikudaginn 19. febrúar 2014)

Sr. Hjalti Þorkelsson, prestur Kaþólsku kirkjunni á Akureyri. Prestar Kaþólsku kirkjunnar og reglufólk biðja daglega tíðabænir á ákveðnum tíma dags, hver fyrir sig eða saman þar sem það hentar.

Tíðabænir, daglegar bænir kirkjunnar

Sr. Hjalti gerði góða grein fyrir bakgrunn tíðabænanna bæði meðal kristinna manna en einnig meðal annarra trúarbragða. Hann skilgreindi tíðabænina að það væri bæn sem væri beðin á ákveðnum tíma dags. Þá lýsti hann tíðabænunum í Kaþólsku kirkjunni og hvernig hún væri í dag meðal reglufólks, presta og almennings. Hann taldi tíðabænina mikilvæga fyrir kristnina og minninguna um Krist og eftirfylgdina við hann.

4. erindi. (Flutt miðvikudaginn 26. febrúar 2014)

Sr. Guðrún Eggertsdóttir er sjúkrahúsprestur og hefur kynnt sér og iðkað kyrrðarbænina undanfarin ár. Hún hefur verið þátttakandi í fræðslu og kyrrðardögum hér heima og erlendis og leitt vikulegan Kyrrðarbænahóp á Akureyri undanfarin ár.

Kyrrðarbæn. Um að játast nærveru Guðs og eiga við hann samfélag í djúpri kyrrð.

Sr. Guðrún Eggertsdóttir sagði frá sögu kyrrðarbænarinar sem hún rakti til bókar er var gefinn út á 14. öld The Cloud of the Unknowing. Bænin á sér þó lengri sögu sem þáttur í íhugunar og hugleiðsluhefð kristinnar kirkju. Sá sem hefur endurnýjað í seinni tíð kyrrðarbænina eða “centering prayer” eins og hún er nefnd á ensku er Thomas Keating, trappista munkur. Hann hefur gert bænina aðgengilega nútíma manninum og kennt hana þannig að hún verði mönnum að gagni í nútímanum. Nýlega hefur grundvallarrit hans um efnið verið gefin út á íslensku: Vakandi hugur, vökult hjarta. Um kyrrðarbænina – Centering Prayer. Útgefandi Skálholtsútgáfan 2013. Í erindi sínu gefur hún einfaldar leiðbeiningar um notkun bænarinnar og iðkun. Hún nefnir fjögur leiðarljós: 1. Veldu þér bænarorð sem tákn um þann ásetning þinn að játast nærveru Guðs og verki hans hið innra með þér. 2. Komdu þér þægilega fyrir með lokuð augu. Berðu fram orðið, í hljóði, sem tákn um þann ásetning þinn að játast nærveru Guðs og verki hið innra með þér. 3. Þegar við verðum upptekin af hugsunum okkar snúum við okkur blíðlega að bænarorðinu á ný. 4. Við höfum augun áfram lokuð í fáeinar mínútur að bænastund lokinni. Hér má horfa á fyrirlesturinn.