Hraðnámskeið í bæn – á hljóðskrá

Á fimmtán mínútum kennir Guðmundur, héraðsprestur, helstu atriði við bænaiðkun, líkir henni við sönglistina, nefnir Guðmund Jónsson, söngvara, kennara sinn og Salvador Sobral sem dæmi. Davíðssálmar eru sameiginleg bænabók kristinna manna og gyðinga. Hann útskýrir Davíðssálm nr. 121 sem byrjar eins og guðsþjónusturnar í evangelísk lútersku kirkjunni: „Hjálp vor kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar“. Njótið vel:

Hraðnámskeið í bæn

Tekið upp á útvarpsstöðinni Lindinni og flutt þar í þættinum Orð dagsins 24. mars 2020:

Ritnignarlestur: Sálmar 121

Helgigönguljóð.

Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.

Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.Hraðnámskeið í bæn

Í dag ætla ég að bjóða ykkur upp á hraðnámskeið í bæn. Á fáeinum mínútum ætla ég að kenna ykkur allt sem þið þurfið að vita til að geta beðið almennilega. Já, ég meina það.

Ég tók nokkra söngtíma hjá Guðmundi Jónssyni á námsárum mínum, blessuð sé minning hans og söngur. Stundum heyri ég í honum ennþá í útvarpinu og í minningunni. Hann sagði mér það í fyrstu tímunum að það tæki ekki meiri tíma að kenna allt um söng en svona korter, tuttugu mínútur. Líklega aðeins flóknara að syngja en að biðja. Svo kenndi hann mér leyndardóma sönglistarinnar. Þá sagði hann mér að það sé ekki hægt að kenna söng. Það voru mér vonbrigði þar sem ég hafði borgað námið dýrum dómum með námslánum. En hann bætti við, en það er hægt að læra að syngja. Hann hélt því nefnilega fram að söngurinn væri sérstakur talandi, svo að allir gætu sungið ef þeir gætu talað. Söngur er þjálfun, ævilöng, þar sem fara verður rétt að. Ja, veit ekki hvort þið séuð sammála því að allir geti sungið! Ég fór ekki í söngnám til að verða óperusöngvara, minn metnaður var að þurfa ekki að kvelja söfnuði mína alla ævi með óþolandi söng.

Það er eins með bænina og sönginn. Ég get kennt þér að biðja á fáeinum mínútum en þú verður alla ævi að læra hana, fram á  síðasta andardrátt. Og er það þess virði að biðja? Það er lífið sjálft. Þú þekkir ekki lífið fyrr en þú lærir að biðja.

1. Ég hef augu mín til fjallanna

Við höfum heyrt þennan fallega sálm númer 121 í Davíðssálmum. Og Jesús vegna þess að hann taldi að lífið snérist um bæn þá sagði hann eða nánast skipaði okkur: „Biðjið og ykkur mun gefast“ (Mt. 7.7). Hann vissi hvað hann var að tala um, bænarinnar maður var hann. Það er síður en svo hallærislegt eða barnalegt að biðja heldur er reisn yfir þeim sem biðja vegna þess að þau takast á við lífið eins og það kemur fyrir af hendi skaparans, raunverulega, eins og það er.

Ég þarf að útskýra þetta betur. Sönglistin getur hjálpað okkur að skilja þetta. Þegar maður syngur þarf maður að vera algjörlega slakur, raddböndin áreynslulaus, kjálki, háls og tunga, „eins og marglitta á bryggjusporði“, bein tilvitnun í nafna minn. Þið sem sáu hann syngja sjáið hann kannski fyrir ykkur. En spennan í söngnum er í þindinni. Þaðan kemur krafturinn, loftrásin þarf að vera öguð, mátuleg, til að raddböndin titri eðlilega og hljómi svo upp í hausinn, ómi í tómarúmunum þar, frá hjartanu. Hugurinn vakandi yfir öllum tilfinningum sem bærist með mönnum, orðunum fögru, sem segja allt, sem skipta okkur máli, svífa þá um rúmið inni og úti, áreynslulaust, berst lagið frá hjarta til hjarta. Sjáið fyrir ykkur fyrrum sigurvegara Eurovision, Salvador Sobral. Hann söng sig inn í hjörtu Evrópubúa með laginu „Amor Pelos Dois“ eða „Ást fyrir tvo“ sem systir hans samdi. Hann og þau bæði kunna að syngja.

Já-há! Hvernig ætlar nú presturinn að tengja þetta bæninni? Bænin þarf að vera algjörlega áreynslulaus eins og andardrátturinn. Ekki bara „eins og marglitta á bryggjusporði“, heldur að hvíla í ást og umhyggju Guðs. Þá leikur andinn um raddbönd bænarinnar. Það eru í raun ekki bænarorðin sem skipta máli heldur lofgjörðin frá hjartanu til Guðs föður sem elskar. Ég er að tala um fullkomið trúnaðartraust, sem við erum ófær um en Guð gefur okkur af náð að lifa fyrir Jesú.

Úr þessari slökun sprettur sálmur 121 fram eins og úr djúpi hjartans. Orð sem við förum með í upphafi hverrar guðsþjónustu er í þessum anda: „Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapar himins og jarðar“ (v. 1-2). Þetta er helgigönguljóð. Á því vel við í upphafi guðsþjónustu þar sem við göngum, þó að við sitjum að mestu kyrr, upp til Guðs og hann kemur til okkar. En í þessum orðum er líka spennan. Sumir þýða að hjálpin komi frá fjöllunum. Það er rótgróin hugmynd hjá mannkyninu að Guð sé á fjöllum. Þau eru heillandi eins og Guð. En líklega er það nú svo að sá sem fór í helgigöngu upp til Jerúsalem sá ógnirnar sem leyndust bakvið hvern hól. Þar er spenna bænarinnar, að horfast í augu við raunveruleikann. Trúin er nefnilega þver öfugt við það sem sumir guðleysingjar halda fram. Trúin er með uppglennt augu fyrir raunveruleikanum eins og hann er, öllum tengslum, tilfinningum, erfiðleikum, þjáningu, böli, harmi, sorg og dauða, en líka sigrum, gleði og eilífð. Eins og mynd Einars Jónssonar um samviskuna. Í bæninni horfumst við í augu við hlutina eins og þeir eru, enda erum við að fást við Guð sem er sannleikurinn, raunveran sjálf. Það er þetta sem skapar spennuna í bænalífinu. Þetta er það sem við fáum örugglega þegar við biðjum samkvæmt orðum Jesú.

2. Drottinn verndar

Í þessum stutta sálmi sem við erum að hugleiða kemur sex sinnum fyrir hugsunin um vernd Guðs (h. sjamar): „vörður þinn… blundar ekki, sefur ekki… skýlir þér, er þér til hægri handar… verndar þig fyrir öllu illu, verndar sál þín, varðveitir útgöngu þína og inngöngu“. Sem sagt þrátt fyrir að tilvera okkar geti verið allt annað en góð eigum við góðan Guð sem varðveitir okkur. Þarna kemur traustið til, öryggið með Guð, sem við eigum í hjartanu. Auðvitað er það gott að eiga frið í heiminum en það er ekkert sjálfgefið. Í þessum sálmi höfum við þessa stillingu en í öðrum sálmum, eins og harmsálmunum eru átakanlegar lýsingar næstum því eins og í óperu þar sem fólk deyr syngjandi á hæstu tónum. En leyndardómur bænarinnar er að enda helst alltaf í öryggi hjá Guði. Þá á maður grundvallartraust, sem enginn og ekkert getur tekið frá manni í trúnni.

Það kanna að líta út fyrir að vera fáránlegt að vera í friði í storminum miðjum en þannig er trúuðum manni lýst í Davíðssálmum. Ef maður er að sigla í ölduroti og lætur ærast af storminum missir maður frekar stjórn á skútunni og gæti farist með manni og mús. Því er kannski öðru vísi farið með mannleg samskipti. Þau eru heldur flóknari við fyrstu sín en náttúröflin. Tökum aftur dæmið um sönginn. Áreynslulaus söngurinn getur verið tilfinningaþrunginn eins og var hjá Salvador. Söngurinn hans var ástarvísa þar sem drengurinn þrátt fyrir nei stúlkunnar treystir sér til að elska fyrir þau bæði. Túlkunin verður því flottari hjá honum þegar þetta rennur upp fyrir manni. Harmastefið liggur í loftinu en einfeldningurinn lætur sig hafa það í skilningsleysi. Í mannlegum samskiptum gengur þetta ekki upp, að elska fyrir tvo. En með Guð gegnir öðru máli. Hann elskar bæði fyrir sjálfan sig og okkur. Guð er kærleikurinn sem tekur sér bústað í okkur. Það er fáránleiki bænalífsins eða spenna (mótsögn) sem ég geri mér alveg grein fyrir. Það er erfið reynsla þess sem biður að uppgötva að það er ekkert í þessum heimi sem við getum treyst á, ekki menn, hvorki eignir né náttúra. Ekkert er traustsins vert nema Guð einn. Við höfum aðeins Guð einan að byggja traust okkar á. Og hérna svífur þetta lag í loftinu að Guð gerir allt – „Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu“. Það er ekki að ástæðulausu að þessi sálmur er flokkaður með sálmunum um trúnaðartraustið.

3. Útganga og innganga

En það þýðir að við getum hvílt í Guði. Og kirkjan hefur þessa bæn yfir við skírnathafnir í mörgum kirkjudeildum: „Drottinn varðveiti inngöngu þína og útgöngu héðan í frá og að eilífu“, biðjum við fyrir börnum. Svo er þessi sálmur oft lesin við dánarbeð og kveðjustundir ástvina. Finnið þið ekki þessa tilfinningu, þetta eru ekki innantóm orð, heldur traust á góðum Guði, sem við megum fela allt.

Nú er ég búin að segja það sem skiptir máli. Nú kanntu að biðja, þá er bara að byrja eða halda áfram. Ég er með smá æfingaprógramm. Þið kunnið bænaversið eftir Hallgrím Pétursson:

Vertu Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.

Þarna hefur þú allt sem þú þarft. Hallgrímur kenndi nefnilega Íslendingum að biðja fyrir löngu og margir á undan honum líka. „Vertu Guð faðir“, segjum við og biðjum að það verði okkar reynsla, trú og traust. Þess vegna segjum við „faðir minn“. Og þetta gerist ekki bara sí svona heldur gerði Guð allt í Jesú Kristi fyrir okkur. Það er ástæðan fyrir því að við biðjum „í Jesú nafni“. Það er einasta ástæðan fyrir því að við getum hvílt örugg í Guði, annars er óróleiki og kvíði, ef við erum bundin við nokkuð annað en Guð einan. Allt annað bregst. Svo vísar Hallgrímur í sálm 121 þegar hann segir: „Hönd þín leiði mig út og inn“. Hvað er bæði úti og inni? Nú, það er allstaðar á ferðalaginu, helgigöngunni, sem lífið er. Ef við biðjum, þá erum við komin á vegin góða og þrönga þar sem við helgumst Guðs góða vilja allt til enda, höfnum því illa og gefumst góðum Guði í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Bænin er nefnilega andsvar okkar við ávarpi Guðs til okkar þegar hann segir við þig: „Þú ert barnið mitt, ég er Guð þinn, ekki ímynda þér að þú þurfir að gera neitt til að vera mitt barn, ég hef gefið þér það allt með Jesú, þú ert mín, þú ert minn“. Þú ert Guðs.

Farðu svo með þessa bæn Hallgríms að morgni með signingu og kvöldi og vittu til hvort þú farir ekki að eflast í þessu trúartrausti til Guðs sem er hans náðargjöf.

Biðjum saman:

Vertu Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.