Fimmti dagur: Að láta umbreytast með orðinu. föstudagur 22. janúar

Jesús segir: „Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar“. Jóh 15:3

Lestrar

5. Mósebók 30:11-20 Orð Guðs er mjög nærri þér

11 Þetta boð, sem ég legg fyrir þig í dag, er ekki óskiljanlegt eða fjarlægt þér. 12 Það er ekki uppi í himninum svo að þú þurfir að spyrja: „Hver vill stíga upp í himininn og sækja það og kunngjöra okkur það svo að við getum framfylgt því?“ 13 Það er ekki heldur handan hafsins svo að þú þurfir að spyrja: „Hver vill fara yfir hafið fyrir okkur og sækja það og kunngjöra okkur það svo að við getum framfylgt því?“
14 Nei, orðið er mjög nærri þér, í munni þínum og hjarta svo að þú getur breytt eftir því.15 Hér með legg ég fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.
16 Ef þú hlýðir boðum Drottins, sem ég set þér í dag, með því að elska Drottin, Guð þinn, ganga á vegum hans og halda boð hans, ákvæði og lög, munt þú lifa og þér mun fjölga og Drottinn, Guð þinn, mun blessa þig í landinu sem þú heldur nú inn í til að taka það til eignar.
17 En ef hjarta þitt gerist fráhverft og þú hlýðir ekki og lætur tælast til að sýna öðrum guðum lotningu og þjóna þeim, 18 lýsi ég því hér með yfir að ykkur verður gereytt. Þið munuð þá ekki lifa lengi í landinu sem þú heldur inn í yfir Jórdan að taka til eignar.
19 Ég kveð bæði himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag: Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa 20 með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann því að þá muntu lifa og verða langlífur í landinu sem Drottinn hét að gefa feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi.

Matteus 5:1-12 Sæl eruð þið

1 Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2 Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
3„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
4Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
5Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
7Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
8Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
9Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
11 Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. 12 Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.

Hugleiðing

Orð Guðs er okkur mjög nærri. Það er blessun og fyrirheit um hamingju. Ef við opnum hjörtu okkar talar Guð til okkar og umbreytir þolinmóður því sem er að deyja í okkur. Hann fjarlægir það sem kemur í veg fyrir vöxt hins raunverulega lífs, rétt eins og vínræktandinn klippir vínviðinn.

Að hugleiða reglulega Biblíutexta, ein eða í hópi, breytir viðhorfum okkar. Margt kristnið fólk biður sæluboðin á hverjum degi. Sæluboðin birta okkur hamingju sem er falin í því sem er óuppfyllt, hamingju sem er þjáningum æðri: Blessuð eru þau sem andinn snertir svo að þau geta ekki lengur haldið aftur af tárunum en leyfa þeim að streyma og fá þannig huggun. Þegar þau uppgötva brunninn, sem falinn er hið innra með þeim, eykst hungur þeirra eftir réttlæti og þorsti til að eiga samskipti við aðra í heimi friðarins.

Við erum stöðugt kölluð til að endurnýja skuldbindingu okkar við lífið, með hugsunum okkar og gjörðum. Stundum skynjum við þegar, hér og nú, blessunina sem mun rætast í lok tímans.

Biðjið og vinnið svo að Guð megi ríkja.
Látið Orð Guðs blása lífi í vinnu og hvíld
allan liðlangan daginn.
Varðveitið innri þögn í öllum hlutum til að dvelja í Kristi.
Verið fyllt anda sæluboðanna,
gleði, einfaldleika, miskunn.
[1]

Bæn

Blessaður sért þú, Guð faðir,
fyrir gjöf Orðs þíns í Heilagri ritningu.
Blessaður sért þú fyrir umbreytandi kraft þess.
Hjálpaðu okkur til að velja lífið og leiðbeindu okkur með anda þínum,
svo að við getum skynjað hamingjuna sem þú þráir að deila með okkur.