Sjötti dagur: Að taka fagnandi á móti öðrum. Laugardagur 23. janúar

Jesús segir: „Farið og berið ávöxt, ávöxt sem varir.“Jóh 15:16b

Lestrar

1. Mósebók 18:1-5 Abraham hýsir engla í Mamrelundi

1 Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. 2 Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar 3 og mælti:
„Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. 4 Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? 5 Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“
Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“

Markús 6:30-44 Samúð Jesú með mannfjöldanum

30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því er þeir höfðu gert og kennt. 31 Hann sagði við þá: „Komið nú á óbyggðan stað, svo að við séum einir saman, og hvílist um stund.“ En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.
32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað. 33 Menn sáu þá fara og margir þekktu þá og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim. 34 Þegar Jesús steig á land sá hann þar margt manna og hann kenndi í brjósti um þá því að þeir voru sem sauðir er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt. 35 Þá er mjög var áliðið dags komu lærisveinarnir að máli við Jesú og sögðu: „Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið. 36 Lát fólkið fara svo að það geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar.“
37 En Jesús svaraði þeim: „Gefið því sjálfir að eta.“
Þeir svara honum: „Eigum við að fara og kaupa brauð fyrir tvö hundruð denara[ og gefa því að eta?“
38 Jesús spyr þá: „Hve mörg brauð hafið þið? Farið og gætið að.“
Þeir hugðu að og svöruðu: „Fimm brauð og tvo fiska.“
39 Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa. 40 Fólkið settist niður í flokkum, hundrað í sumum en fimmtíu í öðrum.
41 Og Jesús tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Fiskunum tveim skipti hann og meðal allra. 42 Og allir neyttu og urðu mettir. 43 Þeir tóku saman brauðbitana er fylltu tólf körfur, svo og fiskleifarnar. 44 En þeir sem brauðanna neyttu voru fimm þúsund karlmenn.

Hugleiðing

Þegar við látum umbreytast af Kristi vex ást hans í okkur og ber ávöxt. Að fagna þeim sem eru ólík okkur er áþreifanleg leið til að deila kærleikanum sem er innra með okkur. Alla sína ævi tók Jesús vel á móti þeim sem hann hitti. Hann hlustaði á þau og lét snertast af þeim án þess að óttast þjáningar þeirra.

Í frásögn guðspjallsins um blessun brauðanna fyllist Jesús samúð eftir að hafa séð hungraðan mannfjöldann. Hann veit að það verður að næra alla manneskjuna og að hann einn getur sannarlega fullnægt hungri í brauð og lífsþorsta. En hann vill ekki gera þetta án lærisveinanna, án þess litla sem þeir geta gefið honum: fimm brauð og tvo fiska.

Enn þann dag í dag hvetur hann okkur til að vera samverkafólk í skilyrðislausri umönnun hans. Stundum nægir eitthvað eins lítið og vinsamlegt tillit, athygli eða nærvera okkar til að þeim sem verða á vegi okkar finnist þau vera velkomin. Þegar við bjóðum Jesú að helga honum takmarkaða hæfileika okkar kemur á óvart hvernig hann notar þá.Við skiljum síðan hvað Abraham gerði, því það er með því að gefa það sem við fáum þegar við tökum á móti öðrum, sem við hljótum blessun í ríkum mæli.

Í gestinum tökum við á móti Kristi sjálfum.[1]

Munu þau sem við bjóðum velkomin inn í líf okkar frá degi til dags finna í okkur fólk sem geislar af Kristi, sem er friður okkar?[2]

Bæn

Jesús Kristur,
við viljum taka vel á móti þeim bræðrum og systrum sem eru hjá okkur.
Þú veist hversu oft við erum úrræðalaus gagnvart þjáningu þeirra,
en samt ert þú alltaf kominn á undan okkur
og þú hefur þegar tekið við þeim af samúð þinni.
Talaðu við þau með orðum okkar, styrk þau með verkum okkar,
og lát blessun þína hvíla yfir okkur öllum.