Annar dagur: Að þroskast hið innra – Þriðjudagur 19. janúar

Jesús segir: „Verið í mér, þá verð ég í yður“ Jóh 15:4a

Lestrar

Efesusbréfið 3:14-21 Megi Kristur búa í hjörtum okkar

14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, 15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, 16 að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur 17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. 18 Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, 19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.
20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, 21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.

Lúkas 2:41-52 María geymdi allt þetta í hjarta sér

41 Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. 42 Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. 43 Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. 44 Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. 45 En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
46 Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. 47 En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. 48 Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
49 Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ 50 En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
51 Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. 52 Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.

Hugleiðing

Að mæta Jesú vekur löngun til að vera hjá honum og dvelja í honum: gefa ávexti trúarinnar tíma til að þroskast.Jesús var að fullu mannlegur og óx og þroskaðist eins og við. Hann lifði einföldu lífi, rótfastur í trú Gyðinga. Í þessu hulda lífi í Nasaret, þar sem ekkert óvenjulegt virðist hafa gerst, nærði návist föðurins hann.María hugleiddi verk Guðs í lífi sínu og sonar síns. Hún geymdi það allt í hjarta sér. Þannig tók hún smátt og smátt á móti leyndardómi Jesú.Einnig við þurfum langan þroskatíma, heila ævi, til að uppgötva djúpan kærleika Krists, leyfa honum að dvelja í okkur og okkur í honum. Án þess að við vitum hvernig það gerist lætur andinn Krist búa í hjörtum okkar. Og það er með bæn, með því að hlusta á orðið, með því að deila því með öðrum, með því að framkvæma það sem við höfum skilið, að innri vera okkar styrkist.Við látum Krist stíga niður í djúp verundar okkar … Hann mun gagntaka svæði hugans og hjartans, hann mun hafa áhrif á líkama okkar allt til okkar innstu veru, svo að einnig við munum að lokum fá að reyna djúp miskunnarinnar.[1]

Bæn

Heilagur andi,
Við biðjum þess að við mættum taka á móti nærveru Krists í hjörtum okkar,
og hlú að henni sem leyndarmáli kærleikans.
Nærðu bæn okkar,
upplýstu ritningarlestur okkar,
starfa í gegnum okkur,
svo að ávöxtur gjafa þinna geti vaxið í okkur af þolinmæði.