Átta daga bænir – Dagur 2

„Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga?“ (Matt 2:2)

Auðmjúk forysta brýtur niður múra og byggir upp af kærleika

Dagur 2: Kaþólski söfnuðurinn
LESTRAR 

Jer 23.1-6 Hann mun ríkja sem konungur og breyta viturlega

Vei hirðunum sem leiða sauðina afvega og tvístra hjörðinni sem ég gæti, segir Drottinn. Þess vegna segir Drottinn, Guð Ísraels, um hirðana sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki sinnt þeim. Nú mun ég draga yður til ábyrgðar fyrir illvirki yðar, segir Drottinn. En ég mun sjálfur safna saman þeim sem eftir eru af sauðum mínum frá öllum þeim löndum sem ég tvístraði þeim til. Ég mun leiða þá aftur í haglendi þeirra og þeir verða frjósamir og þeim mun fjölga. Ég mun setja hirða yfir þá sem munu gæta þeirra. Þeir munu hvorki skelfast framar né óttast og einskis þeirra verður saknað, segir Drottinn. 

Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“

Sálm 46 Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar

Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.
Guð er oss hæli og styrkur,
örugg hjálp í nauðum.
Því óttumst vér eigi þótt jörðin haggist
og fjöllin steypist í djúp hafsins,
þótt vötnin dynji og ólgi,
þótt fjöllin riði af ofsa þeirra. (Sela)
Elfur kvíslast og gleðja Guðs borg,
heilagan bústað Hins hæsta.
Guð býr í henni miðri, hún bifast ekki,
Guð hjálpar henni þegar birtir af degi.
Þjóðir geisuðu, ríki riðuðu,
raust hans þrumaði, jörðin nötraði.
Drottinn hersveitanna er með oss,
Jakobs Guð vort vígi. (Sela)
Komið, sjáið dáðir Drottins,
hann veldur eyðingu á jörðu.
Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar,
brýtur bogann, mölvar spjótið,
brennir skildi í eldi.
Hættið og játið að ég er Guð,
hafinn yfir þjóðir, upphafinn á jörðu.
Drottinn hersveitanna er með oss,
Jakobs Guð vort vígi. (Sela)

Fil 2.5-11 Hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur

Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.

Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.

Matt 20.20-28 Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna

Þá kom móðir þeirra Sebedeussona til Jesú með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar.

Jesús spyr hana: „Hvað viltu?“

Hún segir: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu hvorn til sinnar handar, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“

Jesús svarar: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik sem ég á að drekka?“

Þeir segja við hann: „Það getum við.“

Hann segir við þá: „Kaleik minn munuð þið drekka en ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem faðir minn hefur ákveðið.“

Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við bræðurna tvo.

En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“

HUGLEIÐING 

Jeremía fordæmir slæma forystu Ísraelskonunga sem sundruðu og tvístruðu fólkinu, forystu sem eyddi þjóðum og rak þegnana í útlegð. Fyrirheit Guðs er þess í stað konungur sem þjónar eins og hirðir og „iðkar rétt og réttlæti í landinu“ og safnar saman hjörð sinni. Heimur okkar þráir góða forystu og er stöðugt að leita að einhverjum sem mun uppfylla þessa löngun. Hvar er hægt að finna slíkan leiðtoga? Aðeins í Kristi höfum við séð fordæmi konungs eða leiðtoga eftir hjarta Guðs. Eins og við erum kölluð til að fylgja honum, erum við líka kölluð til að líkja eftir aðferð hans sem þjónandi konungs í heiminum og í kirkjunni. Í Kristi hittum við þann sem ekki rífur niður og sundrar heldur byggir upp og gerir heilt til dýrðar nafni Guðs. Slík forysta þjónar ekki sjálfri sér og beitir ekki valdi. Í honum mætum við þess í stað kærleiksríkum, auðmjúkum þjóni sem fer ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann er sá sem kemur til að þjóna, frekar en að láta þjóna sér, og við sem fylgjum honum erum kölluð til að gera slíkt hið sama.Á okkar tímum verða Mið-Austurlönd fyrir miklu tjóni þegar íbúarnir hörfa í útlegð. „Réttur og rétlæti“ eru af skornum skammti, ekki aðeins þar heldur um heim allan. Engu að síður eigum við von sem ekki bregst þó „þjóðir geysi og ríki riði“ allt um kring: Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og stöðva stríð til endimarka jarðar, segir í Biblíunni, hann, sem fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Mannssonurinn kom ekki til að láta þjóna sér, heldur til að þjóna. Bæði veraldlegir leiðtogar og kirkjuleiðtogar bera ábyrgð á að safna fólki Guðs saman í stað þess að sundra þeim og tvístra. Stór hluti sundrungar í heiminum og kirkjunni stafar af þrá eftir stöðu, völdum og eigin ávinningi. Við kristið fólk þurfum trúfastlega að líkja eftir þjónandi forystu Krist. Aðeins þannig getum við yfirstígið sundrunguna í heiminum og kirkjunni. Með því að vinna að velferð allra með rétti, réttlæti og friði, berum við hirðis-konunginum vitni í allri hógværð og leiðum fólk inn í návist Guðs. 

BÆN

Guð, þú sem ert okkar eina athvarf og styrkur, við vegsömum þig sem ert Guð réttar og réttlætis. Við játum fyrir þér að oft finnst okkur eftirsóknarvert að líkja eftir veraldlegum forystuháttum. Hjálpaðu okkur að leita Jesú Krists þar sem hann er að finna, í hógværð jötunnar, í stað glæsihýsa hinna voldugu. Mættum við líkja eftir honum sem gengur fram í auðmýkt. Gefðu okkur þá auðmýkt hjartans sem einkenndi líf Jesú og þjóna hvert öðru í hlýðni við þig. Við biðjum í nafni Krists sem með þér og heilögum anda ríkir að eilífu í dýrð. Amen.