Vegur krossins – íhugun á föstudaginn langa

Hugvekja og texti við Veg krossins – íhugun á föstudaginn langa er birtur hér. Það er dæmi um hvernig nota má myndmál til að boða frásagnir guðspjallanna og útbúa dagskrá sem höfðar til fleiri skilningarvita en heyrnar. Framkvæmdin var tekin upp og má sjá hér á myndbandi eins og hún var framkvæmd í Glerárkirkju á föstudaginn langa 2021.

Það er föstudagurinn langi. Velkomin til íhugunar við krossinn. Við fylgjum Vegi krossins – Via Dolarosa. Við stöldrum við á fjórtán stöðvum á píslargöngu með Jesú Kristi. Íhugum í kyrrð og bæn það sem hann gerði fyrir mig og þig. Frá því greinir píslarsagan, helgasta frásögn kristninnar.

Láttu hana vekja verkja huga þinn, hvíldu í orðunum, Ritningarorðunum sem þú heyrir, íhuguninni úr Bænabók Karls Sigurbjörnssonar biskups sem við fylgjum. Myndunum, listaverkunum, sem brugðið er upp, eru frá ýmsum tímum, frá víðri veröld, túlka frásöguna og veruleika okkar.

Áræddu að horfast í augu við erfiðleika þína, þjáningu og eigin dauða með versunum úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Í þjáningu þinni er Guð, það er hún að segja þér, píslarsagan, samstaða Guðs með þér er fullkominn, ekkert má skilja þig frá Guði. Svo elskar Guð að hann gengur inn í þjáninguna og dauðann til að leysa, frelsa, lýsa upp ótta okkar og myrkur að við megum lifa með honum frjáls og glöð.

Hafðu það í huga, þegar við íhugum nú þessa helgustu frásögn, píslarsöguna.

Signum okkur í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Vertu Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.

Guðm. G.

Myndband:

Á föstudaginn langa hafa verið íhugunarstundir við krossinn í Glerárkirkju, að þessu sinni setti ég saman íhugunarstund þar sem fylgt var Vegi krossins úr Bænabók Karls Sigurbjörnssonar biskups að hluta til. Ég valdi svo nokkur vers úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Þá valdi ég listaverk sem ég hafði áður notað við föstuvökur í kirkjunum í Eyjafirði á föstudaginn langa. Vegna samkomutakmarkana var stundin tekin upp en það gefur þá tækifæri til að fólk getur notið stundarinnar þegar því hentar til íhugunar og bæna. Sindri Geir Óskarsson las það með mér og Valmar Väljaots spilaði og Kór Glerárkirkju söng sálmavers milli lestra. Það voru Ég kveiki á kertum mínum (Sb. nr. 143), Krossferli að fylgja þínum (Sb. nr. 131) og Ó, höfuð dreyra drifið (Sb. nr. 145).

Fyrsti lestur: Jesús dæmdur til dauða

Frammi fyrir ranglátum dómi þegir Jesús

Pílatus kallaði nú saman æðstu prestana, höfðingjana og fólkið og mælti: „Þið hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í ykkar viðurvist en enga þá sök fundið hjá honum er þið ákærið hann um. Ekki heldur Heródes því hann sendi hann aftur til okkar. Ljóst er að hann hefur ekkert það drýgt er dauða sé vert. Ætla ég því að hirta hann og láta lausan.“ En skylt var honum að gefa þeim lausan einn bandingja á hverri hátíð.

En þeir æptu allir: „Burt með hann, gefðu okkur Barabbas lausan!“ En honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir upphlaup nokkurt sem varð í borginni og manndráp.
Pílatus talaði enn til þeirra og vildi láta Jesú lausan. En þeir æptu á móti: „Krossfestu, krossfestu hann!“
Í þriðja sinn sagði Pílatus við þá: „Hvað illt hefur þá þessi maður gert? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan.“
En þeir sóttu á með ópi miklu og heimtuðu að hann yrði krossfestur. Og þeir höfðu sitt fram.
Þá ákvað Pílatus að kröfu þeirra skyldi fullnægt. Hann gaf lausan þann er þeir báðu um og varpað hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og manndráp en framseldi þeim Jesú að þeir færu með hann sem þeir vildu.

Lúk. 23. 13-25

Drottinn Jesús Kristur. Þú varst krýndur þyrnikórónu til að geta gefið mér kórónu lífsins. Þú tókst á þig purpuraskikkjuna til að geta íklætt mig hvítum skrúða sigursins. Þú tókst reyrstaf smánarinnar til að geta sett sigurpálmann í mína hönd. Þú tókst á þig sársaukann svo ég hlyti gleðina. Þú varst dæmdur, svo ég yrði frjáls. (Bænabók)

Tillaga að Passíusálmum Ps. 22. 13,14, 16 Eða Ps. 25. 6, 7, 8, 9

Set ég það nú í sinni mér,
sæti Jesú, að gá að þér.
Allir hrópuðu allt um kring
yfir þig dauða og krossfesting.
Sem lamb meinlausast þagðir þú;
þar af stendur mér huggun trú.

Hrópar nú yfir mér himinn og jörð
helgun, frið, náð og sáttargjörð.
Hvort sem ég geng nú út eða inn
í þínu nafni, Jesú minn,
bænarhróp mitt í hreinni trú
himneskum guði þóknast nú.

Ps. 22. 13, 16

Annar lestur: Jesús ber krossinn

Nú er dómurinn upp kveðinn og leiðin til aftökustaðarins blasir við Jesú.

Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. (Jóh. 19.17)

Jóh. 19. 17

Krossinn er lagður á herðar Jesú og hann rekinn af stað. Ég sé að þjáningarleiðin, Via Dolorosa, nær um allan heim. Hann liggur um okkar tíma, hann liggur líka um líf mitt. (Bænabók)

(Tillaga að versum úr Passíusálmum: Ps. 25. 6, 7, 8, 9)

Athuga, sál mín, ættum
útgöngu drottins hér,
svo við rétt minnast mættum,
hvað miskunn hans veitti þér.
Hyggjum að, hann út ber
þyrnikórónu þétta,
þar með purpurann létta,
blár og blóðugur er.

En með því út var leiddur
alsærður lausnarinn,
gjörðist mér vegur greiddur
í guðs náðar ríki inn
og eilíft líf annað sinn.
Blóðskuld og bölvan mína
burt tók guðs sonar pína.
Dýrð sé þér, drottinn minn.

Ps. 25. 6, 9

Þriðji lestur: Jesús fellur í fyrsta sinn

Þjakaður og píndur örmagnast Jesús undir byrði krossins.

Hann lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.

Fil 2. 8

Kristur hefur ekki gengið mörg skref þegar þungi byrðarinnar minnir á sig. Hann reikar í spori, kiknar, hrasar, dettur. Krossinn er of þungur. Þarna liggur konungurinn bugaður, máttvana. Guð liggur með andlitið ofan í götunni. (Bænabók)

(Tillaga að versum úr Passíusálmum: Ps. 30. 9, 10, 11, 12)

Minnist ég á þjáning þína.
Þig sú mæddi byrðin stríð.
Sannlega fyrir sálu mína
svoddan leið þín gæskan blíð.
Vegna þess mér virstu að sýna
vorkunnsemi, nær ég líð.

Komir þú undir krossinn stranga,
kristin sála, gæt þess hér,
ef holdið tekur að mögla og manga,
minnstu hver þín skylda er.
Láttu sem þú sjáir ganga
sjálfan Jesúm undan þér.

Ps. 30. 9, 12

Fjórði lestur: Jesús mætir móðir sinni

Á leið sinni til krossins mætir Jesús móður sinni. Augu þeirra mætast.

Augu mín beinast nú að konu, sem er þarna í hópi áhorfenda við götu hins dauðadæmda. Þetta er María. Ekki himnadrottningin í óviðjafnanlegri fegurð heldur móðir þjáninganna, öllu heldur ein sem er sem móðir allrar þjáningar og allra þjáðra í heimi hér. Framhjá henni gengur sonur hennar, staulast undir þungri byrði harma og þjáningar, örvæntingar og ótta allra sona allra mæðra, allra manna allra tíma. Augu þeirra mætast eitt andartak og svo er hann horfinn upp götuna… (Bænabók)

(Tillaga að versum úr Passíusálmum: Ps. 37. 5, 6, 7, 8, 9)

María, drottins móðir kær,
merkir guðs kristni sanna:
Undir krossinum oftast nær
angur og sorg má kanna.
Til hennar lítur þar herrann hýrt,
huggunarorðið sendir dýrt
og forsjón frómra manna.

En þeir sem Jesúm elska af rót,
undir krossinum standa,
herrans blóðfaðmi horfa á mót,
hvern þeir líta í anda.
Trúar og vonar sjónin sett
sár hans og benjar skoðar rétt.
Það mýkir mein og vanda.

Ps. 37. 5, 7.

Fimmti lestur: Símeon frá Kyrene neyddur til að bera krossinn

Maður verður á vegi Jesú, Símeon frá Kyrene. Hann er gripinn og neyddur til að bera krossinn fyrir Jesú.

Þegar þeir leiddu Jesú út tóku þeir Símon nokkurn frá Kýrene, er kom utan úr sveit, og lögðu krossinn á hann að hann bæri hann eftir Jesú.

Lk. 23. 26

Ferðing heldur áfram. Símeon frá Kyrene kemur gangandi á móti hópnum. Hann kemur utan af akri með amboð sín á öxlum. Allt í einu er þrifið í hann, amboðunum hent til jarðar og krossi hins dauðadæmda varpað á herðar hans. Að hugsa sér að hafa fengið að bera kross frelsarans! En ég sem þannig hugsa hef fengið sama hlutverk. “Takið á yður mitt ok og lærið af mér … “ segir Frelsarinn. (Bænabók)

Krossferli að fylgja þínum
fýsir mig, Jesús kær,
væg þú veikleika mínum,
þó verði’ eg álengdar fjær.
Þú trú og þol vill þrotna,
þrengir að neyðin vönd,
reis þú við reyrinn brotna
og rétt mér þína hönd.

Ps. 11. 3 Sb. nr. 131

Sjötti lestur: Veroníka þerrar andlit Jesú

Veroníka þerrar andlit Jesú, og mynd hans situr eftir á dúknum.

Með hjálp hinnar fornu helgisögu fáum við að sjá hvernig ókunn kona, Veroníka, hleypur fram úr mannþrönginni og þerrar svitann af brá hins þjáða Jesú. Fótatak umhyggjunnar er létt, viðbrögð þess hjarta þar sem kærleikur og miskunnsemi vakir. Að launum fyrir miskunnarverk sitt hlaut hún hina fyrstu mynd frelsarans, myndina sem ekki er af höndum gjörð. (Bænabók)

Ó, Jesú, að mér snú
ásjónu þinni.
Sjá þú mig særðan nú
á sálu minni.

Þegar ég hrasa hér,
hvað mjög oft sannast,
bentu í miskunn mér,
svo megi eg við kannast.

Oft lít ég upp til þín
augum grátandi.
Líttu því ljúft til mín,
svo leysist vandi.

Ps. 12. 27, 28, 29

Sjöundi lestur: Jesús fellur öðru sinni undir byrði krossins

Jesús fellur öðru sinni undir byrði krossins.

Hópurinn þokast áfram eftir þjáningarveginum. Ég sé hermennina, ræningjana dauðadæmdu tvo og svo þann þriðja, Jesú. Ég sé grátandi konur, forvitna vegfarendur, hatrusfull andlit… Ég heyri að einhverjum skrikar fótur, og svo heyrist dynkur. Allt í einu er allt hljótt. Ég sé að Jesús hefur dottið kylliflatur á götuna. Byrðin yfir því að vera hafnað af þeim sem hann elskar er þyngri en allt. (Bænabók)

Ég lít beint á þig, Jesú minn,
jafnan þá hryggðin særir.
Í mínum krossi krossinn þinn
kröftuglega mig nærir.
Sérhvert einasta sárið þitt
sannlega græðir hjartað mitt
og nýjan fögnuð færir.

Þá ég andvarpa, óska og bið,
augunum trúar minnar
lít ég hvert einast orðið við
upp til krosspínu þinnar.
Strax sýna mér þín signuð sár,
syndugum manni opinn stár
brunnur blessunarinnar.

Gleðistund holds þá gefur mér
guð minn að vilja sínum,
upp á þig, Jesú, horfi eg hér
hjartans augunum mínum.
Auðlegðar gæðin líkamlig
láttu þó aldrei villa mig
frá krossins faðmi þínum.

Ps. 37.

Níundi lestur: Jesús talar til kvennanna

Jesús talar til kvennanna.

Konurnar grétu og kveinuðu en Jesús snýr sér að þeim og segir: “Grátið ekki yfir mér en grátið yfir sjálfum ykkur og börnum ykkar.” Konurnar gráta og kveina í harmi og sorg. Sú kemur stund er þær munu ekki megna að gráta framar. Þurreygar í örvita angist munu þær hrópa: “Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf er aldrei fæddu og þau brjóst sem engan nærðu.” Vegur krossins er svo langur og enn mun móðir jörð og mannsins börn engjast í kvölum. Til okkar berast neyðarópin frá öllum örvilnuðum og uppgefnum, vonbrotnum og óhuggandi, föngum, stríðshrjáðum, kúguðum, ofsóttum, fjötruðum… sem hrópa til fjallanna: “Hrynjið yfir oss! Og til hálsanna: “Hyljum oss!” (Sjá Lúk. 23.27-31)

Visnað tré ég að vísu er.
Vægðu, réttlætis herrann, mér.
Gæskunnar eikin, græn og fín,
geymdu mig undir skugga þín.

Von er að mér sé mótkast víst.
Mun ég umflýja dauðann síst.
Holdið má ei fyrir utan kross
eignast á himnum dýrðar hnoss.

Þegar mér ganga þrautir nær,
þér snú þú til mín, Jesú kær.
Hjartað hressi og huga minn.
himneskur náðarvökvi þinn.

Ps. 32. 19, 20, 22

Níundi lestur: Jesús fellur þriðja sinni

Í þriðja sinn fellur Jesús og rís upp að nýju.

Hann, sem allt vald er gefið á himni og á jörðu, fellur til jarðar og liggur með andlitið í götuna. Hver mun eftir þetta geta fullyrt að þú stjórnir frá háum trón efst og yst í alheimsgeimi? Hvað sýnir betur að vald þitt er annars konar en það sem við alla jafna köllum vald en einmitt þetta? Eftir þetta getum við ekki sagt þegar á dynur: Guð er ekki hjá mér! Guð hefur yfirgefið mig. Guðs sonur, sem huggaði, læknaði, reisti á fætur, hann bugast nú, hrasar, dettur. Og rís enn á fætur. Leiðin er svo löng og þjáningin svo takmarkalaus. Hann gengur þá leið á enda, hann ber þá byrði alla leið. Fyrir mig. (Bænabók)

Vertu, guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Höndin þín, drottinn, hlífi mér,
þá heims ég aðstoð missi.
En nær sem þú mig hirtir hér,
hönd þína eg glaður kyssi.

Dauðans stríð af þín heilög hönd
hjálpi mér vel að þreyja.
Meðtak þá, faðir, mína önd;
mun ég svo glaður deyja.

Minn Jesú, andlátsorðið þitt
í mínu hjata eg geymi.
Sé það og líka síðast mitt,
þá sofna eg burt úr heimi.

Ps. 44. 19, 20, 21, 22

Tíundi lestur: Jesús afklæddur

Hann er sviptur öllu, afklæddur, nakinn.

Þeir fara með Jesú til þess staðar er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður. Þeir báru honum vín, blandað myrru, en hann þáði ekki.

Þá krossfestu þeir hann. Og þeir skiptu með sér klæðum hans og köstuðu hlutum um hvað hver skyldi fá. En það var um dagmál er þeir krossfestu hann. Og yfirskriftin um sakargift hans var svo skráð: KONUNGUR GYÐINGA.

Mark. 15. 22-26

Fumlaust ganga hermennirnir að verki og búa sig undir að krossfesta Jesú. Þeir rífa af honum kyrtilinn og skyrtuna. Nakinn stendur hann, öllu sviptur, allsvana. Nakinn kom ég af móðurlífi, nakinn mun ég aftur héðan hverfa. Drottinn gaf og Drottinn tók. Lofað veri nafn Drottins. Eins mun ég um síðir verða að skilja við allt sem er mitt, svo Guð muni verða allt í öllu. En þessi allslausi, nakti frelsari réttir mér réttlætis skrúðann skíra, til að hylja nekt mína, blygðun, allsleysi, misgjörð, sekt. (Bænabók)

Óvinum friðar blíður bað
brunnur miskunnarinnar.
Hann vill þeir njóti einnig að
ávaxtar pínu sinnar.
Sagði: Faðir, þeim fyrirgef þú;
forblindaðir ei vita nú
sjálfir, hvað vont þeir vinna. –

Lausnara þínum lærðu af
lunderni þitt að stilla,
hógværðardæmið gott hann gaf,
nær gjöra menn þér til illa.
Blót og formæling varast vel,
á vald guðs allar hefndir fel,
heift lát ei hug þinn villa.

Fyrst þú baðst friðar fyrir þá,
er forsmán þér sýndu mesta,
vissulega ég vita má,
viltu mér allt hið besta,
því ég er guðs barn og bróðir þinn,
blessaði Jesú, herra minn.
Náð kann mig nú ei bresta.

Ps. 34. 3, 4,

Ellefti lestur: Kristur negldur á krossi

Kristur negldur á krossinn. Nú fullkomnast þjáning frelsarans.

Þá sagði Jesús: „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gera.“ En þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér.

Lúk. 23. 34

Hamarshöggin dynja, þung og ógnvænleg gegnum stunur fangans og kvalakvein, já og hróp og formælingar, grát og kveinstafi áhorfenda. En í gegnum kliðinn og ófriðinn berst rödd, svo mild og hlý, hún heyrist vart, líður eins og andvari, blíður blær: “Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra!” Til þess gekk hann þessa leið. Og krossferill hans heldur áfram gegnum skuggalendur sorgarinnar, kvíða og þjáningar, gjörgæsludeildir, langlegudeildir, fangelsi og meðferðarstofnanir, hús og heimili, götur og torg um dauðans nótt og dimmar grafir alla leið – fyrir mig. Fyrir þig. Til fyrirgefningar syndanna. (Bænabók)

Hafðu, Jesú, mig í minni,
mæðu og dauðans hrelling stytt.
Börn mín hjá þér forsjón finni,
frá þeim öllum vanda hritt.
Láttu standa á lífsbók þinni
líka þeirra nafn sem mitt.

Ps. 30. 14

Tólfti lestur: Jesús deyr

Drottinn Jesús, miskunna þú mér. Eftir þriggja stunda kvalastríð hrópar Jesús: “Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!” Og andast.

Hann hrópar hárri röddu. Var það neyðaróp, eða sigurs? Ég heyrði það ekki. Ég sé bara að hann gefur upp öndina. Og ég heyri einhvern í mannfjöldanum segja: “Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.” Og það bergmálar í hjarta mér er ég ber mér á brjóst og held á braut. Sannarlega er hann sonur Guðs. Ég ætla að muna það hvenær sem þjáningin verður á vegi mínum. Þegar myndir hörmunganna birast á skjánum, þegar ótíðindin berast að eyrum, þegar ég þarf að líða og þjást, þá ætla ég að hlusta eftir rödd HANS, og reyna að koma auga á HANN og halda mig nálægt HONUM – sem tók á sig mannsins mein og sorg, þjáning og dauða – til að leysa, líkna, gefa líf. (Bænabók)

(Tillaga að versum úr Passíusálmunum: Ps. 45.9-15)

Í þínum dauða, ó, Jesú,
er mín lífgjöf og huggun trú.
Dásemdarkraftur dauða þíns
dreifist nú inn til hjarta míns.
Upp á það synd og illskan þver
út af deyi í brjósti mér.

Þú hneigðir þínu höfði ljóst,
herra, þá þú á krossi dóst.
Með því bentir þú mér það sinn
að minnast jafnan á dauða þinn.
Eins, þá ég dey, skulu augun mín
upp líta, drottinn sæll, til þín.

Fyrir þann deyð sem þoldir þú,
þig bið ég, Jesú, um það nú,
að gefi mér þín gæskan blíð
góða kristins manns dauðatíð.
Hold mitt lát hvílast hægt í frið.
Hönd þín sálunni taki við.

Ps. 45. 13, 14, 15

Þrettándi lestur: Jesús tekinn ofan af krossi

Um kvöldið var lík hins krossfesta tekið ofan og sveipað líndúk og búið til greftrunar.

Lífið var sigrað, brotið, svívirt, gegnum stungið. Andaður hvílir Jesús í örmum móður sinnar. Stríðinu er lokið, Jesús er sigraður. Eins mun sérhver manneskju um síðir bíða ósigur fyrir dauðanum. Líka ég, og þau sem ég elska. (Bænabók)

Sé ég þig, sæll Jesú,
svo sem álengdar nú.
Von mína og veika trú
við bið ég hressir þú.

Þá ég sé sárin mín,
særir mig hjartans pín.
En sárin þá sé ég þín,
sorg öll og kvíðinn dvín.

Lát mig, ó, Jesú kær,
aldrei svo vera þér fjær,
að sjái eg ei sár þín skær,
þá sorg og eymd mig slær.

Veit mér, ég verði og sé
vin þinn og kunningi.
Þó hverfi heilsa og fé,
hjálp mun þá nóg í té.

Ég fel í sérhvert sinn
sál og líkama minn
í vald og vinskap þinn.
Vernd og skjól þar ég finn.

Ps. 47. 19-23

Fjórtándi lestur: Jesús greftraður

Jesús graftraður. Menn lögðu lík hins krossfesta í úthöggna klettagröf.

Nú er allt fullkomnað. Jesús hvílir í gröf sinni og bíður upprisudagsins. Megi líf mitt og dauði minn eins vera sáðkorn sem í krafti Jesú beri ávöxt til eilífs lífs.

Ps. 49. 20-22

Í þriðja lagi huggun hrein
hér veitist mér á alla grein,
guðs sonar hold því greftrað var
greftrun minni til virðingar.

Helgum guðs börnum herrans hold
helgaði bæði jörð og mold.
Gröfin því er vort svefnhús sætt,
svo má ei granda reiðin hætt.

Svo að lifa, ég sofna hægt,
svo að deyja, að kvöl sé bægt,
svo að greftrast sem guðs barn hér
gefðu, sætasti Jesú, mér.

Ps. 49. 20-22