Kærleiksþjónusta

Vinaheimsóknir kirkjunnar í Eyjafjarðarprófastsdæmi

Á vegum Eyjafjarðarprófastsdæmis er boðið upp á vinaheimsóknir til aldraðra einstaklinga, þetta starf lætur ekki mikið yfir sér, en er smátt og smátt að eflast og aukast.
Með starfinu er reynt að rjúfa einangrun fólks og koma til móts við einaklinga sem hafa lítil tök á að fara út á meðal fólks, en vilja gjarnan fá heimsóknir úr nágrenninu. Sjálfboðaliðar sem að þessu starfi standa taka gjarnan að sér einn einstakling og verður það samkomulagsatriði hve oft er komið til fólks og hvað er gert, hvort farið er út að ganga, lesið eða bara rabbað saman.
Á dvalarheimilum hafa slíkar heimsóknir einnig verið vel þegnar og tengsl myndast sem báðir aðilar hafa haft ánægju af.

Þeir sem vilja vita meira um þessa starfsemi geta haft samband við sr. Sunnu Dóru Möller í síma 694 2805.

Nánari upplýsingar…

___________________________________________________________

Trúarleg þjónusta á Sjúkarhúsinu á Akureyri

Prestur er Guðrún Eggertsdóttir
Farsími er : 8600 545
Netfang : gudrune@fsa.is
Skrifstofa prests er hjá kapellu á FSA.

Frá árinu 1995 hefur verið boðið upp á trúarlega þjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). Fyrst með þjónustu djákna, síðan bættist við sjúkrahúsprestur árið 2006 og frá 2012 eingöngu prestur. Í starfslýsingu kemur fram að um kristilegt starf sé að ræða, þó er þjónustan veitt án tillits til trúarskoðana, allt eftir þörfum þeirra einstaklinga sem nýta sér hana. Starfið felst í sálgæslu, stuðningsviðtölum, bænastundum, helgihaldi og fræðslu. Í sálgæslu felst m.a. leiðsögn og stuðningur við þá sem mæta áföllum og þarfnast aðstoðar til að byggja upp bætta heilsu og farsæla lífsvon. Sjúkrahúsprestur situr í stuðningteymis starfsmanna og í áfallateymi SAk.

Sjúkrahúsprestur hefur samstarf við presta Akureyrarkirkju, svo og alla presta í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og víðar, auk forstöðumanna annarra trúarsafnaða og getur haft milligöngu sé þess óskað.

Allir geta nýtt sér þjónustu sjúkarhúsprests, jafnt sjúklingar, aðstandendur og starfsmenn. Sálgæslu skal veita öllum sem eftir henni leita óháð trúarskoðunum.

Viðtöl eru einkamál, þau eru ekki skráð í skýrslur.

__________________________________________________________

Samhygð

Samtök um sorg og sorgarviðbrögð á Akureyri og nágrenni
Netfang

Velkomin á fund Samhygðar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð.

Samhygð, samtök um sorg og sorgarviðbrögð á Akureyri og nágrenni, voru stofnuð í desember 1989 af hópi fólks sem hafði kynnst sambærilegum félagsskap í Reykjavík og fann að það var mikil þörf fyrir svona sjálfshjálparhópa á landsbyggðinni.

Frá upphafi voru fundir haldnir hálfsmánaðarlega allt árið í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Á veturna var reynt að vera með fyrirlestur í hverjum mánuði um hin ýmsu efni. Nú starfar félagið einu sinni í mánuði, frá september til maí, áætlað er að vera með fyrirlestra/erindi í hvert skipti.

Markmið samtakanna er að veita þeim stuðning sem koma að leita sér hjálpar eftir ýmis sorgaráföll er upp koma í lífinu, hvort heldur það er ástvinamissir, alvarleg veikindi, fötlun, atvinnumissir, skilnaður, gjaldþrot eða hvað annað.

Það hjálpar heilmikið að geta talað við einhvern í trúnaði um sorgir sínar og áhyggjur og vita að sá hinn sami hefur upplifað sömu tilfinningar og efasemdir um framtíðina, en getur nú litið glaður fram á veginn.

Á þessum samverustundum okkar er öllum frjálst að tjá sig en engin kvöð. Mikilvægt er að við deilum ekki tilfinningum okkar með öðrum fyrr en við erum tilbúin til þess sjálf.

Hingað kemur enginn til þess að afla upplýsinga um náungann og þjáningu hans. Allt sem hér fer fram og er sagt, er trúnaðarmál okkar sem hingað komum, þetta atriði er grundvöllur þess að hér ríki einlægni og umhyggja.

Ef þér finnst erfitt að tjá þig yfir hópinn en villt ræða þín mál hafðu þá óhikað samband við þá sem eru í forsvari fyrir samtökin og þú færð tækifæri til að eiga einkaviðtal við einhvern úr hópnum sem þú treystir.

Fundir Samhygðar eru í minni safnaðarsal Akureyrarkirkju, gengið inn hjá kapellunni. Opin hús/fundirnir byrja kl. 20:00 og eru auglýstir í Dagskránni.

Fara á heimasíðu Samhygðar…

__________________________________________________________

Hjálparstarf kirkjunnar

Hjálparstarf kirkjunnar veitir aðstoð innanlands og erlendis og upplýsingar má finna á vef starfsins: www.help.is

Hjálparstarf kirkjunnar

starf og saga

Hjálparstofnun kirkjunnar stofnaði þjóðkirkjan árið 1970.  Nafni stofnunarinnar var síðar breytt í Hjálparstarf kirkjunnar. Tildrögin að stofnuninni voru landssöfnunin „Herferð gegn hungri” sem hrundið var af stað til styrktar sveltandi fólki í Biafra-héraði í Nigeríu en einnig það að kirkjan hafði áður lagt skerf til hjálparstarfs utanlands sem nú þótti tímabært að koma í fastan farveg. Varð úr að hefja skipulegt hjálparstarf á vegum kirkjunnar í þróunarlöndum eins og tíðkast hafði lengi hjá nágrannaþjóðum okkar.

Á prestastefnu árið 1969 samþykktu prestar þjóðkirkjunnar að leggja árlega 1% af launum sínum til hjálparstarfs kirkjunnar og lögðu þeir þar með grunninn að rekstri stofnunarinnar sem tók til starfa nokkrum mánuðum síðar. Síðan hefur Hjálparstarf kirkjunnar tekið þátt í þróunar- og neyðarstarfi víða í heiminum.

Uppbygging stofnunarinnar

Hjálparstarf kirkjunnar er sjálfseignarstofnun og er yfirstjórn hennar í höndum fulltrúaráðs. Kirkjuráð skipar fimm menn í fulltrúaráð og hvert prófastsdæmi landsins kýs einn mann. Sóknir geta skipað eigin fulltrúa og hafa all margar gert það. Alls eru fulltrúar því nú um 70 talsins. Fulltrúar mega ekki sitja í ráðinu lengur en í sex ár samfellt. Fulltrúaráð kýs framkvæmdastjórn sem ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra til fjögurra ára í senn. Sem ásamt starfsmönnum sem nú eru sjö, annast daglegan rekstur stofnunarinnar.

Val á verkefnum

Hlutverk Hjálparstarfs kirkjunnar er að hafa forgöngu um og samhæfa mannúðar- og þróunarstarf íslensku kirkjunnar. Verkefni hennar eru valin án tillits til þjóðernis, kynþáttar, trúarskoðana eða pólitískra hugmynda viðtakenda og án tillits til hver sé orsök neyðarinnar. Verkefni eru á hverjum tíma valin eftir efnahag stofnunarinnar, hjálparbeiðnum sem berast og mati stjórnar og samstarfsaðila um hvar og hvernig hjálpin muni skila bestum árangri.

Hjálpin kemst til skila

Hjálparstarfið er skipulagt og unnið í náinni samvinnnu við aðila sem við þekkjum og treystum. Stofnunin er aðili að hjálparstarfi tveggja alþjóðlegra kirkjustofnana sem eru Lútherska heimssambandið og Alkirkjuráðið. Náið samstarf er við þessar stofnanir og í gegnum þær koma flestar neyðarbeiðnir sem til okkar berast. Hjálparstarf kirkjunnar hefur einnig gott samstarf við systurstofnanir á Norðurlöndum sem venjulega hafa starfsmenn á hjálparsvæðunum. Síðast en ekki síst er um að ræða samstarf við ýmsa aðila í þriðjaheiminum sem þekkja vel aðstæður á hjálparsvæðum. Hjálparstarfið fylgist náið með framvindu verkefna með heimsóknum og í gegnum reglulegr skýrslurog reikninga frá samstarfsaðilum. Með þessu móti getum við best tryggt að hjálpin berist ævinlega þeim sem þarfnast hennar.

Hvert fara peningarnir?

Skipta má starfinu í þrjú svið: Neyðarhjálp, þróunarsamvinnu og innanlandsaðstoð.

Neyðarhjálp felst í því að útvega sem allra fyrst matvæli, hjúkrunargögn og fleiri lífsnauðsynjar til notkunar á hjálparsvæðum. Hjálparstarf kirkjunnar starfar oftast í gegnum ACT Alliance sem vinnur að því að samræma neyðaraðstoð og þróunarstarf kirkna og kirkjutengdra stofnana um allan heim. Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að ACT sem t.d. sér um að í hjálparbeiðnum séu allar nauðsynlegar upplýsingar. ACT samræmir störf félaga sinna, m.a. með því að skipuleggja móttöku hjálpargagna á neyðarsvæðum, vatns- og frárennslismál, matardreifingu og annað slíkt t.d. í flóttamannabúðum og miðlar sérþekkingu þangað sem hennar er þörf.

Mest áhersla er lögð á þróunarsamvinnu, þar sem miðað er að því að bæta hag fólks til frambúðar. Þá er stuðlað að umbótum á þáttum eins og matvælaframleiðslu, heilsuvernd, menntun og umhverfisvernd. Undir þetta getur einnig fallið aðstoð við fólk í félagslegri neyð, t.d. fatlað fólk og munaðarlaus börn. Enn einn liður í starfi stofnunarinnar er barátta fyrir mannréttindum.

Inntakið í öllu þróunarstarfi stofnunarinnar er þátttaka viðtakenda. Með því að virkja  frumkvæði þeirra og atorku skila verkefnin miklu meiri árangri. Verkefnin miðast öll við aðstæður á hverjum stað. Þannig er hægt að nýta staðarþekkingu um leið og fólki gefst kostur á að læra nýja tækni og verklag sem nýtist því við aðrar framkvæmdir á staðnum.

Hjálparstarf kirkjunnar veitir einnig aðstoð innanlands. Þeir sem leita til stofnunarinnar fá ráðgjöf félagsráðgjafa við hverja heimsókn og efnislega aðstoð s.s. mat, föt, aðstoð með lyfjakaup, styrki vegna barna og fleira. Hjálparstarfið skráir upplýsingar um aðstæður hvers og eins til að geta veitt sem besta aðstoð. Tölfræðileg úrvinnsla ganga gerir stofnuninni kleift að veita stjórnvöldum áreiðanlegar upplýsingar um kjör þeirra verst settu og stuðla þannig að betri lausnum á vanda þeirra.

Hvaðan koma peningarnir?

Fjáröflun Hjálparstarfs kirkjunnar byggist nær eingöngu á frjálsum framlögum. Safnanir, regluleg framlög fastra styrktarmanna, sókna og presta eru mikilvæg tekjulind. Einnig hefur stofnunin tekjur af sölu friðarkerta fyrir jólin. Rekstar- og stjórnunarkostnaði stofnunarinnar er haldið í lágmarki. Skýrt er kveðið á um hvaða fjármuni megi nota til reksturs og hverja ekki.

Tekið er á móti framlögum í öllum bönkum og sparisjóðum reikning 27 í Arionbanka (0334 26 27) og á skrifstofu Hjálparstarfsins að Háaleitisbraut 66, Reykjavík.

Frekari upplýsingar…