Bænanámskeið í Glerárkirkju hefst 24. mars kl. 20

Um bænabók Jesú – Davíðssálma – og sálma kirkjunnar. Námskeiðið byggir á erindum Guðmundar Guðmundssonar Sálmar og bænalíf sem eru aðgengilegir á netinu. Samverurnar fjórar hefjast með innleggi og tónlistardæmum en höfuðáhersla verður á umræður um efnið. Túlkaðar eru þær tilfinningar sem hrærast í bænalífinu með dæmum úr Davíðssálmum, kennslu Drottins og sálmum kirkjunnar, eins og gleði, ótti, angur og þakklæti.
Dagsetningar: Fimmtudagana 24. og 31. mars, 7. og 14. apríl kl. 20 í Glerárkirkju, safnaðarsal eða kennslustofu.
Nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku á http://www.glerarkirkja.is eða með því að hringja í kirkjuna á skrifstofutíma, s. 464-8800

Nálgast má erindin á vefsíðu Guðmundar og þeir sem vilja átta sig betur á efninu er bent á inngangskaflann: Davíðssálmar, bænabók Jesú og söngur kirkjunnar (Smella á hlekkinn til að finna erindið)
Innleggin verða úr 2. hluta erindanna:
24. mars – GLEÐI OG LOFGJÖRÐ
Í upphafi verður gefið yfirlit um námskeiðið og kynntar vangaveltur um grunntilfinningar bænalífsins.
Með 7. þætti byrjar nýr hluti erindanna. Fyrst er skoðað dæmi um lofgjörð, þá iðrun, síðan bæn og að lokum fyrirbæn og þakkargjörð. Gleðin er grunntilfinning trúarinnar. Anna Júlíana Þórólfsdóttir er í viðtali í þessum þætti en hún er lofgjörðarleiðtogi Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri. Flutt verður lag eftir hana við stysta Davíðssálminn 117.
31. mars – IÐRUN OG ANGIST
Í 8. þætti eru iðrunarsálmarnir skoðaðir og sérstaklega 51. Davíðssálmur. Þegar biðjandi maður lítur inn á við frammi fyrir Guði sér hann sjálfan sig í nýju ljósi. Syndajátning, iðrun og bót er leið til bata fyrir fyrirgefningu Guðs. Margrét Eggertsdóttir sem leitt hefur tólf spora starf – andlegt ferðalag er í viðtal í þessum þætti og lýsir hvernig iðrunargangan hjálpar fólki.
7. apríl – ANGUR OG BÆN
Í 9. þætti er bænin rannsökuð og skilgreind sem ákall til Guðs í neyð. Í innilegu samfélagi við Guð horfist biðjandi maður í augu við raunverulegar aðstæður sínar í trúnaðartrausti. Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur Glerárkirkju ræðir um bæn og sálgæslu.
14. apríl – ÞAKKLÆTI OG FYRIRBÆN
Lokakvöldið verður tengt við heilaga kvöldmáltið á skírdagskvöldi og á að koma þátttakendum skemmtilega á óvart en altarissakramentið er einnig nefnt þakkargjörðarmáltíð.
Í 10. þætti er fjallað um fyrirbæn sem vaknar hjá biðjandi manni þegar hann áttar sig á eigin neyð og annarra. Þegar við reynum bænheyrslu brýst þakklætið fram. Rætt var við Jóhönnu Norðfjörð forstöðumann Hvítasunnukirkjuna á Akureyri um fyrirbænaþjónustu og bænheyrslu.
Séra Guðmundur er héraðsprestur og hefur sinnt fræðslumálum í prófastsdæminu og afleysingum í prestaköllunum undanfarna áratugi. Hann hefur þýtt og samið nokkuð af sálmum sem varð kveikjan að þessum erindinum á sínum tíma. Séra Magnús var sóknarprestur í Dalvíkurprestakalli en er nú í hálfu starfi í afleysingaþjónustu. Hann hefur framhaldsnám í orgelleik og mun annast tónlistarþáttinn, auk þess að spila á harmonikku og píanó.
Við bjóðum ykkur velkomin á gefandi kvöld sem efla einstaklinga og söfnuði í bænaþjónustunni