Átta daga bænir – Dagur 1

ÁTTA DAGA BÆNIR – DAGUR 1

„Við sáum stjörnu hans renna upp [í Austurvegi]“  (Matt 2.2.)

Lyft okkur upp og leið okkur að þínu fullkomna ljósi

Fyrsti dagur bænavikunnar: Óháði söfnuðurinn flytur bænir og hugleiðingar.
LESTRAR

Sakaría 4.1-7 Ég sé ljósastiku úr skíragulli

Engillinn, viðmælandi minn, vakti mig aftur, líkt og þegar menn eru vaktir af svefni, og spurði mig: „Hvað sérðu?“ Ég svaraði: „Ég sé ljósastiku úr skíragulli. Á henni er skál og sjö ljósastæði og úr skálinni liggja sjö rennur til þeirra. Yfir henni eru tvö ólífutré, annað hægra megin skálarinnar en hitt vinstra megin.“ Og ég spurði engilinn, viðmælanda minn: „Hvað tákna þessir hlutir, herra?“ „Veistu ekki hvað þessir hlutir tákna?“ spurði engillinn, viðmælandi minn. Og ég sagði: „Nei, herra.“

Þá greindi hann mér svo frá: 
Þetta er orð Drottins til Serúbabels: 
Ekki með valdi né krafti 
heldur fyrir anda minn, 
segir Drottinn allsherjar. 
Hver ert þú, mikla fjall? 
Andspænis Serúbabel skaltu verða að jafnsléttu. 
Hann mun koma fram með hornsteininn 
og þá fagna menn og hrópa: „Dýrlegur. Dýrlegur!“

Sálm 139.1-10 Hægri hönd þín mun halda mér

Til söngstjórans. Davíðssálmur. 
Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Eigi er það orð á tungu minni 
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst 
og hönd þína hefur þú lagt á mig.
Sú þekking er undursamlegri en svo að ég fái skilið,
of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
Hvert get ég farið frá anda þínum, 
hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig 
og hægri hönd þín halda mér. 

2Tím 1.7-10 Náð[in] … hefur nú birst við komu frelsara vors, Krists Jesú. 

Því að ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar. 

Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins svo sem Guð gefur máttinn til. Hann hefur frelsað okkur og kallað heilagri köllun, ekki vegna verka okkar heldur eftir eigin ákvörðun og náð sem okkur var gefin frá eilífum tímum í Kristi Jesú en hefur nú birst við komu frelsara vors, Krists Jesú. Hann afmáði dauðann en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu. 

Jóh 16.7-14 Þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann

En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur. 

Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.

HUGLEIÐING

Í þessum viðkvæma og ófyrirsjáanlega heimi leitum við að ljósi, geisla vonar úr fjarska. Mitt í hinu illa þráum við góðvild. Við leitum að hinu góða innra með okkur, en of oft verður veikleiki okkar voninni yfirsterkari. Traust okkar hvílir á Guði sem við tilbiðjum. Í visku sinni lagði Guð okkur í brjóst vonina eftir guðlegri íhlutun; en við höfðum ekki búist við því að íhlutun Guðs yrði manneskja og að Drottinn sjálfur yrði ljósið mitt á meðal okkar. Það er framar öllum væntingum okkar. Gjöf Guðs til okkar er „andi máttar og kærleika“. Það er ekki með því að treysta á eigin styrk og getu sem við nálgumst fullkomið ljós Guðs heldur er það Heilagur andi Guðs sem dregur okkur nær sér. Úr myrkri mannkyns miðju skein stjarnan úr austri. Í henni sjáum við ljós sem smýgur inn í djúp myrkranna sem aðskilur okkur hvert frá öðru. Ljós stjörnunnar var ekki aðeins uppljómun eitt tiltekið sögulegt augnablik. Ljósið heldur áfram að skína og breyta ásýnd sögunnar. Í gegnum aldirnar, og allt frá því að stjarnan birtist fyrst, hefur heimurinn kynnst þeirri von sem er innblásin af heilögum anda í gegnum líf fylgjenda Krists sem bera vitni um verk Guðs í sögunni og um stöðuga nærveru heilags anda. Þrátt fyrir hverfulleika mannkynssögunnar og breytileika aðstæðna heldur Hinn upprisni áfram að skína. Jesús Kristur hrærist innan flæðis sögunnar eins og leiðarljós sem leiðir okkur öll inn í þetta fullkomna ljós og sigrar myrkrið sem aðskilur okkur hvert frá öðru. Þráin eftir að sigrast á myrkrinu sem aðskilur okkur knýr okkur til að biðja og vinna að kristinni einingu.

BÆN

Drottinn Guð, lýstu leið okkar með ljósi Krists sem fer á undan okkur og leiðir okkur. Upplýstu okkur og búðu innra með okkur. Leiðbeindu okkur svo að við komum auga á litla jötu í hjörtum okkar þar sem mikið ljós sefur enn. Skapari ljóssins, við þökkum þér fyrir gjöf stjörnunnar sem aldrei dofnar, Jesú Krists, Drottins okkar og frelsara. Megi hann vera okkur leiðarljós á pílagrímsgöngunni. Lækna sundrungu okkar og dragðu okkur nær ljósinu svo við getum fundið einingu okkar í Jesú Kristi. Ame