Uppskeruhátíð í Grundarkirkju 17. okt. – Blessun Guðs og þakklæti

Guðsþjónustan var tekin upp svo fleir gætu notið.

Hlusta á guðsþjónustuna:

Ræða (á mínút 18:50)

Í upphafi vil ég leiða okkur í bæn. Það er forn keltnesk bæn sem talaði sterkt til mín í seinni tíð þegar umhverfismál hafa orðið okkur æ mikilvægari. Um leið tengir bænin okkur við Guð, ég vil segja á heilbrigðan hátt og við náttúruna og samferðafólk okkar. Við skulum biðja þessa bæn:

Upphafsbæn:

Blessa mér, ó, Guð
þá jörð sem ég geng á.
Blessa mér, ó, Guð
þann veg sem ég feta.
Blessa mér, ó, Guð
það fólk sem ég mæti.
Í dag, í kvöld og á morgun. Amen

(Bænabók bls. )

Ekki mörg bænaorð en því kröftugri. Ég var altekinn af þessum orðum og hugsun þeirra varð mér innblástur að nokkrum bænaversum. Einn daginn þegar ég sat við píanóið gerði ég einfalt lag til að bera uppi orðin. Get nefnt það að sonur minn var á flugnámskeið á sama tíma og sveif þarna hátt fyrir ofan höfuðið á mér eins og smáfugl svo bænaorðin urðu því sterkari. Guð hjálpi mér! Svo ég hraðið mér að píanóinu til að sefa sálina. Þannig varð lagið til í léttum danstaki en ég dálítið kvíðinn. Ég fékk Þorvald Örn til að æfa það með kórnum og við skulum hlusta á það. Þetta er þakklæti fyrir uppskeru.

Stólvers: Bæn – Blessa mér, góði Guð, þá jörð (21:40 mín)

Blessa mér, góði Guð, þá jörð
sem geng ég á í sköpun þinni,
uppskeru (gjafirnar) þigg með þakkargjörð,
þér þjóna ég með glöðu sinni.

Blessa mér, Guð, þann vonar veg
sem vísar þú mér, gæfusporin.
Í morgunsól mig signi ég
og sofna í bæn á höndum borinn.

Blessa mér, Guð, hvern dýrðar dag,
með dögun lífsins mér í hjarta
mæti ég fólki, hugsa um hag
og heill þeirra og framtíð bjarta.

Blessa mér, Guð á himnum, heim
að hamingja og gæfa dafni
veraldar allrar, okkur geym
í öruggri hendi’ í Jesú nafni. Amen.

Guðm. Guðmundsson

Síðsumars var ég með helgistundi í Halldórslundi í Bárðardal. Þar sátum við í hring góður hópur úti í náttúrunni. Kannki hefðum við átt að hafa þessa guðsþjónustu í Aldísarlundi að keltneskum sið. En hér sitjum við inn í einni fallegustu kirkju landsins og í einhverri fegurstu sveit sem ég veit um. Við þá hugsun er gott að tengjast, sjálfum sér, Guði, jörðinni og fólkinu eins og er gert í þessari keltnesku bæn. Það var hugsunin sem greip mig þegar ég skrifaði bænaversin. 

Náttúran og Guð, að tengjast

Sumir líta á náttúruna sem guðlega, það er kallað panteismi, að ýmsu leiti erum við að tala um keltneska náttúrudýrkun. Þegar Guð hverfur fólki er hætt við að náttúran verði ein eftir og hugur okkar verkfærið til að takast á við hana. Og það hefur svo sannarlega reynt á að upp á síðkastið með jarðeldum og skriðuföllum.

Við kristið fólk játum trú á Guð skapara himins og jarðar. Eins og kemur vel fram í Davíðssálminum sem ég las um að Guð gefur vöxtinn, gróðurinn og lífið. Það þýðir ekki að við sleppum tengslunum við Guð heldur lítum við svo á að Guð er að baki náttúrunni. Það er hugsunin í mörgum ljóðum Biblíunnar, finna til samsemdar með náttúrunni, við erum sköpun sömuleiðis, göngum út til verka í Guðs grænu náttúru. Þannig getum við þakkað og beðið til Guðs um blessun. Við erum að tala um sambandi við Guð.

Svo að þegar við öndum að okkur loftinu þá erum við að anda að okkur Guði. Þegar við göngum í skóginum og finnum ilminn eftir regnskúr þá finnum við ilminn af Guði. Og þegar við drekkum vatnið úr lindinni þá erum við að nærast af Guði. Við fyllumst þakklæti fyrir lífið. Er þetta samlögun eða samband?

Það sem er svo heillandi við keltneska kristni er að hún heldur bæði í náttúruna og Guð skaparann. Umgengni við náttúruna er samband við Guð. 

Þetta er ekkert stórkostlegt og sambandið við Guð er ekkert yfirnáttúrulegt. C. S. Lewis sem var af keltneskum uppruna eins og við að mestu leyti, hann írskur og við flest Íslendingar, segir frá því í bók sinni um bænina, sem var skrifuð sem bréf til vinar, að þessi vinur hafi kennt honum mest um bænina. Einhverju sinni voru þeir að ganga úti skógi og Lewis hafi spurt vin sinn hvernig á maður að byrja að biðja. Hann sagði honum að byrja þar sem þú ert. Lewis hugsaði, já, ryfja upp alla blessun sem við njótum. En þá hafi vinur hans stungið höndum sínum í bunulæk og skvetta framan í sig (eins og maður gerir á morgnanna) og sagt: “Af hverju ekki að byrja á þessu” (bls. 119). Hér erum við í fallegri sveit, í einni fegurstu kirkju landsins. Byrjaðu hér að njóta þess að vera til, vera sköpun Guðs, hafa jörð undir fótum og fólk í kringum þig sem þú elskar.

Keltnesk bæn og blessun

Blessun er eitt af þessum orðum sem hefur orðið fyrir gengisfellingu. Við eigum dásamlega kveðju: Komdu sæll og blessaður! Komdu sæl og blessuð! Auðvitað á sú kveðja rætur í trúnni. Jesús lýsti okkur sæl í Fjallræðunni með orðunum: 

Sælir er fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki… Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá. (Mt. 5.5, 8)

Í þessari forn keltnesk bæn er Guð beðinn um að blessa. Ég held að þessi hugsun sé miklu nær okkur en við viljum viðurkenna. Við viljum gjarnan vera hamingjusöm og vera laus við óhamingju, þó er sælan sem Jesús er að tala um annað og meira en að vera lukkulegur. Blessun og bölvun eru þær andstæður sem stinga dýpra og er talað um í Biblíunni. Mesta ógæfa er að verða algjörlega einn og þar liggur mesti ótti okkar manna. Inn í þann ótta gekk Jesú og tók á sig svo með dauða sínum á krossi, svo að hann gæti sagt við okkur að hann væri með okkur alla daga allt til enda veraldar og þá mætum við honum, sagði hann líka. Blessunarbænin er um það að tengjast Guði eilífum böndum og það snýr böli okkar og óhamingju á betri veg því þá verðum við aldrei ein. Þessi gamla keltneska bæn er bæn um það.

Bænin er að ákalla Guð í neyð sinni. Neyð okkar er að gæfan er okkur eins og kvikasilfur, því fastar sem við ætlum að grípa hana því meir fælist hún hendur okkar. Við njótum stunda þar sem við erum alsæl en svo líða þær hjá. Okkur hættir þá til að festa okkur í minningum um það sem var eða von um það sem gæti orðið. Þessi djúpa þrá okkur eins og dregur okkur á tálar. Í stað þess ættum við að tengjast, tengjast Guði. Það gerist með því að við hættum þessari leit okkar í veröldinni og snúum okkur til Guðs. Jesús kenndi okkur að þekkja hann sem himneskan föður, sem elskar okkur eins og við værum hans einasta barn. Jesús, Guðs sonur, hefur gefið okkur það með sér. Þess vegna gat hann sagt við fólkið sem hlustaði á hann, fátæka í anda, þurfandi og leitandi, sæl eru þið. 

Sú sæla sem sprettur upp af þessum orðum Jesú á sér himneskan grundvöll en ekki jarðneskan. Með því að við tengjumst Guði fyrir orð Jesú, svalar hann okkar dýpstu þrá, að vera Guðs, börn hans, sem eru elskuð. Það er að eiga himnaríki að vera í þessu rétta sambandi við Guð. Það er ekki þannig að við klifrum upp til Guðs og komum okkur fyrir í faðmi hans heldur snýr það á hinn veginn að Guðs sonur kemur til okkar og gefur okkur hlut í því að vera börn Guðs. Það er þér gefið í skírninni og það er vilji Guðs að þú sért hans að eilífu.

Jörðin og fólkið er sköpun guðs

Þá verður jörðin okkur sköpun Guðs eins og í þessari keltnesku bæn, allt sem við fáum og njótum eru gjafir Guðs, sem við þiggjum með þakklæti. Þér finnst þetta kannski tilfinningahjal en í raun er þetta samband við Guð sjálfan, skaparann, sem vill klára það listaverk, sem þú ert í höndum hans. Þér finnst það kannski óþægileg tilfinning að fela Guði stjórnina en það er einmitt að vera fátækur í anda og hjartahrein, ærleg við sjálfan sig og Guð. 

Þá leiðir hann þig áfram um veröldina. Vegna þess að þú hefur samband við hann binst þú ekki hlutum eða verkefnum heldur lætur þú hann leiða þig. Það er gæfulegt að fara þannig að. Ótrúlega mikið frelsi að geta sleppt krampakenndu taka á öllum hlutunum sínum og draumunum, að láta sig nægja að dreyma Guð.

Það sem er þó áhrifamest er að vegna sambandsins við Guð förum við að sjá fólkið í kringum okkur á nýjan hátt. Við sjáum Krist í þeim. Það er bæði óþægilegt og gleðilegt. Það er óþægilegt vegna þess að ef ég meiði einhvern í alvörunni eða með orðum þá á ég við Guð. En gleðilegt er það að geta elskað Guð með því að gera öðrum gott. Smátt og smátt verður það þannig ef við förum með blessunarbæn að við þráum að verða öðrum blessun, eins og Guð er.

“Veriði blessuð”. Ég er ekki að fara alveg strax. Ég á bara við: “Veriði blessuð!” Þetta var fyrri blessun svo fáið þið aðra í lok messunar. Látið svo kveðjuna ganga á milli ykkar alla vikuna frá morgni til kvölds, blessiði alla sem verður á vegi ykkar.

Dýrð sé Guð föður og syni og heilögum anda. Amen

Altaristaflan af upprisunni í Grundarkirkju eftir Anker Lund.
Lögð kirkjunni til 1891 af kirkjueiganda Magnúsi Sigurðssyni, samkv. vísitasíu 1893. 

Valdir textar:

20. sunnudagur eftir trinitatis: Valdir textar eftir þema – uppskeruhátíð

Fyrir Ritningarlestur: Davíðssálmur 65.10-14

Þú annast landið og vökvar það,
fyllir það auðlegð.
Lækur Guðs er bakkafullur,
þú sérð mönnum fyrir korni
því að þannig hefur þú gert landið úr garði.
Plógförin á jörðinni gegnvætir þú,
sléttar plægt land,
mýkir jarðveginn með regnskúrum,
blessar það sem úr honum vex.

Þú krýndir árið með gæsku þinni,
vagnspor þín drjúpa af feiti. 

Beitilöndin í auðninni gleðjast,
hæðirnar gyrðast fögnuði,

hagarnir klæðast hjörðum
og dalirnir þekjast korni,
allt fagnar og syngur.

Síðari Ritningarlestur: Gl. 5.22-26

En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

Fyrst andinn hefur vakið okkur til lífs skulum við lifa í andanum. Verum ekki hégómagjörn svo að við áreitum og öfundum hvert annað.

Guðspjall: Mt. 5.1-8

Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki. 

Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða. 

Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa. 

Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.

Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða. 

Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá. 

Almenn bæn – milli versa sólarljóðsins frans frá Assissi í þýðingu Sigbj. Ein. Sb. 840, sungin tvö og tvö.

Fyrsta Bæn

Þökk sé þér Guð fyrir gjafir allar

gæsku þína, loft og jörð,

grósku, líf og gróður jarðar

glæddu með oss þakkargjörð.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist…

Önnur bæn

Þökk sé þér Guð fyrir góða vini

granna alla, samfélag,

fjölskyldu og fólk í heimi,

fegra líf vort sérhvern dag.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist…

Þriðja bæn

Þökk sé þér Guð fyrir þína visku

þú einn getur bjargað oss

frá að skemma sköpun þína,

son Guðs biðjum, tak þann kross.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist…

Faðir vor og blessun