Upprisufrásagnir

Hvernig geta merkustu sannindi lífsins falist í frásögn? Okkur er sögð saga af upprisu frá dauðum. Og hún hefur gengið milli kynslóða í nær tvö þúsund ár. Fyrir kristnu fólki er hún ekkert aukaatriði trúarinnar heldur kjarni hennar.[1] Helgasta frásögn kristninnar er þó ólík, píslarsagan, sem segir frá þjáningu og dauða Jesús Krists, frelsarans. Kaldranalegur raunveruleikinn blasir þar við, sýndardómur og aftaka. Það er líka frásögn, okkur er sögð saga af örlögum manns.

Það eru ekki bara kristnir menn sem segja sínar trúarsögu. Öll trúarbrögð segja sínar sögur.  En hvernig getur frásögn eða saga falið í sér dýpstu sannindi lífsins, það sem gefur lífi okkar merkingu, því að þessar frásagnir gegna því hlutverki, kynslóð eftir kynslóð.[2]

1.

Albert Einstein átti í erfiðleikum með þessar frásagnir enda skoðaði hann veruleikann út frá vísindum. Hann fann út að lögmál giltu um alheim allan og tengsl væri milli efnis, hraða og orku. Ekki kann ég að leið út þá formúlu sem alkunn er: orka = massi x ljóshraði í öðru veldi. Ég hef séð sönnunina og hún er verri en hebreska í mínum augum. Á efri árum eftir reynslu sína í heimstyrjöldinni síðari í Þýskalandi sem var honum og bræðrum hans og systrum af gyðingaættum erfið fór hann að velta fyrir sér gildismati og heimsskoðun. Hann leitaðist við að móta kenningu um allt (Theory of everything). Hann taldi að vísindunum væri takmörk sett. En eins og ég sagði átti hann nokkuð erfitt með frásagnir trúarbragðanna en mat þau vegna visku þeirra og gildismatsins sem þær veittu frá kynslóð til kynslóðar. Ef við skoðum manninn aðeins út frá lögmálum vísindanna, greinum alla þá efnaferla og rafboð sem gerast, sjáum við óskiljanlegan fjölbreytileika, en ef við tölum við manninn tengjumst við og skiljum hugtök eins og mannúð.[3]

Það sem tíminn eftir Einstein kom með er að hugsun um tímann er afstæð, þ.e.a.s. tíminn er háður orku og efni. Það þýðir að utan við orku og efni er enginn tími. Þess vegna er það út í hött að tala um að Guð sem við köllum skapara skulu vera háður tíma, að hann skuli vera bundinn einhverri nauðsyn. Hann sem er skapari alls og upphaf ljóss og lífs, orku getum við sagt. Það er skondið að skoða þrívíddar teikningar af alheimi sem er að þenjast út miðað við kenningar nútímans svo að manni gæti dottið í hug að þannig líti alheimurinn út frá bæjardyrum Guðs.

Hvernig í ósköpunum eigum við að gera okkur hugmynd um Guð sem stendur fyrir utan raunveruleika okkar um leið og hann er frumglæðir hans frá upphafi til enda. Við erum líkami okkar, mold af moldu, heilabúið er takmarkað. Það var líka ein af ályktunum Einsteins sem kemur fram í formála að bók sem fjallaði um heimsmynd hans sem hann skrifaði sjálfur:

Hin óyfirstíganlega hindrun á vegi mannsins er sú, að hann er sjálfur hluti af þeirri veröld, sem hann er að rannsaka. Og sennilega komumst við alrei lengra en að nema staðar í lotningu fyrir undrum alheimsins og segja með höfundi Hebreabréfsins: Fyrir trú skiljum við heimana gjörða vera með Guðs orði á þann hátt, að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, sem séð varð.[4]

(Sigurbjörn Einarsson. Coram Deo. Fyrir augliti Guðs. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1981. Bls. 150-151.)

2.

Jæja, aftur að frásögninni. Trúarbrögðin miðla þekkingu milli kynslóða með því að segja sögur, trúarsögur, sem gefa tilveru okkar merkingu. Nú er það þannig að við eigum öll okkar sögu. Við eigum hlut í fjölskyldusögu og við skilgreinum okkur með sögunni okkar. Til dæmis átti ég ömmu sem var sögð lifa jafn mikið í handanveröld meðal álfa og drauga. Hún sá fyrir hluti og rak einhvern tímann karlinn sinn niður á bryggju. Karlinn náttblindur en fór og kom þá að elsta syni þeirra sem var í vandræðum að leggja að landi. Svo var hún skapmikil og stjórnsöm. Fæddi fjórtán börn. Það tók mig sárt þegar fjallið fór af stað á Seyðisfirði á því svæði þar sem „Bláhúsið“ stóð þar sem þau bjuggu, afi minn og amma. Ég samdi ljóð um þau sem endaði svona: „…ég er fólkið mitt, þessi þjóð, þeirra liðni tími“. Annað dæmi sem skýrir vel það sem ég er að tala um og margir þekkja eru ástarsögurnar. Ef við eigum maka þá skilgreinum við samband okkar með eigin ástarsögu. Samband við makann nærist á henni og endurómar hún í samskiptum okkar.

Trúarsögurnar eru svipaðar. Þær ákveða tengsl okkar og samband okkar við söfnuð okkar. Það held ég að eigi við öll trúarbrögð vegna þess að alstaðar eru frásagnir fluttar, kenndar og lærðar, hvort sem er við eldinn eða í musterinu eða úr ræðustólnum. En get ég haldið því fram að mín trúarsaga sé merkilegri en annarra af öðrum trúarbrögðum? Nei, ég veit að það er ekki rétt af mér. Aftur á móti er trúarsaga Jesú einstök og hana á ég ekki út af fyrir mig. Hún er sú trúarsaga sem gerðist í raun, ekki svo að aðrar eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum, þær eiga það margar, þó sumar gefa sig ekki út fyrir að vera annað en um goðsagnaverur, frásagnir sem vísa með einhverjum hætti til æðri veruleika samt. En þær geta líka týnt merkingu og orðið að svæsinni blekkingu. En Jesús sagðist vera sonur Guðs, skaparans, kominn handan tímans og rúmsins, til að gefa lífi okkar sína eiginlegu merkingu. Það er enginn annar trúarbragðahöfundur sem hefur sett sig í þá stöðu sem ég þekki til. Hann sagðist vera Messías, Guðs sonur, sem opinberaði Guð á himnum. Það gerði hann svo í orði og verki í frásögnunum sem við höfum af Drottni í guðspjöllunum.

Þegar við horfum á heiminn eins og hann er og upplifum erfiðleika, þjáningu og missi, þá spyrjum við um merkingu lífsins, mörg hver, ekki öll svo sem. Þó held ég það sé þannig að allir leiti að merkingu og búa sér hana til, ef þeir finna hana ekki, með sinni eigin sögu. Þá skiptir ekki máli hvaða trúarbrögð eða lífskoðanir við aðhyllumst. Þverstæður lífsins geta rúið tilveru okkar allri merkingu. Við getum lent í tómu ginnungagapi, blekkingaleik örlaga, örvæntingarfullri óvissu, grimmd. Sagan af Jesú, eins og við höfum hana í guðspjöllunum er ástarbréf Guðs til okkar að þrátt fyrir að tilveran er eins og hún reynist okkur all oft er Guð sem elskar, Guð sem er með okkur í þessu öllu sem við erum að glíma við, Guð sem vill okkur vel. Það hefur verið sagt að sagan af Jesú sé raunveruleg goðsögn, vegna þess að hún átti sér stað, Jesús kom inn í heiminn og birti okkur Guð.[5] Það er í frásögninni af honum að við skiljum tilveru okkar, að hún snýst um kærleika, það er mark hennar og mið.

3.

Upprisufrásagnirnar eru þannig miklu meira en af upprisu manns frá dauðum. Þó er það allnokkuð. Sumir hafa reynt að sýna fram á að heimildirnar af upprisunni sýni fram á að lögfræðilega, jafnvel sögulega, fái þær staðist sem sannanir fyrir dómi.[6] Það dugar svo sem ekki til því fólk verður ekki sannfært með þeim hætti vegna þess að það felur í sér þvingun. Þvingun til trúar er ómöguleg. Aftur á móti er það allt annað mál ef við öðlumst það innsæi að upprisan er Guð að snúa við sögunni til sín, að breyta stefnu veraldarinnar frá dauða og myrkri til LÍFS. Það þýðir að trúin á upprisuna er bjartsýnistrú, en hún er ekki fantasía, vegna þess að hún byggist á sögu, frásögu af því sem átti sér stað. Þar með snýst tilvera okkar til lífs. Mín litla saga tengist þannig stóru sögu Guðs sem segir að Guð sé að snúa sköpun sinni til lífsins og ljóssins á ný.[7]

Sú heimsmynd af alheiminum sem við ætluðum Guð horfa á hér rétt áðan frá sínum bæjardyrum, það er þó engan vegin víst að það sé sú rétta og endanlega, fær en dýpri merkingu út frá frásögn trúarbragðanna og kristinnar trúar. Við verðum að álykta að þessi veröld er aðeins skuggaveröld af því sem koma skal eftir upprisufrásögnunum að dæma. Þverstæðurnar sem við lifum í raunveruleika okkar munu hverfa, þar verður ekki sorg né dauði, stríð né ofbeldi. Óravíddir alheimsins eru aðeins um stundarsakir. Það er nær ómöguleg hugsun sem engum getur dottið í huga af sjálfum sér heldur á það ráð sér upphaf í huga Guðs.

Þessi saga er sögð en á ný um hverja páska til að flytja boðskapinn um að lífið sigrar. Kærleiki Guðs birtist í þessum frásögnum af upprisunni frá dýpstu niðurlægingu, þjáningu og dauða á krossi, Drottinn rís upp, eilíft ljós Guðs lýsir. Jafnframt er það svo að hver og einn sem leggur trúnað á upprisufrásagnirnar og lifir þær reynir sannindi upprisunnar með því að styðja við lífið og veita ljósi inn til þeirra sem finna sig í vonlausu myrkri og ráðgátu, erfiðleikum og þjáningu. Þannig getur þú lifað kærleika Guðs.

Gleðilega páska!


[1] Fréttabréf biskups 2. apríl 2021. Páskakveðja

[2] Ninian, S.  Worldviews. Crosscultural Explorations of Human Beliefs. Third edition. New Jersey. Bls. 9, 33-34, 48, 72-86.

[3] McGrath, A. A Theory of Everything (that matters). A Brief Guide to Einstein, relativity & his Surprising Thoughts on God. Tindale momentum, 2019.

[4] Sigurbjörn Einarsson. Coram Deo. Fyrir augliti Guðs. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1981. Bls. 150-151.

[5] Lewis, C. S. God in the Dock. 1944. Bls. 66-67.

[6] Stott, J. R. W. Sannleikurinn um Krist. Kristilegt stúdentafélag, Reykjavík, 1974. Bls. 53-71.

[7] McGrath, A. Narative Apoligetics. Sharing the Relevance, Joy and Wonder of the Christian Faith. Baker Books, 2019.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s