Hugvekja um tengsl við Guð
Flutt á útvarpsstöðinni Lindinni 8. október. Hlusta má á hana hér:
Komið sæl. Guðmundur Guðmundsson, heiti ég, og er héraðsprestur búsettur á Akureyri.
Mig langar til að dvelja við hugsanir um tengsl okkar í dag. Þau skipta mála, miklu máli, þegar við hugsum og tölum um Guð. Textinn sem ég valdi er úr guðspjalli Jóhannesar. Það er úr bæn Jesú í 17. kafla guðspjallsins, sem hefur verið nefnd „æðstaprestsbænin“:
(Þ)að er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist. (Jóh 17,3)
Áður þetta sama kvöld hafði Jesús átt samtal við Filippus, einn af postulunum, um það að þekkja hann. Filippus spurði hann:
„Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.“
Jesús svaraði: „Ég hef verið með ykkur allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki. Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn“. ( Jóh 14,8-9)
Ekki er alveg ljóst að Jesús sé að tala um tengsl en augljóslega vísar hann til vináttu þeirra Filippusar og hinna lærisveinanna. En það eru auk þess tvö orð í viðbót sem við þurfum að skoða og þá verður það alveg ljóst að Jesús er að tala um tengsl við sig og Guð. Merkilegt að hann leggur það að jöfnu, að þekkja Guð er að þekkja Jesú Krist, sem hann sendi. Fyrst er það sögnin að þekkja sem á hebresku merkir ekki aðeins að vita eitthvað heldur að þekkja sem vin. Orðið er notað um nánustu tengsl karls og konu í hebresku. Í trúarlegu samhengi eru það innilegustu tengsl sem möguleg eru í mannlegu lífi, persónuleg tengsl okkar við Guð. Nú hugsa ég um Guð í nokkuð víðri merkingu sem sú persóna eða getur líka verið hlutir sem við setjum traust okkar á. Hitt orðið er sögnin að sjá. Þú ættir að rannsaka það orð í Nt. Við erum öll í tengslum við Guð vegna þess að við erum sköpun Guðs sem heldur sífellt áfram, hvert augnablik, hvert æðarslag okkar er verk Guðs. Svo er annað mál í hvernig samband okkar við Guð er. Þegar Jesús segir við Filippus, „sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn“, þá á hann við að hann miðlar raunverulegri þekkingu á Guði, svo við getum þekkt hann eins og hann er. Það er að sjá og felur í sér lifandi samband við Guð.
Einn morguninn síðsumars var ég að fá mér mjólk út í kaffið mitt. Rak þá augun í þetta ágæta ljóð eftir 14 ára ungmenni. Mjólkursamsalan á hrós skilið fyrir þessa uppáfinningarsemi að stuðla að eflingu íslenskunnar með þessu móti að birta texta á mjólkurfernunum. Kannski talaði þetta ljóð til mín vegna þess að ég hef gaman af og nýt þess að glamra á píanóið mitt, þó ekki sé það yndi í eyrum annarra, vegna þess að kunnáta mín og færni er takmörkuð.
Deanne (Rylan Maamo) Tolato er vafalaust komin lengra sem skrifaði þetta fallega ljóð um tengsl hennar við tónlistina:
Ég er vænlegur píanóleikari.
Tenging mín við píanóið
skilgreinir hluta af því sem ég er.
Þetta hljóðfæri er ekki bara nótur,
heldur gátt inn í tilfinningar mínar og sköpun.
Tónlistin er mál mitt,
píanóið er rödd mín.
Ég nota það til að tengjast þeim
sem deila sömu tilfinningum,
sem orð fá ekki lýst.Hver hljóðtaktur er hluta af mér,
hvert lag er stöðugt ferðalag.
Spila klukkutíma eftir klukkutíma
og kynnist sjálfum mér upp á nýtt.(Deanne Rylan Maamo Tolato, 14 ára, Landakotsskóla. ms.is/fernuflug).
Ljóðið og hugleiðingin er magnað dæmi um það sem ég er að ræða um. Píanóleikarinn er að tala um miklu meira en tengsl sín við píanóið eins og þið heyrðuð. Tengslin eru inn á við, „skilgreina hluta af því sem ég er“. Tónlist er miklu meira en nótur, hún er tilfinning, sköpun, mál og rödd. Svo kemur þess setning sem er tær snilld: „Ég nota það til að tengjast þeim sem deila sömu tilfinningum, sem orð fá ekki lýst.“ Tónlistin tengir fólk saman og tengsl eru meira en orð. Því er reyndar haldið fram í háskólum að málið er aðeins brot af samskiptum okkar manna.
Það er hugsunin sem ég vil halda áfram með. Samskipti okkar við Guð, eru bara að litlu leyti, vil ég segja, bundin við orð. Nú hrekkur kannski einhver við sem hefur lært að meta og lært Guðs orð. Sambandið við Guð er lifandi samband í þeirri merkingu að við sem sköpun getum ekki án Guðs verið, ekki frekar an við getum lifað án lofts og ekki njótum við okkar nema fyrir ást. Ein kröftugasta samlíking sem ég hef heyrt um þetta er að Guð umlykur okkur eins móðurlíf fóstur. Þar eru engin orð og engin ræða, aðeins líf.
Að þekkja sjálfan sig er talið mikilvægt í okkar samhengi en eflaust er það rétt að við þekkjum ekki okkur sjálf fyrr en við sjáum okkur í samhengi við Guð. Þetta ljóð á mjólkufernunni vakti eftirfarandi hugleiðingu í mínu hjarta. Guð hefur tengst okkur í Jesú Kristi og það er ekki aðein kenning heldur líf, lifandi samfélag við Guð sjálfan sem maður ræktar í bæn og íhugun, í tengslum sínum við sjálfan sig, samferðafólk sitt og náttúruna.
Þannig varð þetta ljóð mitt til: Hver er ég? Auðvitað eru þetta bara orð en þau vitna vonandi um LÍFIÐ, með höfuðstöfum.
Hver er ég?
Þannig spyr fólk sig og ég mig.
Er það ekki skrýtið,
að við þekkjum ekki okkur sjálf.
Þó á ég ekki annarra kosta völ
en að hugsa mínar hugsun,
finna mínar tilfinningar
og vilja það sem ég stefni að.Það er eiginlega fáránlegt
að þekkja ekki sjálfan sig,
að segja sem svo eins og oft er gert,
“vertu þú sjálfur”, eins og maður eigi annarra kosta völ.Ég veit hver ég er
þegar ég horfi í augu barnanna minna,
ég er faðir þeirra.Ég veit hver ég er
þegar ég geng um garðinn minn
og horfi á trén vaxa sem ég gróðursetti,
ég er ráðsmaður í náttúrunni.Ég veit hver ég er
þegar ég fer með bænirnar mínar
og bið faðir vor, þá þekki ég sjáfan mig,
ég er barn Guðs með öllum hans börnum
í sköpun Guðs sé ég dýrðina og lifi.