Farskóli ungleiðtoga – akureyrar – og glerárkirkja

Helgina 12. – 13. febrúar var haldinn farskóli fyrir ungleiðtoga í kirkjunum á Akureyri. 10 ungmenni mættu til leiks. Um námskeiðið sáu Eydís Ösp Eyþórsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og fjölskyldusviðs Glerárkirkju og Sonja Kro æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju. Fræðslustundirnar byggðust upp á kennsluefni sem bræðurnir Jóhann og Pétur Björgvin Þorsteinssynir gerðu á sínum tíma.
Byrjað var á helgistund í Akureyrarkirkju þar sem hópurinn átti notalega stund í upphafi. Þá var farið niður í Safnaðarheimilið og teknar fyrir tvær kennslustundir í A-hluta efnisins, ég og hópurinn og fyrirmyndin og leiðtoginn. Inn á milli voru leikir svo efnið var aldrei þungt né snúið. Það reyndi þó töluvert á sköpunargleði unglinganna og virkni þeirra. Í kvöldmatinn var svo pöntuð pizza. Endað var á feluleik í myrkri, sem er alltaf frekar vinsælt í Akureyrarkirkju. Á laugardagsmorgni hittist hópurinn klukkan 10 í Glerárkirkju. Farið var í fræðslu og leiki um fordóma og spunnust góðar umræður um það málefni. Þvínæst var fjallað um táknmál kristinnar trúar og gerð verkefni því tengt. Eftir léttan hádegisverð var endað á helgistund í Glerárkirkju.
Farskólinn er eins og endurmenntun fyrir aðstoðarfólkið okkar í kirkunum og því mikilvægt að sinna þessum þætti vel. Nýjar hugmyndir vakna, vitneskja þeirra um trúna eykst og hópurinn þéttist saman. Mikilvægt og mjög svo þarft starf fer þarna fram og vonum við sem að farskólanum stóðu að unglingarnir hafi haft bæði gagn og gaman af helginni. Í vor stendur til að halda aftur farskólahelgi, annað hvort með eins fyrirkomulagi eða í samstarfi við austurland. Tíminn og covid leiða það í ljós síðar.