Samkirkjuleg bænavika 2021

Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika hefst á mánudaginn 18. janúar. En á sunnudaginn verður útvarpsguðsþjónusta frá Grensássókn kl. 11 og nethelgistund frá Möðruvallaklausturskirkju þar sem fjallað verður um bænavikuna. Í þessari vikuÞ hafa kristnar kirkjur sameinast í bæn í meir en hundrað ár til að biðja um einingu kirkjunnar og frið. Það er alheimsráð kirkna og kaþólska kirkjan sem undirbúa efnið á einhverjum ákveðnum stað sem er svo sent út um alla heimsbyggðina. Í ár var efnið undirbúið í systrasamfélaginu í Grandchamp í Sviss.

Efni bænavikunnar nú er byggt á orðum Jesú í Jóhannesarguðspjalli: „Verið stöðug í elsku minni og þið munuð bera mikinn ávöxt“ (Jóh 15.5-9). Það endurspeglar köllun systrasamfélagsins í Grandchamp í Sviss til bænar, sáttargjörðar og einingar kirkjunnar og mannkyns í heild. Systrasamfélagið í Grandchamp varð til á fjórða áratug síðustu aldar þegar hópur kvenna úr reformertu kirkjunni í frönskumælandi Sviss enduruppgötvaði mikilvægi kyrrðar í samfélaginu við Guð. Þær hófu að safnast saman til kyrrðardvalar til að næra trúarlíf sitt innblásnar af dæmi Krists sem iðulega vék burt á óbyggðan stað til að biðjast fyrir í einrúmi (Mark 1.35, Matt 14.23).

Konurnar fengu inni á sveitasetri Bovet fjölskyldunnar í Grandchamp við austurenda Genfarvatns. Til að byrja með var hópurinn ekki stór en í dag tilheyra um 50 systur á öllum aldri og með fjölbreyttan bakgrunn samfélaginu. Þær bjóða alla gesti velkomna, óháð kyni og trúarafstöðu, og hægt er að dvelja hjá þeim um lengri eða skemmri tíma, taka þátt í vinnu þeirra og trúariðkun. Grundvöllur systrasamfélagsins er þríþættur: Bænalíf, líf í samfélagi og gestrisni.

Undirbúningsnefndin hér á Íslandi hefur facebook síðu (Bænavika 18-25 janúar) þar sem átta daga bænirnar eru birtar dag frá degi að morgni dags, svo að þeir sem vilja taka þátt í bæn geti gert það og nú verða sendar út stundir frá kirkjudeildunum á Íslandi í stað samkoma. Þær verða birtar á þessari síðu og vefsíðum og samskiptamiðlum kirknanna. Ég vil hvetja alla til að gefa sér tíma til þess að taka þátt.  Það er fyrsta skrefið í bænalífi að gefa sér tíma eða gefa Guði tíma. Þó að við verðum ein á bæn hvert fyrir sig að þessu sinni þá erum við með kirkjunni um allan heim á bæn um einingu og frið. Ég ætla hér á eftir að hugleiða með ykkur bænina til að undirbúa okkur. 

Helgistundirnar verða sem hér segir. Þær munu birtast hér á síðunni sem helgistundir:

Sunnudagur 17. janúar
Útvarpsguðsþjónusta frá Grensáskirkju á Rás 1 kl. 11

Mánudagur 18. janúar
Óháði söfnuðurinn birtast kl. 12

Þriðjudagur 19. janúar
Íslenska Kristskirkja

Miðvikudagur 20. janúar
Kaþólska kirkjan á Landakoti

Fimmtudagur 21. janúar
Hjálpræðisherinn í Reykjavík

Föstudagur 22. janúar
Aðventkirkjan í Reykjavík

Laugardagur 23. janúar
Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Sunnudagur 24. janúar
Kirkjur á Akureyri – sent út frá Glerárkirkju

Mánudagur 25. janúar
Alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholtskirkju