Kristniboðssamkoma 25. febrúar kl. 15:30 með Janet M. Sewell

Sunnudaginn 25. febrúar kemur Janet M. Sewell í heimsókn til Akureyrar og verður á kristniboðssamkomu í Sunnuhlíð 12, félagsheimili KFUM og KFUK, samkoman hefst kl. 15.30. Hún mun einnig taka þátt í guðsþjónustu í Glerárkirkju kl. 18 sama dag. Janet er ásamt eiginmanni sínum Meheran Rezai kristniboðar meðal fasi mælandi fólks frá Íran staðsett í London. Þau muni taka kristniboðsvígslu helgina á eftir í Reykjavík. Hún mun segja frá sér og starfi sínu og starfi þeirra Meheran meðal Írana. Meðfylgjandi mynd er af alþjóðasöfnuðinum í Trinity Church í London þar sem þau starfa.

Nánari kynning á Janet

Janet María Sewell er fædd og uppalin á Íslandi en á franska móður og faðir hennar var enskur. Hún kemur ekki úr kristinni fjölskyldu en kynntist Kristilegum skólasamtökum (KSS) í gegnum kunningja á unglingsárunum og eignaðist þar trú á Jesú. Hún var skírð á skólamóti í Vatnaskógi. 

Fljótlega eftir stúdentspróf fann hún fyrir köllun til kristniboðs. Hún fór tvítug til Grikklands þar sem hún ætlaði að vera í nokkra mánuði en endaði á að vera þar í 15 ár. Þar starfaði hún fyrir Hellenic ministries sem m.a starfa meðal flóttafólks þar í landi. Á Grikklandi kynntist hún eiginmanni sínum Meheran Rezai. Hann er fyrrum múslimi sem þurfti að flýja heimalandið Íran eftir að hann gerðist kristinn. Fyrir nokkrum árum fluttust þau til London þar sem Janet lauk m.a. nýverið mastersnámi í kristniboðsfræðum og fjallaði lokaritgerð hennar um sýndarveruleika í kirkjustarfi og kristniboði (sjá má viðtal við hana í síðasta tölublaði Bjarma).  Hún starfar nú aðallega fyrir Lausanne Europe. Þau hjónin taka þátt í starfi alþjóðlegrar kirkju í London (London Trinity Church) en þar hefur sl. ár vaxið hratt upp íranskur söfnuður sem Meheran veitir nú forstöðu. Íranska kirkjan er sú hraðast vaxandi í heiminum í dag og spennandi að fylgjast með því sem er að gerast. Meheran er ekki aðeins í samskiptum við Írani sem sækja kirkjuna heldur einnig við fólk víðar í Bretlandi og annarsstaðar í heiminum í gegnum netið. Verkefnið er því stórt og mikið. Margir hafa komist til trúar í gegnum starf safnaðarins í London og reglulega eru nýir meðlimir skírðir. SÍK hefur styrkt þau hjón fjárhagslega nánast frá því að Janet fór fyrst til starfa fyrir 20 árum en á aðalfundi í fyrra var formlega samþykkt að þau yrðu tekin inn sem kristniboðar á vegum SÍK.