Yfirlitsskýrsla prófasts á héraðsfundi 2021

Margt hefur drifið á daga okkar allra frá síðasta héraðsfundi, eins og gefur að skilja. “Skrýtnir tímar”, “fordæmalausir tímar” heyrum við sagt líklega oft á dag nú um stundir Við höfum lifað um margt undarlega tíma upp á síðkastið í öllu þessu “kófi” eins og það hefur verið nefnt. Kórónuveiran hefur gjörbreytt tilveru fólks um heim allan, eins og öllum er kunnugt. Veruleiki margra frá degi til dags hefur tekið miklum og algjörum breytingum. Atvinnulífið að miklu leyti stöðvast, með tilheyrandi búsifjum fyrir þjóðir og samfélög, framfærslugrunnur margra skertur eða horfinn vegna uppsagna og atvinnuleysis. Veikindin af völdum veirunnar hafa tekið sinn toll. Einangrunin og fábreytnin hefur mörgum reynst erfið. Öðrum hefur hún kannski verið kærkomin og gefið færi á að skoða sín mál í nýju ljósi. Verra er, að í einangrun og fábrotnu lífi getur hætta á heimilsofbeldi stóraukist. Skólaganga unga fólksins hefur verið sett í töluvert uppnám. Margir hafa misst ástvini sína og kannski ekki fengið að kveðja með eðlilegum og venjulegum hætti. Það er án efa mjög sárt og erfitt. Sögu þessarar veiru er heldur ekki lokið og því enn um sinn mikilvægt að hafa allan vara á. Ekki vitum við heldur hversu langvinn áhrif hennar kunna að verða. Og vissulega hefur þessi veruleiki sett talsvert mark sitt á kirkjustarfið hér heima og að heiman eins og gefur að skilja.

Frá síðasta héraðsfundi, í apríl 2019, hafa orðið miklar og grundvallandi breytingar á samskiptum ríkis og kirkju, með svonefndum viðbótarsamningi milli ríkis og Þjóðkirkjunnar sem samþykktur var nær einróma á Kirkjuþingi í september 2019. Samkomulag þar að lútandi var undirritað í kjölfarið milli fulltrúa kirkjunnar og ríkisvalds. Þessi nýi samningur boðar mikil tíðndi í samskiptum ríkis og kirkju. Þessi nýi viðbótarsamningur kveður á um stóraukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar. Markmiðið er meðal annars að einfalda til muna allt lagaumhverfi og fyrirkomulag á þeim greiðslum sem kirkjan fær úr ríkissjóði á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins. Í þessu felst einnig sú mikla breyting að kirkjan tekur við öllum sínum starfsmannamálum. Greiðslur þær sem kirkjan mun fá hér eftir munu taka mið af almennum launa- og verðlagsforsendum samkvæmt fjárlögum hvers árs. Afnumin verða lög um sjóði kirkjunnar og henni falið að setja starfsreglur um þær. Og framvegis mun kirkjan sjálf setja gjaldskrá vegna svonefndra aukaverka presta, svo dæmi sé tekið. Einnig er stefnt að samþykkt nýrra þjóðkirkjulaga, til einföldunar lagaumhverfis. og aukinnar skilvirkni. Með þessum nýja samningi ber kirkjan mun meiri ábyrgð á sér sjálfri en áður og stefnir í þátt enn frekar, að vera sjálfstætt trúfélagi sem ber fulla ábyrgð á eigin rekstri. Þessi nýi samningur tryggir greiðslur ríkisvaldsins til þjóðkirkjunnar næstu 15 árin í það minnsta, og er uppsegjanlegur af beggja hálfu af þeim tíma liðnum.


Enn sem fyrr er staðan varðandi sóknargjöldin langt frá því að vera ásættanleg. Ef fer sem horfir verður sóknargjaldið á næsta ári í kringum 980 kr, aðeins rúmur helmingur af því sem það ætti að vera miðað við lög um sóknargjöld. Ekki þarf að hafa mörg orð um erfiða fjárhagsstöðu margra sókna.


Miklar breytingar hafa orðið á skipan vígðra þjóna í prófastsdæminu, svo miklar að sennilega þarf að fara langt aftur í tímann til að finna svo miklar breytingar á jafn skömmum tíma. Til starfa er nú kominn fjöldi ungs fólks, sem án efa mun halda merki kirkjunnar hátt á lofti í framtíðinni, og að sama skapi hafa prestar sem þjónað hafa í prófastsdæminu jafnvel áratugum saman horfið til annarra starfa eða sest í helgan stein eins og aldursmörk segja til um.
Mag. theol Jarþrúður Árnadóttir var kjörin prestur í Langanes- og Skinnastaðarprestakalli í ágúst 2019 og síðan vígð til prests í Dómkirkjunni í Reykjavík í september sama ár.Hefur hún aðsetur í nýlega keyptu prestsetri á Þórshöfn, en þar hefur ekki setið prestur síðan árið 2006, er sr. Sveinbjörn Bjarnason lauk sinni þjónustu. Skinnastaðar- og Langanesprestaköll voru sameinuð í eitt prestakall þann 1. september 2019. Í október sama ár var sr. Gunnar Einar Steingrímsson, þá starfandi prestur í Noregi, kjörinn sóknarprestur í Laufásprestakalli. Eðlilega þurfti hann nokkurn tíma til að ganga frá sínum málum ytra, og því varð úr að mag theol María Gunnarsdóttir var vígð til starfa til að brúa það bil sem myndaðist þá. Hún þjónaði í Laufásprestakalli í um tvo mánuði, frá miðjum nóvember og fram í miðjan janúar. Mikil veikindi voru þá meðal presta á Akureyrarsvæðinu og var sr. Hildur Sigurðardóttir sett til þjónustu í Akureyrarkirkju í október og nóvember þá um haustið til að létta undir. Mikið álag var þá á þeim prestum sem þá störfuðu, en öll gerðu sannarlega sitt besta við erfiðar aðstæður. Sr. Guðrún Eggertsdóttir sjúkrahúsprestur hefur lokið störfum sínum á Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Skulu henni þökkuð sérlega góð og óeigingjörn störf. Til þess að starf sjúkrahúsprestsþjónustan félli ekki endanlega niður ákvað biskup Íslands að kosta þjónustu prests á sjúkrahúsinu um nokkurra mánaða skeið. Sr. Sindri Geir Óskarsson var vígður til þeirrar þjónustu í Hóladómkirkju þann 1. desember síðastliðinn, og tók hann jafnskjótt til starfa á sjúkrahúsinu á Akureyri. En skjótt sksipast veður í lofti. Sr Sindri Geir var kjörinn sóknarprestur í Glerárkirkju í byrjun febrúar og tók þar við af sr. Gunnlaugu Garðarssyni sem lauk þar langri þjónustu í kirkjunni. Sr. Sindri Geir varð því að segja sig frá þjónustu sjúkrahúsprests. Til þess að starfið félli ekki niður hlupu í skarðið þær sr. María Gunnarsdóttir og sr. Hildur Sigurðardóttir og þjónuðu til skiptis út maí. Það hillir því miður ekki undir, að ráðið verði að nýju í þetta starf, af sjúkrahússins hálfu . Vonandi nær kirkjan að ráða starfsmann í þetta starf áður en langt um líður ef ekki vill betur til, en ekkert er þó ljóst í þeim efnum. Þjónustan á sjúkrahúsinu hefur löngu sannað sig sem bráðnauðsynleg og léttir miklu álagi af öðrum starfandi prestum á svæðum. Í lok mars síðastliðins var sr. Jóhanna Gísladóttir kjörin sóknarprestur í Laugalandsprestakalli og hafði þá verið settur sóknarprestur þar í tæpt ár. Prestakallið var síðan sameinað Akureyrarprestakalli nú í haust samkvæmt samþykkt Kirkjuþings og hefur sameiningin þegar tekið gildi. Þjónustan síðastlið ár hefur tekið mið af þessari fyrirhuguðu sameiningu og gefist vel. Vonandi nær þó Syðra-Laugaland að halda velli sem prestssetur eftir sem áður. Í september síðastliðnum var sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir kjörin sóknarprestur í Húsavíkurprestakalli, en þar var hún einnig settur sóknarprestur veturinn á undan. Lýkur þar með þrjátíuogþriggja ára langri þjónustu sr. Sighvats Karlssonar, sem nú er orðinn sérþjónustuprestur á Biskupsstofu. Við þökkum honum störfin og samfylgdina og biðjum honum og fjölskyldu hans blessunar. Í sama mánuði var mag. theol. Guðrún Eggerts Þórudóttir kjörin sóknarprestur í Ólafsfjarðarprestakalli, og tekur hún við af sr. Sigríði Mundu Jónsdóttur sem kjörin var prestur í Þorlákshafnarprestakalli í vor. Er henni þakkað samstarfið og óskað blessunar á nýjum starfsvettvangi. Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir djákni lét af störfum nú í haust og fluttist búferlum til Vestmannaeyja ásamt fjölskyldu sinni. Henni skulu af alhug þökkuð störfin góðu. Í stað hennar var ekki auglýst eftir djákna, heldur starfsmanni í safnaðarstarf og var Eydís Ösp Eyþórsdóttir djáknakandídat ráðin. Væntum við góðs af störfum hennar, en hún hefur einnig tekið að sér nokkra þjónustu fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Nýir prestar og djáknakandídat eru að sjálfsögðu boðnir innilega velkomnir til starfa með bæn um að störf þeirra megi verða söfnuðunum til heilla. Sr. Magnús G Gunnarsson sóknarprestur á Dalvík var í námsleyfi síðastliðinn vetur. Sr. Jónína Ólafsdóttir leysti hann af, en hún var vígði til prestsþjónustu á Hólum í ágúst 2019. Sr. Jónína var síðan kjörin prestur í Garðaprestakalli, Akranesi í vor. Er mikils að vænta af störfum hennar í framtíðinni og óhætt að segja að hún hafi unnið hug og hjörtu sóknarbarna sinna þann tíma er hún starfaði í Dalvíkurprestakalli. Seinni helftina af þessu ári hefur sr. Jón Ragnarsson þjónað sem settur prestur í Akureyrarkirkju í veikindaforföllum sr. Hildar Eirar Bolladóttur. Við þökkum sr. Jóni góð kynni og fögnum því heilshugar að sr. Hildur Eir er að ná góðum bata og koma til starfa á ný um áramót. Þá hefur sr. Stefanía G Steinsdóttir verið í veikindaleyfi síðan í haust en er væntanleg aftur til starfa um áramót, ef Guð lofar. Sr. Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur hefur annast þá afleysingu.


Í maí 2019 voru teknar upp nokkrar guðsþjónustur eina helgi í Húsavíkurkirkju fyrir útvarp af prestum og kórum í Þingeyjarhluta prófastsdæmisins. Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar hafði veg og vanda af undirbúningi í samvinnu við presta, organista og kirkjukóra. Var guðsþjónustunum síðan útvarpað þá um sumarið. Prófastsdæmið bar nokkurn kostnað af framkvæmdinni. Tókst þetta vel á allan hátt og mörgum þótti ánægjuleg nýbreytni að heyra guðsþjónustur úr „dreifingunni“. Vonandi verður framhald á þessu samstarfi.
Sonja Kro hefur sinnt starfi æskulýðsfulltrúa Akureyrarkirkju auk þess að starfa fyrir prófastsdæmið. Í október 2019 var haldin mjög vel heppnuð samvera á Hólavatni fyrir börn úr NTT-starfi( níu til tólf ára). Þá er ánægjulegt að geta greint frá því, að ungmenni úr okkar prófastsdæmi hafa aftur tekið þátt í Farskóla þjóðkirkjunnar, í samvinnu við Austurlandsprófastsdæmi. En því miður hefur „kófið“ kæft þetta starf, sem og ýmislegt annað í bili.


Vígslubiskupinn á Hólum, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vísiteraði Þingeyjarhluta prófastsdæmisins undir lok septembermánaðar og var sú heimsókn mjög ánægjuleg í alla staði. Með henni í för var eiginmaður hennar, sr. Gylfi Jónsson og er ætlunin að þau vísiteri Eyjafjarðarsvæðið í marsmánuði á næsta ári.


Stofnað hefur verið sérstakt Hollvinafélag Kvíabekkjarkirkju í Ólafsfirði sem hefur það göfuga markmið að vinna að varðveislu og gagngerum viðgerðum á þeirri kirkju.


Mál hafa skipast þannig, að stjórn Kirkjumiðstöðvarinnar á Vestmannsvatni, hefur ákveðið að veita Kirkjuráði umboð til að ganga til samninga við núverandi leigjendur í Kirkjumiðstöðinni, vegna breyttra forsendna í sambandi við leigusamning þann er gerður var árið 2016. Breytingarnar sem nefna má breyttar forsendur, snúast um nýjar reglugerðir sem lúta að brunavörnum og kalla á mjög kostnaðarsamar breytingar á húsnæðinu. Fjárhagsleg staða Kirkjumiðstöðvarinnar er og hefur verið lengi mjög erfið, og ekki verið bolmagn til að greiða annað en lágmarks lögboðin gjöld, með stuðningi héraðssjóðs. Stjórn Kirkjumiðstöðvar fundaði í sumar með fulltrúum Kirkjuráðs og einnig leigutökum. Þar var sem áður sagði Kirkjuráði gefin heimild til þess að ræða við leigutaka og landeigendur ef til þess kemur, og þá með það í huga að afhenda þeim aftur landið ásamt byggingum samkvæmt ákvæðum skipulagsskrár Kirkjumiðstöðvarinnar. Stjórn Kirkjumiðstöðvarinnar óskar þó eindregið eftir því, að kirkjan megi áfram eiga aðgang að staðnum með kirkjulegt starf á boðstólum. Undir þá ósk skal hér tekið. Margt og mikið mætti segja um þessi mál, en það skal látið ógert að sinni, það er geymt en ekki gleymt. Vonandi er ekki búið að rita síðasta kaflann í sögu kirkjustarfs við Vestmannsvatn. Þessi vatnaskil nú eru sár og erfið, en ef til vill óhjákvæmileg.


Tónlistarmaðurinn Jaan Alavere, nýráðinn orgnaisti á Húsavík, og starfandi organisti víðar í prófastsdæminu, varð því miður bráðkvaddur í blóma lífsins þann 3. september síðastliðinn. Jaan var mikill og góður organisti, kórstjóri og alhliða tónlistarmaður sem fór létt með að ná tóni út úr hvaða hljóðfæri sem var. Það er mikið og þungt áfall að missa slíkan burðarás í tónlistarlífi okkar. Mestur er þó missir eiginkonu hans og dætra. Guð blessi minningu hans.


Ekki þarf að taka fram að margt af hinu hefðbundna starfi hefur fallið niður frá því í marsmánuði, eða farið fram í mjög breyttri mynd. Fermingar vorsins féllu nær alveg niður og var þeim þess í stað dreift yfir á helgar sumarsins og fram á haustið, þar sem eitt eða örfá börn voru fermd í einu vegna samkomutakmarkana. Vonandi blessaðist það allt samt vel. Prestar hafa fundað og talað saman gegnu fjarfundabúnað eins og svo margir aðrir. Ekki má gleyma að vígðir þjónir og önnur hafa leitast við að halda upp virku helgihaldi yfir allt kóftímatilið með því að streyma efni frá kirkjunum gegnum netið og tekið upp hugleiðingar, sunnudagaskóla, alls konar bæna- og helgistundir, tónlistarefni og heilar guðsþjónustur af mikilli hugmyndaauðgi og dugnaði. Fyrir það vil ég þakka og ekki sakar að nefna að þessar stundir hafa oft fengið mjög mikið áhorf og margir þakkað fyrir þessar stundir. Ber að nefna sérstaklega hátíðarguðsþjónustu um páska sem tekin var upp í samstarfi við sjónvarpsstöðina N4 og send var út á páskadag. Margir vígðir þjónar tóku þátt, kórfélagar sungu við undirleik organista. Það var töluverð vinna að koma þessari stund í loftið og átti sr. Guðmundur héraðsprestur þar drýgstan hlut að máli.


Köllun kirkjunnar er sú sama í dag og í gær og um aldir, að boða fólki þá von sem við eigum í Jesú Kristi, og bundin er við persónu hans, líf, dauða og upprisu. Verkefni kirkjunnar er að taka á móti gjöfum Guðs, orði hans, sakramentum og blessun- en fara svo út í daglega lífið til að þjóna í anda Krists, styðja þau sem eru í vanda, leitast við að gera þjóðfélagið manneskjulegra, heilla og réttlátara. Megi okkur auðnast að uppfylla það hlutverk eftir þeirri náð sem Guð gefur okkur. Ég finn fyrir því að fólk gerir skýrar kröfur og hefur væntingar til kirkjunnar sinnar nú á veirutíð sem endranær. Fólki finnst flestu gott og nauðsynlegt að vita af þjónustu kirkjunnar. Og öll él birtir upp um síðir. Minn frið gef ég yður, ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist, segir Kristur.


Að svo mæltu óska ég kirkjufólki öllu blessunar Guðs og þakka samstarfið.