Barnastarf í Eyjafjarðar og Þingeyjarprófastsdæmi

Í kirkjum prófastsdæmisins er fjölbreytt barnastarf eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sunnudagaskóli og fermingarfræðsla er í öllum kirkjum, en starf fyrir grunnskólabörn í nokkrum þeirra. Miklu máli skiptir að bjóða börnum upp á samverustundir til að fræðast um Guð og Jesú og kristna trú. Fræðslan getur farið framm á svo marga vegu, s.s. í leikjum, leikritum, spjalli, með myndböndum af efnisveitunni, í föndri og hverju sem leiðtogum dettur í hug. Einnig er líka gott að venja þau við að koma í kirkju og að þar sé eitthvað við þeirra hæfi. Eitt af aðalmarkmiðunum er einmitt að börnunum líði vel, á eigin forsendum og að þeim finnist þau tilheyra.

Samstarf kirknanna í prófastsdæminu hefur aukist mikið á undanförnum árum. Í covidlokunum hófst samstarf með rafrænan sunnudagaskóla sem tókst afskaplega vel. Sunnudagaskólarnir voru sendir út á hverjum sunnudegi og mældust vel fyrir meðal áhorfenda. Stefnt er að áframhaldandi góðu samstarfi.