„TAk og les!“ – hvernig lesum við?

Hvernig fer maður að því að lesa guðspjall sem er næstum því tvö þúsund ára gamalt? Einhverjum gæti fundist tímamunurinn svo mikill að eina leiðin gæti verið að leggjast í fornfræði. Textafræðingar eða „filolog“ eru þeir nefndir sem rannsaka gamla texta eða elska gamla texta eða orð eins og gríska orðið þýðir. Guðfræðingar læra textafræði og það hjálpar en hvort á ég að segja að það þurfi meira eða minna til. Biblían er trúartexti sem best er að nálgast í bæn og í söfnuðunum eru textarnir lesnir upphátt og útskýrðir og heimfærðir. Þannig eru guðspjallatextarnir lifandi textar en ekki óskiljanlegt fornt letur á steinvegg, eins og áletranir á veggjum píramýda. Það þarf þá ekki meira til en að hafa guðspjallið handa á milli eða hlusta á það og að biðja Guð um leiðbeiningu. Það er fyrsta skerfið.

Hvernig má lesa guðspjallið og Biblíuna á mismunandi hátt

Hér eru nokkur dæmi um hvernig biblían er og hefur verið lesin á mismunandi hátt

  • Þekkt er frásagan af Ágústínusi kirkjuföður. Áhrif Biblíunnar voru mikil á hann og þar með á Vestræna miðaldamenningu og allt til nútímans má sjá áhrif hans. Frásagan er svona:

Og sjá, þá heyri ég rödd úr næsta húsi, eins og drengur eða stúlka, veit ekki, hvort heldur var, færi syngjandi með þessi orð hvað eftir annað: „Tak og les, tak og les.“ … Ég gat ekki skýrt þetta öðruvísi en að Guð væri að bjóða mér að opna bókina og lesa fyrsta kaflann, sem fyrir mér yrði.

Ágústínus: Játningar. Síðara bindi. HÍB, 2006. Bls. 289
  • Lesa má Biblíuna sem sagnfræði – guðfræðingar gera það einnig – það veitir innsýn og skilning á textunum
  • Lesa má Biblíuna sem bókmenntir – guðfræðingar gera það einnig – reyna þannig að skilja eðli textanna, flokka þá sem ljóð, frásagnir, hjálpræðissögu, sögulega texta, skýringasögur, texta helgihaldsins osfrv.
  • Lesa Biblíuna sem kirkja sem hlýðir á Meistara sinn og Drottinn – prestar og söfnuðurnir gerir það – líf safnaðarins byggist á þessum orðum, þau eru til lærdóms, áminningar og huggunar, þannig fjallaði Hallgrímur Pétursson um píslarsöguna.

Ary Scheffer (1795-1858) málverkið er af Ágústínusi frá Hippo og móður hans Moníku frá Hippo. Hún var kristin og er sögð hafa beðið hann til trúar en hann var leitandi ungur maður. Sjá nánar um myndina: hér.

Innandyra eftir Bengt Peijel og Berit Simonsson

Hér til hliðara er einföld mynd sem útskýrir hvernig má lesa Biblíuna í bæn. Þetta er kannski barnalegt, var notað sem kennsluefni í fermingarfræðslu í Svíþjóð og Noregi um tíma, en er ótrúlega góð skýring og leiðbeining við daglegan lestur og mismunandi aðferðir.

Stjörnukíkis aðferðin: Rétt eins og stjörnukíkirinn gefur okkur tækifæri til að sjá óravíddir himingeymisins er þessi aðferð upplögð til að sjá stóra samhengið í guðspjallinu og Biblíunni. Þú lest hratt yfir og staldrar ekki við smáatriði og hleypur yfir það sem þú skilur ekki en reynir að sjá stóru línurnar. Hlustaðu á Matteusar guðspjall í heild til að prófa þessa aðferð t.d. Eða fylgdu lestraráætlun Biblíufélagsins.

Smásjár aðferðin: Þú skoðar eitt vers eða málsgrein nákvæmlega. Lærir orðin utan að og lætur þau fylgja þér yfir daginn. Eða tekur fyrir eitt rit sem þú liggur yfir, kannski í mánuð, lest einhver skýringarrit. Þannig verður orðið þér handgengið og kemur til þín þegar þú þarft á því að halda.

Hlustpípu aðferðin: Læknirinn notar hlustpípu til að athuga hjartsláttinn. Sú aðferð er að íhuga vers eða orð og stærri hluta Biblíunnar í bæn og heyra þannig hjarta Guðs slá fyrir þig. Þannig verður Guðs orð bænaorð sem fylgja þér út í daginn. Þau er orð Guðs til þín þegar á reynir.

Jesús og þú mætast í orðinu: Þá verður Biblían meira en texti, þau verða orð Guðs til þín, töluð til þín og fyrir þig. Þannig getur þú átti í lifandi sambandi við Guð.

Leiðbeiningar hjá Biblíufélaginu: hér


Fara til baka