Þriðji dagur: Að mynda einn líkama – miðvikudagur 20. janúar

Jesús segir: „Elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður“ Jóh 15:12b

Lestrar

Kólossubréfið 3:12-17 Íklæðist hjartagróinni meðaumkun

12 Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. 13 Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. 14 En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.
15 Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar því að Guð kallaði ykkur til að lifa saman í friði sem limi í einum líkama. Verið þakklát.
16 Látið orð Krists búa með ykkur í allri sinni auðlegð og speki. Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. 17 Hvað sem þið segið eða gerið, gerið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður með hjálp hans.

Jóhannes 13:1-15; 34-35 Elskið hvert annað

1 Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.
2 Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. 3 Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. 4 Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. 5 Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. 6 Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“
7 Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“
8 Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ 9 Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“
10 Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur.[ Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ 11 Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“
12 Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? 13 Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. 14 Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. 15 Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður. … 34 Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. 35 Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“

Hugleiðing

Kvöldið fyrir dauða sinn kraup Jesús á kné til að þvo fætur lærisveina sinna. Hann þekkti erfiðleikana við að búa saman og mikilvægi fyrirgefningar og gagnkvæmrar þjónustu. „Ef ég þvæ þér ekki,“ sagði hann við Pétur, „áttu enga samleið með mér.“Pétur tók á móti Jesú sem kraup við fætur hans; hann þáði þvott og var snortinn af auðmýkt og mildi Krists. Síðar átti hann eftir að fylgja fordæmi Jesú og þjóna samfélagi hinna trúuðu í fyrstu kirkjunni.Jesús óskar þess að líf og kærleikur breiðist út gegnum okkur eins og safinn í gegnum vínviðinn, svo að kristin samfélög séu einn líkami. En nú á tímum eins og áður er ekki auðvelt að lifa saman í einingu. Við stöndum oft frammi fyrir okkar eigin takmörkunum. Stundum tekst okkur ekki að elska þau sem standa okkur næst í samfélaginu, söfnuðinum eða fjölskyldunni. Og tímar koma þegar sambönd okkar slitna alveg.Í Kristi er okkur boðið að vera sveipuð samúð, íklædd góðvild, og byrja sífellt aftur. Viðurkenningin á því að Guði elskar okkur, hvetur okkur til að taka hvert við öðru með styrk okkar og veikleika. Það er þá sem Kristur er meðal okkar.Næstum allslaus, ertu skapari sáttar í því kærleiksfélagi sem er líkami Krists, kirkja hans? Gleðjist, styrkt af sameiginlegum framgangi! Þið eruð ekki lengur ein, á öllum sviðum haldið þið áfram ásamt systkinum í trúnni. Með þeim eruð þið kölluð til að lifa dæmisöguna um samfélagið.[1]

Bæn

Guð faðir, í Kristi opinberar þú okkur kærleika þinn
og í bræðrum okkar og systrum.
Opna hjörtu okkar svo við getum tekið vel á móti hvert öðru
þrátt fyrir ágreining og getum lifað í fyrirgefningu.
Veittu okkur að lifa sameinuð í einum líkama,
svo að gjöfin sem sérhver manneskja er komi í ljós.
Mættum við öll vera spegilmynd hins lifandi Krists.

Bænastund frá Dómkirkju Krists Konungs