Kristniboðsdagurinn 14. nóv. 2021

Vegna sóttvarnareglna var ákveðið að fresta komu Beyene Gailassie til Akureyrar þangað til í febrúar. Verður sú dagskrá auglýst þegar nær dregur. En við minnum á útvarpsguðsþjónustuna frá Laufási þar sem séra Gunnar Einar Steingrímsson þjónar fyrir altari og Katrín Ásgrímsdóttir prédikar, ritari stjórnar SÍK og stjórnarmaður í Kristiboðsfélagi Akureyrar.
Guðsþjónustur verða felldar niður víða um prófastsdæmið. Því er rétt að benda á gjafareikning Kristniboðssambandsins 0117-26-002800, en kennitalan er 550269-4149. Vel er við hæfi að gefa gjöf til starfsins á þessum degi.
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir kristniboði skrifar um daginn á vef SÍK
Annar sunnudagur í nóvember er helgaður kristniboðinu í starfi kirkjunnar, annars vegar til að minna á starf Kristniboðssambandsins og hins vegar til að minna á köllun kirkjunnar að bera Jesú Kristi vitni þvert á menningarheima og til ystu endimarka jarðarinnar. Útvarpsguðsþjónusta dagsins verður frá Laufási þar sem séra Gunnar Einar Steingrímsson þjónar fyrir altari en Katrín Ásgrímsdóttir, skógræktarbóndi og ritari stjórnar Kristniboðssambandsins prédikar.
Kristniboðssambandið vill leggja áherslu eða minna á þrennt á þessum degi.
Í fyrsta lagi má nefna að á liðnum áratugum hefur fólki fækkað í þjóðkirkjunni hér á landi og hlutfallslega færri eru skráðir í kristin trúfélög en var fyrir t.d. 30 árum. En það er ekki öll sagan, því að á móti má nefna að kristnu fólki hefur á sama tíma fjölgað mikið á starfsakri kristniboðsins. Um 65 þúsund manns eru skráðir í kirkjuna í Konsó, en þar að auki er starfað í Voító og Ómó Rate í Eþíópíu. Eins er ávöxtur starfsins í norðvesturhluta Keníu mikill og milli 20 og 30 þúsund manns sem eru virkir í starfi kirkjunnar þar. Þó svo hér hafi fækkað hefur fjölgað þar fyrir tilstilli kristniboðsins. Biðjum fyrir fólki á starfssvæðum þess og minnumst sérstaklega presta, prédikara og djákna sem bera hita og þunga starfsins við krefjandi aðstæður. Biðjum um frið, sátt og réttlæti í Eþíópíu þar sem gætir vaxandi spennu milli þjóðflokka og héraða, einkum í norðurhluta landsins.
Í öðru lagi minnumst við bræðra og systra sem ofsótt eru vegna trúar sinnar. Víða um heim helga kirkjur fyrstu tvo sunnudaga nóvembermánaðar hinum ofsóttu og hvetja til fyrirbæna fyrir þeim. Fólk sem snýst frá annarri trú þarf oft að finna sér nýtt tengslanet, sem er eðlilega kirkjan á hverjum stað. Vegna faraldursins og samkomutakmarkana var þessi hópur mjög berskjaldaður, því þetta er fólk sem fjölskyldan hefur afneitað í þeirri von að viðkomandi snúi aftur og heiður fjölskyldunnar verði endurheimtur. Biðjum fyrir kristnu fólki sem sætir ofsóknum víða um heim.
Í þriðja lagi eru nýbúar, flóttamenn og umsækjendur um vernd hér á landi. Nokkrir tugir taka þátt í íslenskukennslu Kristniboðssambandsins. Við berum öll ábyrgð á þessu fólki og það er hlutverk okkar að biðja fyrir því og benda því á Jesú Krist með því að vera tilbúin að tala við það um trú okkar.
(Á Akureyri verður samkoma í tilefni dagsins í félagsheimili KFUM og K í Sunnuhlíð kl. 17. Þar mun Beyene Gailassie segja frá uppvexti sínum, starfi kristniboðsins í Konsó í Eþíópíu og flytja hugvekju.)
Til stóð að Kristniboðsfélag karla héldi árlega kaffisölu sína á kristniboðsdaginn en í ljósi smitvarnatilmæla var ákveðið að fella hana niður, annað árið í röð. Hins vegar verður samkoma i húsnæði Íslensku Kristskirkjunnar, Fossaleyni 14. kl. 20. Þar mun Guðlaugur Gunnarsson kristniboði hafa hugvekju, Leifur Sigurðsson kristniboði ávarpar samkomuna frá Japan, karlakór KFUM syngur og hópur ungmenna úr kirkjunni leiðir tónlist og söng.
Kristniboðsalamankið 2022 kemur út í vikunni. Því verður dreift í flestar stærri kirkjur á næstu vikum en einnig má nálgast það á skrifstofu SÍK eða á Basarnum, Austurveri, Háaleitisbraut 68, Reykjavík eða hringja á skrifstofuna og fá það sent.
Prestar eru hvattir til að taka samskot en víða ferst það fyrir eða fólk gleymir veskið heima. Því er rétt að benda á gjafareikning Kristniboðssambandsins 0117-26-002800, en kennitalan er 550269-4149. Vel er við hæfi að gefa gjöf til starfsins á þessum degi.