Bænavika – fyrsti dagur: Kölluð af Guði

Fyrsti dagur: Kölluð af Guði – Mánudagur 18. janúar 2021

Jesús segir: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður“ Jóh 15:16a

Lestrar

1. Mósebók 12:1-4 Köllun Abrahams

1 Drottinn sagði við Abram: [ „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. 2 Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera. 3 Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta.“
4 Þá lagði Abram af stað eins og Drottinn hafði sagt honum og Lot fór með honum. Abram var sjötíu og fimm ára að aldri er hann fór frá Harran.

Jóhannes 1:35-51 Köllun fyrstu lærisveinanna

35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans. 36 Hann sér Jesú á gangi og segir: „Sjá, Guðs lamb.“ 37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.
38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: „Hvers leitið þið?“
Þeir svara: „Rabbí, hvar dvelst þú?“ en Rabbí þýðir meistari.
39 Hann segir: „Komið og sjáið.“ Þeir komu og sáu hvar hann dvaldist og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.[
40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs. 41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: „Við höfum fundið Messías!“ en Messías þýðir Kristur, Hinn smurði. 42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: „Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas,“ en KefasPétur, þýðir klettur.
43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: „Fylg þú mér!“ 44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur. 45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: „Við höfum fundið þann sem Móse skrifar um í lögmálinu og einnig spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.“
46 Natanael sagði: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“
Filippus svaraði: „Kom þú og sjá.“
47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: „Hér er sannur Ísraelíti sem engin svik eru í.“
48 Natanael spyr: „Hvaðan þekkir þú mig?“
Jesús svarar: „Ég sá þig undir fíkjutrénu áður en Filippus kallaði á þig.“
49 Þá segir Natanael: „Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels.“
50 Jesús spyr hann: „Trúir þú af því að ég sagði við þig: Ég sá þig undir fíkjutrénu? Þú munt sjá það sem þessu er meira.“ 51 Og hann segir við hann: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn.“

Hugleiðing

Upphaf ferðarinnar er fundur milli manns og Guðs, milli hins skapaða og skaparans, milli tíma og eilífðar.Abraham heyrði kallið: „Far þú til landsins, sem ég mun vísa þér á.“ Eins og Abraham erum við kölluð að yfirgefa það sem við þekkjum og fara á staðinn sem Guð hefur undirbúið innst í hjarta okkar. Á leiðinni verðum við sífellt meira við sjálf, fólkið sem Guð hefur viljað að við værum frá upphafi. Og með því að fylgja kallinu sem beint er til okkar verðum við að blessun fyrir ástvini okkar, nágranna okkar og heiminn.Kærleikur Guðs leitar okkar. Guð gerðist maður í Jesú. Í Jesú mætum við augliti Guðs. Í lífi okkar, eins og í Jóhannesarguðspjalli, heyrist kall Guðs á mismunandi vegu. Snert af kærleika Guðs leggjum við af stað. Við þessi kynni hefst leið umbreytinga – tært upphaf kærleikssambands sem sífellt hefst að nýju.Einn daginn skildir þú, að án þess að þér væri kunnugt um það hafði verið ritað „já“ í innstu dýpt þína. Og þess vegna valdir þú að feta áfram í fótspor Krists…Í þögninni í návist Krists heyrðir þú hann segja: „Kom, fylgdu mér; Ég mun gefa þér stað til að hvíla hjarta þitt.“[1]

Bæn

Jesús Kristur,
þú leitar okkar, þú vilt bjóða okkur vináttu þína
og leiða okkur til sífellt heillra og fyllra lífs.
Veittu okkur öryggi til að svara kalli þínu
svo að við getum umbreyst
og orðið vitni umhyggju þinnar fyrir heiminum.

Bænastund með efni dagsins frá Óháða söfnuðinum í Reykjavík