Fjórði dagur: Að biðja saman – Fimmtudagur 21. janúar

Jesús segir: „Ég kalla yður ekki framar þjóna … en ég kalla yður vini“ Jóh 15:15

Lestrar

Rómverjabréfið 8:26-27 Andinn hjálpar okkur í veikleika okkar

Eins hjálpar andinn okkur í veikleika okkar. Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. En hann sem hjörtun rannsakar veit hver hyggja andans er, að hann biður fyrir heilögum samkvæmt Guðs vilja.

Lúkas 11:1-4 Drottinn, kenndu okkur að biðja

Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann þá er hann lauk bæn sinni: „Drottinn, kenndu okkur að biðja eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum.“
En hann sagði við þá: „Þegar þér biðjist fyrir, þá segið:
Faðir,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
gef oss hvern dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar syndir
enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni.“

Hugleiðing

Guð þyrstir í samband við okkur. Hann leitar okkar eins og þegar hann leitaði að Adam og kallaði til hans í garðinum: „Hvar ertu?“ (1. Mós 3: 9).

Í Kristi kom Guð til móts við okkur. Jesús lifði í bæn, innilega tengdur föður sínum, meðan hann stofnaði til vináttu við lærisveina sína og öll þau sem hann kynntist. Hann kynnti þeim það sem var honum dýrmætast: kærleiksríkt samband sitt við föður sinn, sem er faðir okkar. Jesús og lærisveinarnir sungu sálma saman og áttu rætur í ríkri hefð gyðinga. Stundum dró Jesús sig í hlé til að biðja einn.Bæn er hægt að biðja út af fyrir sig eða með öðrum. Hún getur birst í aðdáun, kvörtun, fyrirbæn, þakkargjörð eða einfaldri þögn. Stundum er löngunin til að biðja fyrir hendi en maður hefur á tilfinningunni að geta ekki gert það. Að snúa sér að Jesú og segja við hann, „kenndu mér“, getur rutt brautina. Löngun okkar sjálf er þegar bæn.Að koma saman í hóp veitir okkur stuðning. Með sálmum, orðum og þögn skapast samfélag. Ef við biðjum með kristnu fólki með aðra trúarhefð, kunnum við að undrast yfir því að vera sameinuð vináttuböndum sem koma frá honum, sem er handan allrar sundrungar. Formin geta verið mismunandi, en það er sami andinn sem leiðir okkur saman.

Í hinni almennu sameiginlegu bæn okkar vex kærleikur Jesú innra með okkur, við vitum ekki hvernig. Almenn bæn leysir okkur ekki frá persónulegri bæn. Þær styðja hvor aðra. Gefum okkur tíma á hverjum degi til að endurnýja persónulega nánd okkar við Jesúm Krist.[1]

Bæn

Drottinn Jesús, allt líf þitt var bæn,
fullkomin sátt við Föðurinn.
Kenndu okkur fyrir Anda þinn að biðja samkvæmt þínum kærleiksvilja.
Megi trúað fólk um allan heim sameinast í fyrirbæn og lofgjörð,
og megi kærleiksríki þitt koma.