Átta daga bænir – Dagur 3

„Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum“ (Matt 2.3)

Nærvera Krists breytir heiminum

LESTRAR

Neh 4.12-17 Við unnum verkið … frá því roðaði að morgni og þar til stjörnurnar birtust

Sérhver sem vann að viðgerð múrsins var gyrtur sverði um lendar sér og vann þannig.

Ég hafði lúðurþeytarann við hlið mér þegar ég ávarpaði aðalsmennina, embættismennina og hitt fólkið: „Verkið er mikið og margvíslegt. Við erum dreifðir á borgarmúrnum og langt hver frá öðrum. Þið skuluð safnast saman þar sem þið heyrið lúðurinn gjalla. Guð okkar mun berjast fyrir okkur.“ 

Við unnum verkið þannig að helmingurinn hafði spjót til taks frá því roðaði af morgni og þar til stjörnurnar birtust. Á sama tíma gaf ég fólkinu þessi fyrirmæli: 

„Hver maður á að vera í Jerúsalem á nóttunni ásamt mönnum sínum. Þá geta þeir verið verðir okkar á nóttunni en unnið að verkinu á daginn.“ Hvorki ég sjálfur, bræður mínir, menn mínir né varðmennirnir, sem fylgdu mér, afklæddumst. Hver maður hafði spjót sitt sér á hægri hönd.

Sálm 2.1-10 Hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?

Hví gera þjóðirnar samsæri,
hví hyggja þær á fánýt ráð?
Konungar jarðar rísa upp,
höfðingjar ráða ráðum sínum
gegn Drottni og hans smurða:
„Vér skulum slíta fjötra þeirra
og varpa af oss viðjum þeirra.“
Hann, sem situr á himni, hlær,
Drottinn gerir gys að þeim.
Hann talar til þeirra í reiði sinni
og skelfir þá í bræði sinni:
„Konung minn hef ég krýnt
á Síon, mínu heilaga fjalli.“
Ég vil kunngjöra úrskurð Drottins,
hann sagði við mig: „Þú ert sonur minn,
í dag hef ég fætt þig.
Bið þú mig, og ég gef þér þjóðir að erfðum
og víða veröld til eignar:
Þú skalt mola þær með járnstaf,
mylja þær eins og leirker.“
Verið því hyggnir, þér konungar,
látið yður segjast, höfðingjar þjóða.

2Þess 2.13-3.5 En trúr er Drottinn og hann mun styrkja ykkur

En ætíð hlýt ég að þakka Guði fyrir ykkur, bræður og systur, sem Drottinn elskar. Guð útvaldi ykkur til þess að þið yrðuð frumgróði til hjálpræðis. Guð lét andann helga ykkur og þið trúið á sannleikann. Til þessa kallaði hann ykkur. Hann lét mig boða ykkur fagnaðarboðskapinn um að þið skylduð öðlast hlutdeild í dýrð Drottins vors Jesú Krists. Systkin, standið því stöðug og haldið fast við þær postullegu kenningar er ég hef flutt ykkur munnlega eða með bréfi.

En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.

Að endingu, systkin:[ Biðjið fyrir mér að orð Drottins megi breiðast út og vera í heiðri haft eins og hjá ykkur og að ég mætti frelsast frá spilltum og vondum mönnum. Því að ekki er trúin allra. 

En trúr er Drottinn og hann mun styrkja ykkur og vernda fyrir hinum vonda. En ég ber það traust til ykkar vegna Drottins að þið bæði gerið og munið gera það sem ég legg fyrir ykkur. 

En Drottinn leiði hjörtu ykkar til kærleika Guðs og þolgæðis Krists.

Matt 2.1-5 Hann varð skelkaður og öll Jerúsalem með honum

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“ 

Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“ 

Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:

ÍHUGUN 

Guð er kominn til okkar. Koma Krists raskar háttum heimsins. Ólíkt mörgum þjóðarleiðtogum kemur Guð í auðmýkt og hafnar illsku ranglætis og kúgunar sem er fylgifiskur eftirsóknar eftir valdi og stöðu. Koma Jesú kallar á hugarfarsbreytingu og umbreytingu lífsins, að fólk megi frelsast frá öllu því sem rænir það mennskunni og veldur þjáningu. Jesús sýnir okkur að Guð er með þeim sem þjást vegna þess að hver einstaklingur býr yfir reisn sem ástkært barn Guðs. Þannig veldur nærvera Jesú truflun, einmitt vegna þess að hann ruggar bát hinna ríku og voldugu sem vinna aðeins að eigin hag og láta sem hagur heildarinnar komi þeim ekki við. En þeim sem vinna að friði og einingu færir koma Krists ljós vonar. Í dag, á þriðja degi alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar, erum við hvött til að helga okkur uppbyggjandi aðgerðum í þágu réttlætis. Í því skyni er nauðsynlegt að staldra við til að íhuga og viðurkenna þau tilvik þegar okkar vegir eru ekki Guðs vegir (Jes 55.8), þegar okkur hefur borið af leið réttlætis og friðar. Þegar við kristið fólk vinnum saman að réttlæti og friði verður viðleitni okkar öflugri. Og þegar við vinnum saman á þennan hátt verður svarið við bæn okkar fyrir einingu kristninnar sýnilegt. Í samvinnu okkar verður nærvera Krists í heiminum í dag öllum ljós. Orð okkar og gerðir geta orðið ljós vonar til þeirra mörgu sem enn búa við myrkur ófriðar, fátæktar og kerfislægrar mismununar. Fagnaðarerindið um trúfesti Guðs merkir að Guð styrkir okkur og verndar gegn vá og er okkur hvatning til að vinna að heill annarra, sérstaklega þeirra sem búa við myrkur þjáningar, haturs, ofbeldis og sársauka. 

BÆN

Guð, þú hefur leitt okkur út úr myrkrinu til Jesú. Þú hefur tendrað vonarstjörnu í lífi okkar. Hjálpaðu okkur að vinna í trúfesti saman að því að breiða út ríki kærleika þíns, réttlætis og friðar og vera þannig ljós vonar öllum þeim sem búa við myrkur örvæntingar og vonleysis. Haltu í hönd okkar, Guð, svo að við getum séð þig í okkar daglega lífi. Taktu burt ótta og kvíða er við fylgjum þér. Láttu ljós þitt lýsa okkur og tendra eld kærleika þíns í hjörtum okkar, ástar þinnar sem umvefur okkur hlýju. Lyftu okkur upp til þín, þú sem hefur svipt þig öllu okkar vegna, að líf okkar megi lofa þig, Faðir, Sonur og Heilagur andi. Amen.