Hugvekja um áramót

Tíminn er gjarnan íhugunarefnið um áramót. Í þessum þætti velti Guðmundur héraðsprestur vöngum um efnið og kynni nokkra áramótasálma og bænir frá ýmsum löndum, Þýskalandi, Íslandi, Ítalíu, Indlandi og Afríku í tilefni tímamótanna. Vitnað er í Bonhoeffer, Móðir Teresa og Frans frá Assisi. Valdimar Briem og Gísla í Uppsölum. Öll hafa þau eitthvað um tímann að segja. (Þátturinn áður fluttur á Lindinni um áramót 2020)

Áramótaþáttur

(Þættina um aðventu, jól og áramót má finna hér)

Í þessum þætti milli jóla og nýjárs ætla ég að dvelja við nokkra áramótasálma og bænir en fyrst og fremst við vangaveltur um tímann. Það er gjarnan íhugunarefni um áramót. Fremsti hugsuður mannkynsins um tímann, Albert Einstein, náði að skilja tengsl milli efnis, orku og hraða eða tíma. Hann kunni vel að lesa bók náttúrunnar. Það er ágæt skilgreining á hvernig við öflum okkur þekkingar. Annars vegar með því sem við sjáum og hins vegar af því sem Guð opinberar okkur í Biblíunni. Einstein reyndi að skilja tilvist okkar á heilstæðan hátt, sérstaklega á seinni hluta ævi sinnar. Þegar við lesum í bók náttúrunnar, öðlumst við þekkingu á Guði að nokkru, með því að skoða hlutina eins og þeir eru í raun. Manni kanna að sundla við óravíddum og smæstu einingum, þegar orkusviðin eru skoðuð, alheimur sem er að þenjast út. Þá kann tilgangurinn að týnast eins og gerst hefur meðal margra spekinga nútímans. Þannig að menn telja sig verða að búa sér til merkingu vegna þess að hún er ekki sjálfgefin. 

Guð kastaði ekki teningum þegar hann skapaði veröldina heldur gaf veruleika okkar tilgang. Í þekkingarleit höfum við verið mannmiðlæg, búið okkur til heimsmynd sem snýst um okkar takmörkuðu þekkingu, þar sem við erum að ráða í reglufestu tilverunnar. Þannig álíta þá margir Guð vera, hann er gerður mannlegur, bundinn tímanum, eins og við, en það er heldur lítil mynd af Guði. Heimsmynd mikla hvelli og af alheimi sem er að þenjast út er á dagskrá í dag. En Guð er utan við það sjónarspil. Við eigum erfitt með að hugsa Guð þannig. Hvað þá að Sonur Guðs sé fæddur frá eilífð, eins og í jólasálminum sem ég þýddi og var sunginn í síðasta þætti: Of the father’s love begotten. Faðirinn og sonurinn eru sama eðlis, Guð af Guði, ljós af ljósi. Það er hugsunin sem ég vil dvelja við að sonurinn er meira en tilgangur tilverunnar hann er fyrirheit Guðs um veröldina. Alheimur Guðs er ekki tómur efnisheimur sem fer eftir þeim lögmálum sem við höfum fundið út heldur er það sköpun Guðs sem vekur undrun og þakklæti og tilbeiðslu. 

Einstein á að hafa sagt út frá skoðun sinni á alheiminum:

Hin óyfirstíganlega hindrun á vegi mannsins er sú, að hann er sjálfur hluti af þeirri veröld, sem hann er að reyna að rannsaka. Og sennilega komumst við aldrei lengra en að nema staðar í lotningu fyrir undri alheimsins og segja með höfundi Hebreabréfsins: Fyrir trú skiljum við heimana gjörða vera með Guðs orði á þann hátt, að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, sem séð varð.

Sigurbjörn Einarsson. Coram Deo. Bls. 151. 

Hebreabréfið veitir okkur þekkingu á Guði og tímanum. Í nýjárssálmi frá Þýskalandi sem víða er sunginn þar mætir okkur djúp hugsun um tímann. Sálmurinn er eftir guðfræðinginn og andspyrnumanninn Dietrich Bonhoeffer. Hann var tekinn fastur fyrir að berjast gegn ómennsku nasismans eins og reyndar Einstein gerði á sama tíma. Einstein var gyðingur og  fann til djúprar samkenndar með trúsystrum sínum og bræðrum þó ekki hafi hann iðkað trúnna. Bonhoeffer var kristinn maður sem tók trú sína alvarlega og reyndi að lifa hana í samtíma sínum sem var fullur af ofbeldi og mannvonsku. Þessir menn minna okkur á reynslu sem við megum ekki gleyma. Bonhoeffer sat í fangelsi á stríðsárunum og skrifaði þar fangelsisbréfin, til fjölskyldu og vina, sem hafa varðveist. Þar á meðal er þessi nýárssálmur. Hann er ekki bara fallegur sálmur heldur snertir þann raunveruleika sem hann lifði. Áður en við heyrum hann fluttann á þýsku ætla ég að lesa hann í þýðingu Friðriks Steingrímssonar og Örnólfs Jóhannesar Ólafssonar.

Af Guði í kærleik vafinn verndarhöndum,
veitist lækning hverju hjartasári,
já, þannig vil ég tengdur tryggðarböndum
taka móti hverju nýju ári.

(Enn mun hið liðna hjörtun þjáðu þjaka.
Þung er byrði lögð á daprar sálir.
Ó, Herra, láttu engla yfir vaka,
öllum þeim er tefja vegir hálir.

Ef réttir þú oss kaleik bölsins bitra,
barmafylltan þjáninganna vendi.
Við grípum hann, og þakkartárin titra
trú úr þinni kærleiksríku hendi.) 

Ef viltu þú okkur ennþá gleði gefa,
geislar sólar fegra heiminn bjarta,
og minninganna þungu sorgir sefa
sæl við gefumst þér af öllu hjarta.

Ó, faðir, kertin láttu logabjörtu
lýsa okkar sálarmyrku rætur.
Og systra og bræðra sameinaðu hjörtu!
Sjá þín himnesk birta skín um nætur.

Er kyrrðin vefur okkur örmum hlýjum,
alla láttu heyra róminn sanna.
Og þér til dýrðar óma skulu í skýju
skærar barnaraddir: Hósíanna!

Í krafti trúar standa straumar heitir,
stefna lýð á Drottins breiðu vegi.
Því Guð er með oss, huggun vænsta veitir,
verndar oss á hverjum nýjum degi.

Bonhoeffer, D. Fangelsisbréfinu. Íslensk þýðing eftir Gunnar Kristjánsson. Hið íslenska bókmenntafélag : Reykjavík. 2015. Bls. 338-339.

Við skulum nú hlusta á þennan nýárssálm á Þýsku.

Áramótasálmur Bonhoeffer

 Það sem Bonhoeffer lagði áherslu á var bæn og rétt breytni. Kristindómurinn kemur fram í þjónustu við heiminn og er að finna róttækar hugsanir um kirkju og kristni í skrifum hans sem hafa haft mikil áhrif. Eitt aðalatriði hjá honum var eftirfylgd við Krist í alvörunni. Þannig lifði hann og dó, því stuttu fyrir stríðslok var hann tekinn af lífi. Einn vinur hans Eberhard skrifaði um síðustu daga hans. Hann hughreysti meðfanga sína með hugvekju út frá Guðs orði rétt áður en hann var færður böðlum sínum. Í nýjárssálminum finnum við heilindin við Guð og traustið til hans. Einnig djúpa þrá að mæta þeim aftur sem hann hafði verið aðskilinn frá en þráði samvistir við. Þrátt fyrir það hafði hann skrifað í fangelsisbréfinu hvernig við öðlumst frelsi gegnum aga, gjörðir, raunir og að lokum með dauða: 

(Því líkami og sál vilja sjá 
hvað þau fengu ekki að líta. 
Frelsi, að ná þér, 
við reyndum í raun, 
gjörð og aga og reynum nú loks, 
Guð, að sjá þig
í okkar dauða.

Bonhoeffer, D. Fangelsisbréfinu. Bls. 328-329).

Síðustu orð hans voru við vin sinn þegar hann fylgdi böðlum sínum: „Þetta eru endalokin – en fyrir mig er þetta upphaf lífsins“. (Sama rit. Bls. 352). Þetta er ekki skemmtileg íhugun um áramóta en hún er og á að vera alvörublandin, það að þorast að horfast í augu við raunveruleikann, eins og hann er. Við erum tímanleg. Okkur er mörkuð stund, en Guð er frá eilífð til eilífðar.

Það er þá annað atriði sem Bonhoeffer bendir okkur á að Guð eigum við ein og sér. Hvað er ég að fara? Ég hef orðað það svo að ekkert er eins persónulegt og samband okkar við Guð. Það er í sambandi mínu við Guð að ég er raunverulega ÉG. Ekki vegna þess að ég er svo merkilegur heldur að þá lifi ég Guð, er sá, sem hann skapaði mig til að vera. Og það er ekki einkamál mitt, heldur líka þitt, áheyrandi minn, þú átt líka þitt samband við Guð. Það er margslungið að hugsa sér Guð í sambandi við alla menn á sama tíma út um allt. En við megum ekki takmarka Guð við tímamörk okkar og við erum af dufti geimsins en hann er skapari þessa alls. 

Það er einn söngur sem hefur heillað mig og það er Bæn einsetumannsins. Höfundurinn Gísli í Uppsölum varð þjóðþekktur maður þegar Ómar Ragnarsson rauf einangrun hans og gerði um hann mynd. Hann hafði lifað á sínum bæ með skepnunum sínum lengst af ævi sinnar Vestur á fjörðum. Ómar samdi líka lag um þennan einsetumann sem byggði á bæn hans. Við skulum hlusta á þennan söng fluttan af Margréti Árnadóttur, söngkonu, og Kristjáni Edelstein, gítarleikara og tónlistarmann, sem er á nýútkomnum diski þeirra Hugarró .

Bæn einstæðingsins af diskinum Hugarró.

Jólin færa frið til manns, 
fegurð, næra hjarta. 
Ljósið kæra lausnarans 
ljómi, skæra, bjarta.

Frelsun manna fædd nú er. 
Fögnuð sannan boðar mér.

Ljúfur Drottinn, lýstu mér 
svo lífsins veg ég finni. 
Láttu ætíð ljós frá þér 
ljóma í sálu minni.

Þegar raunir þjaka mig, 
þróttur andans dvínar. 
Þegar ég á aðeins þig 
einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú, 
gef mér skilning hér og nú.

Ó, minn Guð, mig auman styð, 
ögn í lífsins straumi. 
Kenndu mér að finna frið 
fjarri heimsins glaumi.

Margur einn með sjálfum sér, 
sálarfleinn því veldur, 
eins og steinn sitt ólán ber, 
ekki neinn þess geldur.

Nístir kvöl í næmri sál. 
Næturdvöl er hjartabál.

Leikinn grátt sinn harmleik heyr. 
Hlær ei dátt með neinum. 
Særður þrátt um síðir deyr. 
Segir fátt af einum.

Af diskinum Hugarró

Bonhoeffer bendir á að sambandið við Guð leiðir okkur inn í ákveðna einsemd. Dæmið um Gísla í Uppsölum er þannig dæmi, dálítið öfgafullt, en ekki einstætt. Margir hafa gengið í  klaustur til að leita Guðs eða leitað einveru um tíma til að hugsa sinn gang. Það er hollt, vegna þess að sambandið við Guð er hverjum manni einstakt, stundum ógnvekjandi, eins og árin, stundum traustið sjálft og öryggið, sem græða sárin. Í bæn er hvorutveggja, eins og í bæn Gísla frá Uppsölum, sársaukinn og öryggið í Guði: „Þegar ég á aðeins þig einn með sorgir mínar“, en einnig: „Jólin færa frið til manns, fegurð, næra hjarta.  Ljósið kæra lausnarans ljómi, skæra, bjarta.“

Getur verið að þetta einstaka samband við Guð sé forsenda fyrir góðu sambandi við samferðafólk okkar og réttri breytni? Það er frelsi fólgið í því að vera ekki þrælbundinn hvorki hlutum né persónum. Það er austræna spekin. Við á Vesturlöndum höfum gert örlagahjól Austurlanda, karmalögmálið, að sönnun fyrir framhaldslífi en þar austurfrá eru það fjötrar að fæðast aftur og aftur eftir verkum sínum í misgóðu ástandi. Tíminn er hugsaður sem hjól eða hringur. Íhugunaraðferðir eru leiðin til að losna úr þeirri hringiðu. Það verður aðferð til að losna úr þessu hversdagslega og ná æðra miði. Að anda og lifa í núinu, eins og það er orðað í dag hjá okkur á Vesturlöndum. Í því eru viss sannindi um andlegt líf en það vantar nokkuð upp á. Móðir Teresa sem starfaði á Indlandi sem trúboði og stofnaði líknarreglu þar taldi það mikilvægt að tengjast Kristi í bæn og sakramenti áður en gengið væri út í daginn til þjónustu. Á barnaheimili sem hún kom á fót er skilti þar sem segir merkilega hluti um tímann:

Tak þér tíma til að hugsa.
Tak þér tíma til að biðja.
Tak þér tíma til að hlæja.

Það er lind kraftarins.
Það er mesti kraftur á jörðu.
Það er tónlist sálarinnar.

Tak þér tíma til að leika.
Tak þér tíma til að elska og njóta elsku.
Tak þér tíma til að gefa.

Það er leyndardómur eilífrar æsku.
Það er gjöf frá Guði.
Dagarnir eru of stuttir til að við megum vera sjálfselsk.

(Tak þér tíma til að lesa.
Tak þér tíma til að vera vingjarnlegur.
Tak þér tíma til að vinna.

Það er lind viskunnar.
Það er vegur hamingjunnar.
Það er umbunin fyrir árangur.)

Tak þér tíma til að vera miskunnsamur.
Það er lykillinn að himnaríki.

Móður Teresa. Friður í hjarta. Þýðing Karl Sigurbjörnsson. Skálholtsútgáfan. Reykjavík, 2008. Bls. 80-81.

Hvað er leyndarmálið og lykillinn að himnaríki? Tak þér tíma. Gefðu Guði tíma svo að Guð geti verið í sambandi við þig. Þú getur gengið í gegnum lífið án þess að sinna þessari vídd lífsins, sinna því, sem þú varst gerður fyrir, skapaður og sköpuð til samfélags við Guð. Þegar þú tekur þér stöðu þar hjá Guði, hlustar eftir rödd hans, í orði hans og hjarta þínu, þá uppgötvar þú að tíminn er ekki úrið á hendi þinni, eða klukka sem slær ákveðinn takt, heldur að þú ert í sambandi við Drottinn, sem er ofar tímanum. Eilífðin er ekki langur tími, heldur líf með Guði, þar sem þú tengist Guði, kærleikanum, sem streymir um æðar heimsins, þannig að þú getir vakið vonir, sem standast eldraunina, trú, þar sem skýin skyggja á ljósið.

Mér finnst bæn Frans frá Assissi vera í þessum anda, hann var ítalskur og stofnaði fransiskusarregluna, dálítið síðan 1211, sem helgaði sig líknarstarfi og Móðir Teresa starfaði í anda hans. 

Þekkt bæn hans byrjar á þessi leið:

Drottinn, lát mig vera verkfæri friðar þíns.
Hjálpa mér til að leiða inn kærleika,
þar sem hatur ríkir,
trú, þar sem efinn ræður,
von, þar sem örvæntingin drottnar.

Bæn Frans frá Assissi

Við skulum hlusta á þessa bæn í enskri útgáfu: Prayer of St. France af plötunni Joy to The World. Það er saman safn af jólasöngvum og áramótaljóðum frá ýmsum löndum. Bænasálmur eftir Frans frá Assissi.

Bæn Frans frá Assissi á ensku

Á nýjársdag fjallar guðspjall dagsins í þjóðkirkjunni um nafnið Jesú, þegar hann var borinn í musterið og gefið nafnið Jesú, frelsari, á áttunda degi, sem sagt á áttunda degi jóla (Lk 2.21). Hann frelsar okkur frá hringrás tímans, endurtekningunni, til lífsins með Guði. Stundum er talað um framrás en það nær ekki alveg merkingunni, vegna þess að tíminn hefur ekki aðeins markmið, heldur stefnir til Krists, sem hefur gefið okkur fyrirheit. Við skulum heyra lofsöng um Jesú Hosana og það er frá Suður Afríku af þessum sama diski Joy to the World.

Hosana Eyagwem – Lofgjörð um Drottinn frá Suður-Afríku

Um áramót syngjum við hér á Íslandi Nú árið er liðið. Þannig er árið kvatt. En við hugsum kannski ekki alltaf um það sem við erum að syngja í þessum fallega áramótasálmi, en það er mikið í þessum sama anda sem ég hef verið að ræða um. Árið er liðið en minningin varir. Skáldið Valdimar Briem, sem var eitt af sálmaskáldunum sem unnu að sálmabókinni 1886 hvetur okkur til að muna eftir miskunn Guðs þó margt annað gleymist. Í rómatískum anda leiðir hann fram andstæður í náttúrunni, „gleðirík jól í vetrarins helkulda hríð“. Torfbæirnir voru stundum á kafi í fannfergi í þá daga þegar norðan bálið stóð dag eftir dag. Miskunnin birtist sem „blessunarlind“ og „lækning frá böli og synd“ en „skærust sem frelsarans mynd er lýsir oss lífsins á vegi“. Það er sú mynd sem blasir við um áramót. Tíminn er skilinn í ljósi af mynd frelsarans sem gefur eilífðina fyrir sár sín og „eilífan unað um síðir“. Valdimar Briem var lífsreyndur maður en í kveðskap sínum vitnaði hann um Krist, Drottinn yfir tíma og rúmi, sem gefið hefur fyrirheit um líf með Guði í ljósinu. Hlustum á þennan áramótasálm hans.

Nú árið er liðið í flutningi Eyþórs Ing Jónssonar, organista, og Jóns Þorsteinssonar, óperusöngvara af plötunni Inn er helgi hringd

Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.

En hvers er að minnast og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.

Hún birtist á vori sem vermandi sól,
sem vöxtur í sumarsins blíðum,
í næðingum haustsins sem skjöldur og skjól,
sem skínandi himinn og gleðirík jól
í vetrarins helkuldahríðum.

Hún birtist og reynist sem blessunarlind
á blíðunnar sólfagra degi,
hún birtist sem lækning við böli og synd,
hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd,
er lýsir oss lífsins á vegi.

Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir,
gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.

Sb. 98 – Birt fyrst í Sb. 1886 – Valdimar Briem

Að lokum langar mig til að fara með bæn frá Ganah úr bókinni: Böner från Afríka eða Bænir frá Afríku. Það er til orðatiltæki í Afríku sem er eitthvað á þessa leið: Á meðan þú situr stendur tíminn kyrr. Kannski við ættum að stilla okkur inn á það um þessi áramót, að staldra við, hugsa til Guðs í undrun og þakklæti, sjá fólkið í kringum okkur, þau sem standa okkur næst, en einnig allt mannkynið, einsetja okkur í bæn að verða öðrum til góðs eins og Guð er. Með þessum orðum við ég þakka fyrir árið og óska ykkur gleðilegs árs.

Bæn í byrjun árs (frá Ganah)

Drottinn,
almáttugur,
óendanlegur,
skapari, sem gerir allt fullkomið,
eitt ár er fyrir þér augnablik.
En fyrir okkur
er það 365 dagar, 
langt, breitt og djúpt,
ófyrirsjáanlegt.

Drottinn,
hvert ár er fullpakkað í okkar augum,
áður en það hefst,
með því sem er gott og vont.
Þú ert Drottinn ársins,
við erum þrælar tímans.
Drottinn,
eitt er þó víst:
hvert ár
færir okkur nær þér.
Fólk verður eldra
með hverju ári,
en trúaðir yngri.

Drottinn,
með þér verður árið
stutt náðartíð.
Nú blasa við mér 365 dagar,
en Drottinn veit,
hvað verður um mig á meðan þeir vara.

Drottinn,
eins og þú hefur talið hárin
á höfði mínu,
þannig hefur þú líka talið daga mína,
mínútur og sekúndur.

Drottinn,
hver andardráttur dregur mig nær þér.)
Drottinn,
ég veit,
að 365 daga í röð
mun sól eilífðarinnar
lýsa.

Þessi tími er reynslutími okkar.
Drottinn,
stormar munu geysa,
ský munu draga dimm yfir jörðu.
Myrkur mun verða á jörðu,
líka um daga,
en ég veit,
að bakvið skýin ert þú,
að vilji þinn
stýrir þessum heimi.

Drottinn,
ég bið um heilsu,
um aðeins meiri peninga,
um hungur eftir orði þínu,
um orð þitt bið ég þig. Amen.

Afrikanska Böner, EFS-forlag, Stockholm, 1975, bls. 185-187. Mín þýðing.