Siðbótin var einn áhrifaþáttur í upphafi nútímans. Mótmæli Lúters 1517 eru tákn um frelsi sem var fáheyrt að menn leyfðu sér innan páfakirkjunnar. Margt í nútímanum á rætur að rekja til þeirra hugmynda sem voru þá að mótast. Í þessum erindum verður tekist á við samtíma okkar á 21. öld þar sem samfélagið er veraldlegt án trúarlegra skírskotana, fjölhyggja er lögð til grundvallar og mannréttindi. Það eru ögrandi viðfangsefni kirkju og guðfræði sem ætlunin er að ræða þessi kvöld. Með þessu viljum við gefa einstaklingum tækifæri til að tjá sig um þessi brennandi málefni.
Miðvikudaginn 1. mars
Samfélagsþróunin og trúarlífið: Hvað er framundan?
Í erindinu er farið yfir stöðu og þróun trúarlífs í samfélaginu í ljósi hugmynda um nútímavæðingu og veraldarhyggju. Þá er fjallað um rannsóknir og niðurstöður um þróun trúarlífs á Íslandi og niðurstöður túlkaðar í ljósi fræðilegrar umræðu. Loks verður fjallað um framtíðarhorfur trúarlífs og trúarstofnana á Íslandi.
Rúnar Vilhjálmsson er prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Helstu rannsóknarsvið Rúnars innan félagsfræðinnar eru heilsufélagsfræði, félagsfræði unglinga, og félagsfræði vísinda. Rúnar hefur meðal annars fengist við rannsóknir á geðheilbrigði fullorðinna, áhættuhegðun unglinga og árangri háskólamanna í kennslu og rannsóknum. Rúnar er núverandi formaður Félags prófessora við ríkisháskóla og stjórnarmaður í Hinu íslenska biblíufélagi.
Miðvikudaginn 8. mars
Þjóðkirkjan og aðrar kirkjur og trúarbrögð: Hver er staða hennar í fjölhyggjusamfélagi?
Í erindinu eru samskipti kirkna á Íslandi til umfjöllunnar og áhrif siðbótarinnar á deilur og umræðu þeirra á milli. Samkirkjulega hreyfingin á 20. og 21. öld er skoðuð þar sem kirkjur hafa nálgast í skilningi á trú og þjónustu í heiminum. Hver er staða þlóðkirkjunnar í fjölhyggjusamfélagi og hvaða framtíð á hún sem evangelisk kirkja meðal annarra kirkjudeilda?
María Ágústsdóttir er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra en þjónar Háteigssöfnuði um þessar mundir. Á síðasta ári lauk hún doktorsprófi frá Háskóla Íslands um samkirkjuleg málefni sem er hennar helsta rannsóknar- og áhugasvið. María er formaður Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi og leiðir starf Alþjóðlegs bænadags kvenna hérlendis. Einnig á hún sæti í Samkirkjunefnd þjóðkirkjunnar og starfaði um tíma með Samráðsvettvangi trúfélaga.
Miðvikudaginn 15. mars
Sístæð siðbót og frelsishugsjónir nútímans: Á þjóðkirkjan að berjast fyrir mannréttindum?
Í erindinu eru hugmyndir samtímans um mannréttindi skoðaðar út frá sjónarhorni lúthersku þjóðkirkjunnar. M.a. verður spurt hvort þjóðkirkjan eigi að tala máli mannréttinda og hvernig almenn mannréttindabarátta geti samrýmst kenningum og starfi kirkjunnar?
Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Fræðslu- og umræðukvöld í Glerárkirkju í 3. okt. – 8. nóv. á miðvikudagskvöldum kl. 20
Uppgjör við siðbót
er röð erinda í tilefni af siðbótarafmælinu þar sem áhrif siðbótarinnar eru metin og túlkuð í ljósi samtímans. Siðbótarafmælið er miðað við það þegar Marteinn Lúther negldi mótmælagreinar sínar upp á hurð Hallarkirkjunnar í Wittenberg, en hvað hefur það með borgarsamfélag nútímans að gera? Það eru þrír biskupar, tveir prófessorar og tveir guðfræðingar sem fjalla um Heilaga Ritningu, kenningar, söfnuðinn, helgihald, reynslu og siðferði í þessu samhengi. Markmiðið með kvöldunum er að skoða á þessum tímamótum arf lúthersku kirkjunnar og ræða um þýðingu hans á líðandi stundu.
Miðvikudagur 4. okt.
Reynslan sem mótaði Martein Lúther sem guðfræðing
- Hvað í lífi Lúthers varð til þess að hann gerði uppreisn gegn áherslum guðfræðinnar í upphafi 16. aldar?
- Hvað hvatti Lúther áfram í siðbótarvinnunni?
- Hvernig mótaði reynsla og heimsmynd Lúthers hugmyndir hans um Guð?
- Hvernig varðveitum við best áherslur Lúthers í upphafi 21. aldar?
Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í trúfræði við guðfræði og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands
Miðvikudagur 11. okt.
Siðbótarkonur í fortíð og nútíð. Söfnuðurinn í breyttum heimi
- Höfðu konur eitthvert hlutverk í siðbótinni og hver er staða þeirra í söfnuðunum í dag?
- Hvernig hefur kirkjan breyst frá siðbót og til dagsins í dag í takt við samfélagsbreytingar?
- Er evangelisk lútherska kirkjan sveiganlegri varðandi mannréttindabaráttu en aðrar kirkjur?
- Hvernig endurspeglast það í kvennabaráttu frá hlutverki kvenna í siðbót til stöðu þeirra í söfnuðunum í dag?
Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, víglsubiskup á Hólum
Miðvikudagur 18. okt.
Guðsþjónusta siðbótarkirkjunnar og endurnýjun hennar
- Hvaða breytingar urðu á helgihaldi kirkjunnar með siðbótinni?
- Er áherslan á Guðs orð (og útleggingu þess) á kostnað sakramentanna, skírnar og kvöldmáltíðar?
- Hafa hugmyndir Lúthers um almenna þátttöku safnaðarins í helgihaldinu orðið að raunveruleika í kirkjunni?
- Er áhersla Lúthers á altarissakramentið ennþá sami kjarninn í helgihaldi kirkjunnar?
Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti
og formaður helgisiðanefndar
Miðvikudagur 25. okt.
Fræðslustefna siðbótarinnar sístætt verkefni
- Hvaða áherslur lögðu Lúther og samstarfsmenn hans á fræðslu og hvernig mætti útfæra þær í kirkjunni í dag?
- Hvernig var boðun trúar drifkrafturinn í almennri fræðslu?
- Hvernig var trúfræðslan hugsuð og framkvæmd?
- Hvernig mótuðust tengsl kirkju og skóla í siðbótarlöndunum?
- Hvernig verður trúfræðslan framkvæmd í afhelguðu samfélagi og fjölhyggju (veraldarvæddu) skólakerfi?
Dr. Gunnar J. Gunnarsson, formaður siðbótarnefndar
og prófessor við menntasvið Háskóla Íslands
Miðvikudagur 1. nóv.
Saga siðbótarinnar og evangelísk lútherska kirkjan í dag
- Hvaða þýðingu hefur siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther fyrir kirkjuna sem er kennd við hann?
- Hvernig er saga Lúthers og siðbótarkirkjunnar?
- Hvaða þýðingu hafði uppgötvun hans og framsetning á fagnaðarerindinu?
- Hvaða áhrif hafði það á kirkju og samfélag?
- Og hvernig starfar evangelisk lútherska kirkjan í dag?
Sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup.
Miðvikudaginn 8. nóv.
Persónuleg trúarreynsla og daglegt líf
- Hvað er svona merkilegt við það að vera trúaður og að biðja?
- Hvernig varð trúarreysla Lúthers og uppgötvun hans á fagnaðarerindinu mótandi fyrir bænalíf einstaklinga í siðbótarkirkjunni?
- Hvernig verður trúin einstaklingsbundin með siðbótinni?
- Hver er munurinn á iðrun og betrun annars vegar og hins vegar afturhvarfi og tileinkun trúarinnar?
- Hvernig reynist bænalíf í þessum anda í nútímasamfélagi?
Sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur
í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófstsdæmi