Átta daga bænir – Dagur 4

ÁTTA DAGA BÆNIR – DAGUR 4

„Þú Betlehem … ekki ert þú síst“ (Matt 2.6)Þó við séum smá og þjáð skortir okkur ekkert

LESTRAR

Mík 5.1-4a,6-7  Frá þér læt ég þann koma er drottna skal í Ísrael

En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.

Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.

Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.
Hann mun tryggja friðinn.


Þeir sem eftir verða af Jakobs ætt
meðal hinna mörgu þjóða
verða sem dögg frá Drottni,
gróðrarskúr á grasi.
Þeir vænta einskis af neinum
og binda ekki vonir við mannanna börn.

Þeir sem eftir verða
af Jakobs ætt meðal þjóðanna,
meðal margra þjóðflokka,
verða sem ljón á meðal skógardýra,
eins og ljónshvolpar í sauðahjörð.
Þeir ráðast fram og tæta í sundur
og enginn fær rönd við reist.

Sálm 23 Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Þótt ég fari um dimman dal
óttast ég ekkert illt
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býrð mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína
og í húsi Drottins
bý ég langa ævi.

1Pét 2.21-25 Nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar

Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Lúk 12.32-40 Vertu ekki hrædd, litla hjörð

Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið. Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur er slitna ekki, fjársjóð á himnum er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.

ÍHUGUN 

Í litla og lágreista bænum Betlehem kom sjálfur sonur Guðs inn í heiminn. Af lífi einfaldrar þorpsstúlku varð Orðið hold og valdi að lifa mennsku sína í lítillæti og látleysi. Hann varð frækorn á akrinum, ger í deiginu, og lítill ljósgeisli augum okkar, og það ljós hefur fyllt jörðina. Úr myrkviði Efrata kom leiðtogi, hirðir og biskup, vörður, sálna okkar. Og þó hann sé hirðir okkar varð hann lambið sem bar burt syndir heimsins svo að við mættum verða heil. Betlehem, þó lítilvæg væri meðal hinna miklu ættkvísla Júda, varð mikil borg vegna fæðingar Hirðis hirðanna, Konungs konungana. Nafnið Betlehem þýðir „brauðhús“ og getur táknað kirkjuna sem færir heiminum brauð lífsins. Kirkjan, Betlehem okkar tíma, er enn staður veikra, valdalausra og viðkvæmra, því þar er rúm fyrir okkur öll. Korninu er safnað saman svo úr verður uppskera. Gerdeigið verður öflugt afl. Geislarnir sem þjappað er saman verða leiðarljós. Eins og annað fólk í Mið-Austurlöndum verður kristið fólk fyrir ofsóknum og er jaðarsett í pólitísku umróti, menningu sem í auknum mæli einkennist af græðgi, og misbeitingu valds. Þau lifa í ótta við ofbeldi og ranglæti. Þrátt fyrir það eru þau ekki hrædd því að Hirðirinn gengur þeim við hlið, kallar þau saman og gerir þau að tákni fyrir ástríka nærveru sína. Í einingu eru þau súrdeigið sem sýrir allt deigið (2Kor 5.6). Kristur er þeim fyrirmynd hógværðar og þau heyra kall hans um að sigrast á sundrungu og sameinast í einni hjörð. Þó fá séu feta þau í þjáningum sínum í fótspor lambsins sem þjáðist heiminum til hjálpræðis. Þó þau séu fá eru þau staðföst í voninni og skortir ekkert. 

BÆN

Góði hirðirinn, klofningur litlu hjarðarinnar hryggir heilagan anda þinn. Fyrirgefðu okkar veikburða viðleitni og hægagang í að fylgja vilja þínum. Gefðu okkur vísa hirða eftir hjarta þínu sem viðurkenna synd sundrungarinnar og geta leitt kirkjurnar í réttlæti og heilagleika til einingar í þér. Við biðjum þig, Guð, að heyra bænir okkar. Amen.