Helgihald

Helgihald kirkjunnar er tilbeiðsla og bæn sem beinist til Guðs föður fyrir soninn í heilögum anda. Því hefst guðsþjónustan og margar athafnir kirkjunnar á signingu í nafni föður og sonar og heilags anda. Kristið helgihald snýst um Krist og bænina eins og hann kenndi. Á þessum síðum um helgihald, íhugun og bæn er kennsla í því að vera biðjandi kirkja. Þetta eru námskeið og ráðstefnur sem haldnar hafa verið í prófastsdæminu eða annars staðar. Erindin eru á myndböndum (YouTube) með glærum sem birtast jafn óðum. Þeir sem vilja fara í gegnum efnið geta skráð sig og fengið sent ítarefni og fengið svör við fyrirspurnum. Leiðbeinandi er sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur.

Einnig er hér að finna leiðbeiningar um mismunandi helgihald sem reynt hefur verið á svæðinu eins og æðruleysismessur, kertamessur og kyrrðar- og fyrirbænastundir. Þá er jólasöngvar, Níu lestrar sem eru notaðar í ensku biskupakirkjunni, föstulestrar um stöðvar píslargöngunnar (Úr bænabók), svo sjö orð Krists á krossinum sem hefur verið lesin á föstudaginn langa í Akureyrarkirkju og víðar. Upplýsingar um helgihald kirkjunnar má einnig finna á kirkjan.is. Þar er einnig sálmabókina að finna og hægt að hlusta á suma þeirra. (Verður birt á næstunni)

Þá má vænta að bætist við í þennan sarp um helgihald með von um að hann nýtist til að auðga bænalíf og helgihald í kirkjunni.

Hér getur þú skráð þig á eftirfarandi námskeið eða sent fyrirspurnir.

 

Kristin íhugun og bæn

Fyrirlesarar

Fyrirlesararnir og leiðbeinendurnir hafa allir lagt stund á þá bænahefð sem þeir kynna og leiðbeina í.

Umræður og iðkun

Eitt af markmiðum með námskeiði sem þessu er að gefa þeim sem áhuga hafa möguleika að ræða um andleg mál til að auðga sig og aðra með gefandi samtali. Kyrrðarbænin er iðkuð í kapellunni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) á miðvikudögum kl. 17 yfir vetrartímann. Þá eru sr. Guðrún Eggertsdóttir og sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson með kyrrðardaga reglulega sem kynnt eru hér á vefnum og skrá má sig á lista til að fá sendar upplýsingar um næstu kyrrðardaga. Í kaþólsku kirkjunni á Akureyri eru tíðarbænirnar iðkaðar reglulega. Svo eru guðsþjónustur kirkjunnar bænastundir sem allir geta nýtt sér og prestarnir tilbúnir að veita andlega leiðsögn.

Námskeiðið hefur einnig það að markmiði að stíga lengra en fræðileg umræða gerir með því að leiðbeina þátttakendum um nokkrar íhugunarhefðir kirkjunnar. Þátttakendur eru hvattir til að venja sig á reglulegar íhugunar- og bænastundir. Ef þú vilt ganga lengra eru allir fyrirlesararnir tilbúnir að veita einslega leiðsögn og má senda sr. Guðmundi fyrirspurn um það.

Kristin íhugun og bæn – andlega iðkun kirkjunnar

Kristin íhugun hefur verið stunduð um aldir. Til eru ýmsar aðferðir og verða nokkrar þeirra kynntar hér. Íhugun er andleg heilsurækt og þáttur í trúarlegri uppbyggingu kristins fólks í erli dagsins.

Horfa á myndböndin…

Sjá einnig  http://kristinihugun.is/

Íhugun, bæn og fasta

ihugun_baen_fasta_2016_bordi

Margir taka þátt í mannrækt og sjálfshjálparhópum sem iðka ýmis konar andlegar æfingar. Oft leita menn langt yfir skammt því að kjarni kristinnar trúar er bænaiðkun, hugleiðsla og lífsleikni. Á þessu námskeiði er (1) leiðbeint og æfð bæn eins og Jesús kenndi hana. (2) Gengið í föstu sem er þjálfun í lífsleikni. (3) Kyrrðarbæn kennd og æfð en hún á rætur að rekja til trúariðkunnar í klaustrunum.

Fyrirkomulag fræðslu- og umræðukvöldanna í Glerárkirkju er ágæt fyrirmynd ef menn vilja nýta þetta efni með heimsókn fyrirlesara eða nota myndböndin. Kvöldin byrja með fyrirlestri, síðan er kaffihlé og eftir þær umræður. Á þessu námskeiði var tekin drjúg stund inni í kirkju til bæna- og íhugunar í góðu og friðsælu umhverfi.

Eftirfarandi dagskrá var í Glerárkirkju vorið 2016 :

Fyrsta erindi:

Sálmar og bænalíf

Fyrirlesari: Guðmundur Guðmundsson

1. Hvernig má nota Guðs orð í bænalífi sínu?

2. Áhersla á Davíðssálma.

3. Sálmabókin sem bænabók.

Horfa á erindi…

Annað erindi, var flutt á öskudegi:

Gengið í föstu

Fyrirlesari: Þorgrímur Daníelsson

1. Leiðbeiningar um föstuhald sem lífsleikni og andleg þjálfun.

2. Meinlætalíf eða gott og heilbrigt líferni.

Horfa á erindi…

Þriðja erindi:

Kyrrðarbæn og íhugun

Fyrirlesari: Guðrún Eggertsdóttir

1. Leiðbeiningar um íhugun.

2. Kyrrðarbænin kennd

3. Æfingar í kyrrðarbæn

Horfa á erindi…


Íhugunarstundir og kyrrð, hvíld og næði