Erindi Gunnlaugs A. Jónssonar um Golgata og píslarsöguna með augum 22 Davíðssálms

Hér er erindi dr. Gunnlaugs A. Jónssonar endurbirt en hann flutt það á föstudaginn langa 14. apíl 2017 í Glerárkirkju. Undanfarin ár hafa verið flutt erindi þann dag undir yfirskriftin: Íhuganir undir krossinum. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor, nefndi erindi sitt: Golgata og píslarsagan með augum 22. Davíðssálms: Áhrifasaga sálmsins í máli og myndum. Hann gaf út bók Áhrifasaga sálmanna 2014 um áhrif sálmanna á menningu erlendis og hérlendis. Hann gerði grein fyrir áhrifum sálmsins með tilvísunum í myndlist, kvikmyndir og sálma.
Golgata og píslarsagan með augum 22. Davíðssálms:
Áhrifasaga sálmsins í máli og myndum.
1. hluti
Í upphafi tók hann nærtækt dæmi þar sem var verið að sýna Jesus Christ superstar / Jesús Kristur ofurstjarna í Hofi um kvöldið en þar er vísað í sálminn. Það er dæmi um að sálmurinn er mjög tengdur föstudeginum langa í hugum kristinna manna. Hann fór í gegnum 22. Davíðssálminn í erindinu og dró fram meginatriði hans og einkenni smátt og smátt. Hann skýrði inntak sálmsins með talandi dæmum um áhrif á menningu og listir og jafnframt boðskap föstudagsins langa og páskanna. Augljós skil verða í sálminum. Fyrri hlutinn er angurljóð einstaklings og harmur en seinni hlutinn lofgjörð og þakklæti, krossfesting og upprisa. Hann sýndi myndir eftir Chagall og Gauguin sem dæmi um áhrif píslarsögunnar á myndlist og heimfærslu boðskaparins hjá myndlistarmönnum.
2. hluti
Í þessum hluta tók hann dæmi úr íslenskri menningu um leið og hann útskýrði miðhluta sálmsins. Hann benti á að skort hefði angursálma í kristinni sálmahefð. Tók hann dæmi af sálmi Sigurðar Pálssonar sem angursálm þar sem koma fyrir þessi orð: „Þú, Alvaldur, yfirgafst mig!“. Þá fjallaði hann um nokkrar myndir Einars Hákonarsonar vinar síns og trúarlega túlkun hans á píslarstefjunum. Í þessum hluta sálmsins kemur fram traust feðranna á Guði og hjálpinni sem þeir nutu áður fyrr. Þar er vísun í frelsunina út af Egyptalandi. Þá ræddi hann um biblíulegar stórmyndir 6. áratugarins. Hann lýsti vel skilum sem verða í sálminum í v. 23. Annars vegar er það örvænting og harmur en svo er þakklæti og trúartraust í síðasta hluta sálmsins. Hann tók dæmi um ólýsanlega þjáningu í útrýmingarbúða nasista sem dæmi um örvæntingu og harminn sem sálmurinn tjáir og hvernig heimsókn þangað breytti myndlist Einars. Hann ræddi um samhljóm Jobsbókar við þennan sálm og spurningar þeirra sem þjást. Í okkar hefð höfum við angursálma í Passíusálmum Hallgríms þó að hann myndi vafalaust ekki telja þá vera af þeirri gerð.
3. hluti
Í síðasta hlutanum var hann með athyglisverðar hugleiðingar um miskunn Guðs og móðurlíf. Hann fór yfir helstu trúarstef sálmsins. Svo útskýrði hann orðin „snauðir munu eta og verða mettir“ með mynd eftir Karólínu Lárusdóttur: Mettun mannfjöldans. Viðsnúningurinn er algjör í seinni hlutanum og framtíðarsýnin björt um komu Guðs ríkis. Hann benti á í lok erindisins að föstudagurinn langi marki tímamót en vísar þó fram til páskanna og upprisunnar. Og það gerir 22. Davíðssálmur þar sem myndin af hirði þjóðanna birtist í lok sálmsins. Og næsti sálmur á eftir er hirðissálmurinn, 23. Davíðssálmur.