Stikklað á stóru í starfi Hjálparstarfs kirkjunnar júlí 2021 – febrúar 2022.

1

2


Aðalfundur 2. október 2021, sama fólk hélt áfram í stjórn: mynd frá vinstri: Vigdís Pálsdóttir, Salóme Huld Garðarsdóttir, Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri, Gunnar Sigurðsson, Hörður Jóhannesson og Benedikt Vilhjálmsson.

3


Eþíópía
Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með sárafátæku fólki Í Sómalí-fylki í Austur-Eþíópíu í héraðinu Kebri Beyah. Markmiðið er að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með umhverfisvernd og bættum aðferðum í landbúnaði og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar. Brunnar eru grafnir og þar sem það hefur er ekki mögulegt eru grafnar vatnsþrær (birkur) fyrir regnvatn. Nýjar og þurrkþolnari korntegundir eru kynntar til sögunnar sem og skilvirkari ræktunaraðferðir og betri verkfæri. Konur taka þátt í sparnaðar- og lánahópum og fá fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hafa margar kvennanna hafið rekstur og reka litla búð, stunda geita- og hænsnarækt og rækta grænmeti. Konur sem hafa tekið þátt í verkefninu tala um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt á verkefnasvæðunum áður en samvinnan hófst. Covid faraldurinn hefur sett strik í reikninginn og vegna takmarkana hafa ýmsar framkvæmdir frestast og á samverum og námskeiðum hefur verið tekið tillit til allra reglna.

4


Úganda
Í héruðunum Raki og Lyantonde íÚganda er þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfsins sem snýr að því að aðstoða HIVsmitaða, alnæmissjúka, aðstandendur þeirra og eftirlifendur. Algengi HIV/alnæmis á landsvísu í Úganda er 5,8% en í héraðinu Rakai er algengi sjúkdómsins 13% og Lyantonde enn hærra eða 18%. Skjólstæðingar verkefnis Hjálparstarfsins eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína af völdum alnæmis og búa ein en líka HIVsmitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við sára fátækt. Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins sem býr við nístandi skort með því að reisa múrsteinshús sem eru útbúin grunnhúsbúnaði og eldaskála með hlóðum sem spara eldsneyti. Reistir eru kamrar við hlið húsanna, fólkið fær fræðslu um samband hreinlætis og smithættu og hvernig bæta má hreinlætisaðstöðu. Aðgengi fólksins að hreinu vatni er aukið með því að koma upp 4000 lítra vatnssöfnunartönkum við hlið íbúðarhúsanna. Þrátt fyrir Covid-takmarkanir tókst að fylgja áætlun á og á árinu 2021 voru reist hús og tilheyrandi fyrir 8 fjölskyldur. (Myndir: Nampija Annet 56 ára amma í þorpinu Nakinombe, sem er ekkja og sér um þrjú munaðarlaus barnabörn sín (3, 6 og 13 ára), þau tvö yngri eru með HIV smit).

5


Úganda, Kampala
Í Úganda búa um 48 milljónir íbúa. Nær helmingur þeirra er yngri en 15 ára. Þrátt fyrir að langflestir búi í sveitum landsins og lifi af landbúnaði flykkist fólk í síauknum mæli til höfuðborgarinnar í leit að betra lífi. Þar bíður flestra hins vegar eymdarlíf í fátækrahverfum en 40% íbúa Kampala búa við sára fátækt. Atvinnutækifæri í Kampala eru fá og mörg ungmenni skortir menntun og þjálfun til að eiga möguleika á að sækja um störf eða reyna fyrir sér með eigin rekstur. Börn og unglingar í fátækrahverfunum eru því útsett fyrir misnotkun sökum fátæktar og eymdin leiðir til þess að þau verða auðveldlega fíkniefnum að bráð. Neyðin rekur unglingana til að taka þátt í glæpagengjum eða selja líkama sinn til að geta séð sér farborða. Valdeflingarverkefni Hjálparstarfsins er í þágu barna og ungmenna á aldrinum 13 – 24 ára í fátækrahverfum Rubage-, Nakawa- og Makindye í höfuðborginni Kampala. Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem eykur atvinnumöguleika þess. Ungmennin geta valið sér ýmiss svið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð. Einnig er markmiðið að unglingarnir taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Með fræðslu og valdeflingu má koma í veg fyrir að barnungar stúlkur verði þungaðar, hefta útbreiðslu HIV/alnæmis og kynsjúkdóma ásamt því að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Vegna Covid-19 hefur kennsla verið í minni hópum og á köflum legið niðri en þrátt fyrir það hefur tekist að halda áætlun og gott betur og 612 ungmenni luku starfsnámi en áætlanir gerðu ráð fyrir að útskrifa 500. Yfir 2000 ungmenni tóku þátt í fræðslufundum af ýmsu tagi.

6


Indland
Sameinaða indverska kirkjan, United Christian Church of India eða UCCI, hefur starfað í Andhra Pradeshfylki í austurhluta Indlands frá árinu 1968. Frá stofnun hefur UCCI hjálpað fjölskyldum sem tilheyra hópi stéttleysingja í fylkinu og búa við örbirgð. UCCI rekur þar skóla, heimavist og spítala ásamt því að gefa fólkinu mat. Frá árinu 1989 hafa Hjálparstarf kirkjunnar og Fósturforeldrar stutt starf UCCI með því að greiða kostnað við skóla- og heimavist. Nú í vor er komið að lokum eftir 33 ára samstarf.

7

Mannúðaraðstoð
Afganistan

Hjálparstarfið hlaut í janúar 20 milljóna króna styrk frá utanríkisráðuneytinu til að veita mannúðaraðstoð í Afganistan í samstarfi við Christian Aid. Markmiðið er að spyrna við og veita almenningi stuðning til að tryggja fæðuöryggi, húsaskjól og vernda börn, sérstaklega stúlkur. Efnahagsstaðan er mjög slæm eftir að Talibanar tók völdin, matarskortur og óöryggi almennt algjört og mannréttindi fótumtroðin.

Stríðsátök og óeirðir hafa geisað í Afganistan í tæplega fjóra áratugi og ástandið í landinu hefur farið versnandi á undanförnum mánuðum með vaxandi fátækt, verðhækkunum og matvælaskorti. Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðsamfélagið leggur áherslu á mikilvægi þess að viðhalda flæði fjármagns og mannúðaraðstoðar til Afganistan til að vernda það sem unnist hefur í þróunarstarfi undanfarna áratugi og til að koma í veg fyrir algjöra hnignun í landinu.

Markmiðið er að létta á afleiðingum í kjölfar yfirtöku Talibana í Afganistan, tryggja húsaskjól og fæðuöryggi sem og aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu fyrir fólk í landinu og að auka viðnámsþrótt og velferð barna og fullorðinna. Áætlað er að ná til um 21 þúsund einstaklinga hvað varðar skjól og húsbúnað, 14 þúsund hvað varðar lífsviðurværi, 33 þúsund vegna fæðuöryggis og um 28 þúsund einstaklinga vegna vatns- og hreinlætismála. Með mótframlagi Hjálparstarfsins fara 21,2 milljónir króna til verkefnisins.

Eþíópía
Hjálparstarfið hlaut einnig 20 milljóna króna styrk frá utanríkisráðuneytinu til mannúðaraðstoðar í Amhara fylki sem er nágranna fylki Tigray í norðurhluta Eþíópíu. Í kjölfar átaka sem geisað hafa í landinu er ljóst að þörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur sjaldan verið meiri, einkum lífsbjargandi aðgerðir sem tryggja fólki aðgang að vatni, fæðu og lífsviðurværi. Mikil eyðilegging hefur orðið á innviðum samfélagsins, skólum, heilsustofnunum og vatnskerfum. Styrkurinn verður nýttur í samvinnu við Lúterska heimssambandið sem er samstarfsaðili Hjálparstarfs kirkjunnar á vettvangi. Verkefnið mun ná til um 20 þúsund manna. Átök hafa sem kunnugt er geisað í nyrstu fylkjum Eþíópíu í rúmt ár. Að mati Sameinuðu þjóðanna hangir líf 5,5 milljóna íbúa á bláþræði vegna matarskorts. Tugþúsundir íbúa hafa flúið yfir til Súdan og átökin hafa breiðst út til fylkjanna Amhara og Afar þar sem 450 þúsund íbúar eru á hrakhólum. Markmiðið er að fólk sem þurft hefur að yfirgefa heimili sín vegna ófriðarins og býr við óöruggar aðstæður og líður skort á helstu nauðsynjum fái fæðu, hreint vatn og aðgang að hreinlætisaðstöðu og geti verið öruggt þar sem það er og snúið heim þegar aðstæður lagast. „Fólk sem þurft hefur að flýja vopnuð átök í Tigray býr við skelfilegar aðstæður, þessi góði stuðningur gerir kleift að bjarga mörgum mannslífum,“ segir Sophie Gebreyes framkvæmdastjóri Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu. Með mótframlagi Hjálparstarfsins fara 22 milljónir króna til verkefnisins.

8


Samstarf við Utanríkisráðuneytið
Í mars 2022 var undirritaður rammasamningar við Utanríkisráðuneytið, annars vegar vegna mannúðaraðstoðar 2022-2024 sem felur í sér styrk upp á 50 miljónir króna á ári eða samtals 150 milljónir króna og hins vegar vegna þróunarsamvinnu upp á 70 milljónir króna árið 2022, 80 milljónir króna 2023 og 90 milljónir króna 2024, eða samtals 240 milljónir króna. Segja má að þetta séu ákveðin kaflaskil í starfi Hjálparstarfsins, sem lengi hefur verið stefnt að. Þetta gefur meiri fyrirsjáanleika, fljótari afgreiðslu á styrkjum sérstaklega til mannúðaraðstoðar, þar sem tíminn skiptir einmitt miklu máli og öruggari fjárhagsgrunn þessara verkefna. Með þessu skapast líka betri grundvöllur fyrir enn faglegra starf og betri eftirfylgni verkefna. Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun til að hægt sé að veita íbúum Úkraínu sem flúið hafa heimili sín neyðaraðstoð og áfallahjálp. Fjárframlög verða send til systurstofnana Hjálparstarfsins á vettvangi sem hafa nú þegar hafið störf. Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna ACT Alliance samræmir áframhaldandi aðstoð við fólk sem hefur neyðst til að yfirgefa heimili sín og leitar skjóls í nágrannaríkjum.

9


Starfið á Íslandi

Jólaaðstoð:

Í desember síðastliðnum fengu 1.571 fjölskyldur eða 4.240 einstaklingar (miðað við 2,7 í fjölskyldu) um land allt inneignarkort Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir matvöru samanborið við 1.707 fjölskyldur eða 4.608 einstaklingar sem fengu inneignarkort til að kaupa í matinn fyrir jólin árið 2020. Þetta er 8% minnkun milli ára en þess má geta að frá 2018 til 2020 var aukningin 25%. Fjöldi sjálfboðaliða lagði okkur lið og gerðu mögulegt að standa vel að þessu starfi.

Saumaverkefnið Töskur með tilgang með Hjálpræðishernum hófst aftur í lok janúar eftir lokun vegna Covid-19. Konurnar eru mjög ánægðar með að þetta sé byrjað aftur. En verkefnið hefur byrjað og hætt nokkrum sinnum á þessu Covid tímabili.

Nú hefur verið tekin sú ákvörðun að frá og með næsta starfsári verði hætt að vera með fataúthlutun sem í gegnum árin hefur verið á þriðjudögum yfir vetrarmánuðina. Covid faraldurinn hefur orsakað að ekki hefur verið úthlutað á löngum köflum. Áfram verður tekið á móti útifötum sem félagsráðgjafar Hjálparstarfsins munu sjá um að koma áfram til fjölskyldna sem á þurfa að halda.

Námskeiðið Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar hefur verið í gangi en við fáum að heyra meira um það frá Júlíu, félagsráðgjafa Hjálparstarfsins.

10


Skjólið
Skjólið opið hús fyrir konur er nú orðið eins árs gamalt, opnaði í febrúar 2021.
Starfið hefur gengið mjög vel um 65 konur á aldrinum 18-71 árs hafa komið í skjólið síðan það opnaði. Í desember komu 25 konur. Samstarf við fagaðila gengur mjög vel og konurnar sjálfar eru mjög ánægðar, ein sagði „Skjólið hefur gefið mér kost á því að hafa öruggan stað þar sem ég get viðhaldið sjálfsvirðingu minni.“

11


Fjármál
Safnanir

Haustsöfnun undir slagorðinu „Ekkert barn útundan“ vegna kostnaðar fjölskyldna á Íslandi vegna skólabyrjunar gekk mjög vel, réttum 9 milljónir króna söfnuðust.

Þrátt fyrir Covid faraldurinn og ýmsa óvissu vegna takmarkana fór söfnun fermingarbarna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfsins fram í byrjun nóvember 2021. Margar sóknir sáu sér fært að taka þátt og söfnuðust um 7 milljónir króna sem er frábært miðað við aðstæður. Hefðbundin söfnun fermingarbarna féll niður í nóvember 2020 og því mjög ánægjulegt að svona vel tókst til núna.

Jólasöfnun þar sem safnað var til helminga fyrir starfið á Íslandi og erlendis, gekk mjög vel en 23 milljónir söfnuðust sem er met. Samtals var stuðningur við starfið í desember 2021 og janúar 2022 um 75 milljónir króna.

Hjálparliða köllum við reglulega stuðningsaðilar starfsins. Þeir eru nú orðnir 3.418 og má áætla að á þessu starfsári verði stuðningur Hjálparliða meira en 70 milljónir króna. Við stefnum ótrauð áfram að því að fjölga Hjálparliðum og hvetjum alla til að vera með.

Ný lög hafa nú tekið gildi sem útvíkka skattaívilnanir fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem styrkja almannaheillafélög. Einstaklingar geta lækkað útsvars- og tekjuskattsstofn um allt 350.000 krónur, sem dæmi má nefna að manneskja með meðaltekjur sem gefur 40.000 krónur fær 15.200 í skattaafslátt. Hjá fyrirtækjum hækkaði skattaafslátturinn úr 0.75 í 1.5% af rekstrartekjum.

12


Margt smátt…
Margt smátt fréttablaðið okkar kom út eingöngu í stafrænu formi í annað skipti í lok nóvember 2021. Segja má að útgáfan hafi heppnast mjög vel og öflun styrktarlína og auglýsinga gekk vel þó að hún hafi verið aðeins undir sambærilegu blaði ársins á undan. Stafræna útgáfan gefur aukna möguleika til dæmis að fólk geti skoðað myndbönd og annað efni inni í blaðinu.

13


Gjöf sem gefur
Nú er komin góð reynsla á uppfærða gjafabréfasíðu okkar, gjofsemgefur.is. Sala gjafabréfa er svipuð og áður þó að tölur liggi ekki fyrir eins og er en við bindum miklar vonir við að auka sölu gjafabréfanna okkar á næstu árum.

14


Takk fyrir.