Fyrsti hluti: Fimm þættir eftirfylgdarinnar

Veturinn 2020-21 var sr. Guðmundur Guðmundsson með erindi í samstarfi við útvarpsstöðina Lindin um eftirfylgdina við Krist. Þau voru og verða á miðvikudagsmorgnum kl. 9 og svo aðgengileg á appi-útvarpstöðvarinnar og hér á þessari síðu. Þetta eru stutt erindi með innskoti af tónlist og spjalli, um hálftíma þættir. Erindin eru lögð til grundvallar á námskeiðinu. Fyrsti þátturinn fór í loftið 2. september 2020. Með þessu móti verður gefin kostur á að njóta fræðslu um kristna trú þó að samkomutakmarkanir séu í gangi. Einnig er stefnt að mynda umræðuhópa um efnið ef áhugi er fyrir hendi í raunheimum eða á ZOOM-inu.

Í kynningu segir:

Eftirfylgd eru þættir í umsjá sr. Guðmundar Guðmundssonar, héraðsprests á Akureyri. Í þáttunum varpar Guðmundur fram spurningunni: Ef Guð myndi mæta þér á leið þinni og segði við þig: „Fylg þú mér“, myndir þú standa upp og fylgja honum? Hann dregur fram fimm þætti eftirfylgdarinnar samkvæmt guðspjalli Matteusar:

Biðjandi samfélag sem vitnar um Drottinn, boðar hann og þjónar eins og hann í heiminum.

Þema námskeiðsins

Fyrst kemur formáli og svo inngangur sem útskýrir forsögu eða fospjall Matteusarguðspjalls í 1-2. kafla þess. Það má gjarna fletta upp á guðspjallinu á vef Biblíufélagsins og hlusta á guðspjallið þar eða nálgast biblíuappið. Slóðin er hér.

Fyrsti hluti er svo um inngang guðspjallsins sem ég nefni svo, 3-4. kafli, þar sem þættirnir fimm eru kynntir hver á fætur öðrum.

Óska eftir að fá aðgangi að rafbók og/eða 1. heftið sent á Pdf-formi:

Formáli

Þáttur 1 – Formáli

Hvað felst í því að fylgja Jesú Kristi?

Kynning á Guðmundi. Elín Steingrímsen starfsmaður útvarpsstöðvarinnar ræðir við Guðmund og var svo viðmælandi hans eftir þættina, þar sem efni þáttanna var rætt frekar. Þá segir frá tildrögum efnisins og innblæstri í upphafi.

Hlusta á þáttinn:

Inngangur – upphaf og endir guðspjallsins

Þáttur 2 – Inngangur – upphaf og endir guðspjallsins um tilbeiðslu Jesú Krists og raunveruleikann

Hvað er meginatriði í upphafi og lok guðspallsins?

Í þessum 2. þætti eru kafli 1-2 og 28 í guðspjalli Matteusar skoðaðir. Jólaguðspjall Matteusar er um tilbeiðslu með helgisagnablæ en jafnframt afar raunsæ frásögn og lýsing á mannlegum veruleika. Sunginn er sálmurinn Maríuljóð frá Betlehem eftir Guðmund við lagið: We three kings.

Hlusta á þáttinn:

Þáttur 3 – Inngangur – upphaf og endir guðspjallsins um helgisögu og/eða raunveruleikann (framhald)

Hvernig tengist tilbeiðslan Guði og vitnisburðurinn um Guð raunveruleikanum?

Í þessum 3. þætti eru kafli 1-2 og 28 í guðspjalli Matteusar skoðaðir betur. Áður en jólaguðspjallið sveipaðist helgisagnablæ var með því dreginn upp raunsæ mynd af mannlegum veruleika sem vísar til píslargöngu Jesú. Það sem beið hans en jafnframt að Drottinn Kristur sigraðist á þverstæðum lífsins. Hann var flóttamannabarn í Egyptalandi vegna harðstjórnar. Sunginn er sálmur Lúthers Vor Guð er borg á bjargi traust sem dæmi um vitnisburð trúarinnar í heiminum.

Hlusta á þáttinn:

1. hluti. Fimm þættir eftirfylgdarinnar

Þáttur 4 – Fimm þættir eftirfylgdarinnar:  Biðjandi samfélag sem vitnar um Drottin, boðar hann og þjónar eins og hann

Hverjir eru fimm þættir eftirfyldarinnar?

Í þessum 4. þætti eru kafli 3-4 í guðspjalli Matteusar útskýrðir. Þeir eru einhverskonar inngangur að guðspjallinu en fyrstu tveir kaflarnir eru forsaga eða formáli. Þættirnir fimm tilbeiðsla, vitnisburður, samfélag, boðun og þjónusta koma hver á fætur öðrum í þessum köflum. Þeir samsvara ræðunum fimm: Fjallræðunni, 5-7. kafla. Útsendingarræðunni, 10. kafla. Ræðunni með dæmisögum Jesú um Guðs orð og ríki í 13. kafla. Ræðunni um samfélagið í 18. kafla. Og að lokum Jerúsalemræðunum um að þjóna sínum minnstu bræðrum og systrum í 23-25. kafla. Við getum líkt þessum fimm þáttum við fimm fingur á hendi.

Hlusta á þáttinn:

Þáttur 5 – Fimm þættir eftirfylgdarinnar:  Biðjandi samfélag sem vitnar um Drottin, boðar hann og þjónar eins og hann (framhald)

Hvernig kemur vitnisburður trúarsamfélagsins fram í orði og verki?

Í þessum 5. þætti er kafli 4 í guðspjalli Matteusar skoðaður nánar. Það eru þrír seinni þættir eftirfylgdarinnar: Boðun, samfélag og þjónusta. Prédikunin og kennslan er ásamt þjónustunni vitnisburður lærisveinanna í heiminum. Eins og vísifingurinn bendir í þá átt sem á að fara beinir vitnisburðurinn á stefnu boðunar, samfélags og þjónustu, til annarra. Lærisveinarnir eiga að þjóna eins og Jesús gerði í heiminum.

Hlusta á þáttinn:


Viltu vera með í umræðuhópi?