Sjöundi dagur: Að vaxa í einingu. Sunnudagur 24. janúar

Jesús segir: „Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar.“ Jóh 15:5a

Lestrar

1. Korintubréf 1:10-13; 3:21-23 Er ​​Kristi skipt í sundur?

En ég hvet ykkur, systkin, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að vera öll samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal ykkar. Verið heldur samlynd og einhuga. Því að heimilismenn Klóe hafa tjáð mér um ykkur, bræður mínir og systur, að þrætur eigi sér stað á meðal ykkar. Ég á við að sum ykkar segja: „Ég fylgi Páli,“ og aðrir: „Ég fylgi Apollós,“ eða: „Ég fylgi Kefasi,“ eða: „Ég fylgi Kristi.“ Er þá Kristi skipt í sundur? Skyldi Páll hafa verið krossfestur fyrir ykkur? Eða eruð þið skírð til nafns Páls?…Þess vegna stæri enginn sig af mönnum. Því að allt er ykkar hvort heldur er Páll, Apollós eða Kefas, heimurinn, líf eða dauði, hið yfirstandandi eða hið komandi, allt er ykkar. En þið eruð Krists og Kristur Guðs.

Jóhannes 17:20-23 Eins og þú og ég erum eitt

Ég bið ekki einungis fyrir þessum heldur og fyrir þeim sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig. Og ég hef gefið þeim þá dýrð sem þú gafst mér svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, ég í þeim og þú í mér svo að þeir verði fullkomlega eitt til þess að heimurinn viti að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.

Hugleiðing

Í nánd dauða síns bað Jesús um einingu þeirra sem faðirinn gaf honum: „að allir séu þeir eitt … svo að heimurinn trúi“. Tengd við hann, eins og grein er tengd vínviðnum, deilum við sama safa sem dreifist meðal okkar og lífgar okkur.

Sérhver trúarhefð leitast við að leiða okkur að hjarta trúarinnar: Samfélagi við Guð, fyrir Krist, í andanum. Því ríkar sem við lifum þetta samfélag, þeim mun tengdari erum við öðru kristnu fólki og mannkyninu öllu. Páll varar okkur við afstöðu sem þegar hafði ógnað einingu hinna fyrstu kristnu manna: að gera eigin hefð algilda til tjóns fyrir einingu líkama Krists. Mismunur verður þá sundrandi í stað þess að við auðgum hvert annað. Páll var mjög víðsýnn: „Allt er ykkar, en þið eruð Krists og Kristur Guðs“ (1Kor 3:22-23).

Vilji Krists skuldbindur okkur á leið einingar og sátta. Það skuldbindur okkur einnig að sameina bæn okkar til hans: „að allir séu þeir eitt … til þess að heimurinn trúi“ (Jóh 17:21).

Sættu þig aldrei við hneyksli aðskilnaðar kristinna manna sem játa svo fúslega ást sína til náungans og eru samt sundraðir. Gerðu einingu líkama Krists heils hugar að málefni þínu og ætlunarverki.[1]

Bæn

Heilagur andi,
lifandi eldur og blíði andardráttur,
kom og dvel í okkur.
Endurnýjaðu í okkur ástríðu fyrir einingu
svo að við getum lifað í vitund um tengslin sem sameina okkur í þér.
Megi öll þau sem hafa íklæðst Kristi við skírn sína
sameinast og bera vitni um vonina sem ber þau uppi.

[1]Rule of Taizé, bls. 13.

Samkirkjuleg bænastund á sjöunda degi bænavikunnar