Hjálparstarf kirkjunnar – með þinni hjálp – kynning á 50 ára afmæli

Hér á eftir fer kynning á Hjálparstarfi kirkjunnar í tilefni af 50 ára afmæli þess. Hún gefur góða hugmynd um það mikilvæga starf sem er þáttur i starfi safnaðanna og ástæða til að vekja og hvetja safnaðarfólk að taka þátt í þessu starfi með fyrirbæn og gjöfum, en helst með þátttöku með því að gera það að þætti í safnaðarstarfi með því að efla þau sem lifa við fátækt bæði heima og erlendis.

Er ég tilbúinn að heimsækja söfnuði sem vilja fá þessa kynningu og ítarlegri umfjöllun í söfnuði sínum.

Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, fulltrúi Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmisins í fulltrúaráði Hjálparstarfsins.

glæra 1 – Hjálparstarf kirkjunnar

Slide1

Á næstu 30 mínútum eða svo ætla ég að segja ykkur frá verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar í stuttu máli. Bæði frá verkefnum hér á Íslandi en líka á alþjóðavettvangi þar sem starfið er með tvennum hætti.

Annars vegar kemur Hjálparstarfið að mannúðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara og átaka og hins vegar starfar það í þróunarsamvinnu með fólki í einna fátækustu samfélögum heims. Verkefni í þróunarsamvinnu eru langtímaverkefni.

Í ár fagnar Hjálparstarf kirkjunnar fimmtíu ára starfsafmæli en það var á fundi kirkjuráðs 9. janúar 1970 sem þjóðkirkjan tók formlega ákvörðun um stofnun þess.

Í febrúar 2020 starfa þar auk framkvæmdastjóra þrír félagsráðgjafar í 2,3 stöðugildum að verkefnum innanlands, skrifstofufulltrúi, fræðslu- og fjáröflunarfulltrúi og fulltrúi sem sinnir bókhaldi, tölvumálum og útréttingum.

Fólk sem býr við sára fátækt og skert mannréttindi er fólkið sem Hjálparstarf kirkjunnar hefur látið sig varða allt frá stofnun þess.

Öll aðstoð sem fólkið nýtur er veitt þannig að hún sé valdeflandi – að hún sé raunveruleg hjálp til sjálfshjálpar.

glæra 2 – Alþjóðlegt Hjálparstarf – Mannúðaraðstoð

Slide2

Myndin sem þið sjáið hér er frá Malaví en í nóvember 2019 sendi Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu, 7,4 milljónir króna til mannúðaraðstoðar við þúsundir íbúa sem hafa átt um sárt að binda eftir að fellibylurinn Idai reið yfir landið í mars 2019. Mósambík varð verst úti í fellibylnum en í Simbabve og Malaví varð einnig manntjón og mikil eyðilegging.

 Hjálparstarf kirkjunnar í Malaví (ELDS) setti sér það markmið í upphafi að aðstoða þá 8.800 íbúa í héruðunum Phalombe og Chikwawa sem verst urðu úti með því að útvega þeim næringarríka fæðu og tryggja þeim aðgengi að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu.

 Sérstök áhersla hefur verið lögð á að börn yngri en fimm ára fái næga næringu en á myndinni eru mæður sem hafa fengið sérstaka næringarpakka til að koma í veg fyrir að börn þeirra líði næringarskort.

Einnig er unnið að því að íbúarnir og þá sérstaklega börnin njóti sálfélagslegs stuðnings til að takast á við streitu í kjölfar hamfaranna. Þá hefur verið unnið að því að styrkja viðbragðsgetu samfélagsins við hamförum og bændur fengið aðstoð við að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað.

Mannúðaraðstoðin í Malaví lýsir því vel hvernig Hjálparstarf kirkjunnar kemur að mannúðaraðstoð á alþjóðavettvangi. Það er með samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF DWS) og með því að vera aðili að Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, sem samhæfir mannúðaraðstoð með hjálparstofnunum Sameinuðu þjóðanna og starfar eftir ströngustu stöðlum um faglegt hjálparstarf.

Á starfsárinu 2018 – 2019 sendi Hjálparstarf kirkjunnar fjárframlag, alls 111,5 milljónir króna, til mannúðaraðstoðar ACT Alliance í Palestínu, Jórdaníu, Írak, Suður-Súdan og Indónesíu. Framlagið er að meðtöldum styrkjum sem utanríkisráðuneytið veitti samkvæmt verklagsreglum um styrki til mannúðaraðstoðar borgarasamtaka.

glæra 3 – Myndband um þróunarsamvinnu í Eþíópíu – áður en myndband er sýnt er gott að taka fram að:

Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu til lengri tíma er með sárafátæku fólki í Sómalífylki í Eþíópíu.

Slide3 

Eftir myndbandssýningu:

Sómalífylki er eitt af fátækustu fylkjunum í Eþíópíu en á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland er nú númer sex er Eþíópía númer 173 (af um 190 ríkjum og landssvæðum á listanum). Þurrkar og óstöðugt veðurfar eru stærsta ógnin við fæðuöryggi íbúanna.

Þegar lítið sem ekkert rignir á hefðbundnum regntíma verður uppskeran rýr og fátæktin séfellt sárari. Þegar loksins rignir er jarðvegurinn orðinn grjótharður og regnvatnið nær ekki að næra hann en rífur með krafti sínum ræktarland í sundur.

Frá 2007 – 2017 náði aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar beint og óbeint til fleiri en 130.000 einstaklinga í Jijigahéraði í Sómalífylki og breytti lífi þeirra til hins betra.

Brunnar voru grafnir og þar sem það var ekki mögulegt hafa verið grafnar vatnsþrær fyrir regnvatn.

Stíflur og veggir í árfarvegum voru reist til að halda regnvatni í farvegi og hefta eyðimerkurmyndun, nýjar og þurrkþolnari korntegundir voru kynntar til sögunnar sem og skilvirkari ræktunaraðferðir og betri verkfæri.

Dýraliðar hafa verið þjálfaðir til að meðhöndla dýrasjúkdóma og bólusetja búfé.

Konur hafa tekið þátt í sparnaðar- og lánahópum og hafa fengið fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hófu margar kvennanna rekstur og reka litla búð, stunda geita- og hænsnarækt og rækta grænmeti.

Konur sem hafa tekið þátt í verkefninu tala um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt á verkefnasvæðunum áður en samvinnan hófst.

Frá árinu 2018 hefur Hjálparstarfið starfað með 3.000 fjölskyldum (um 10.000 manns) sem búa við mjög slæm skilyrði í héraðinu Kebri Beyah sem er staðsett rétt austur af Jijigahéraði að því að tryggja fæðuöryggi þeirra. Meginmarkmið verkefnisins eru eins og áður:

– að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni,

– að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með umhverfisvernd og bættum aðferðum í landbúnaði,

– að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.

glæra 4 – Með munaðarlausum í sveitinni í Úganda

Slide4

Þessar myndir tók fræðslufulltrúi Hjálparstarfsins í Rakaíhéraði í Úganda í eftirlitsferð á verkefnasvæði í maí 2019. Móðir barnanna sem eru 10, 12, 15 og 18 ára gömul, lést af völdum alnæmis viku áður en myndirnar voru teknar og eru þau nú munaðarlaus.

Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins segir að öll börn eigi rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska og að foreldrar beri höfuðábyrgð á lífsskilyrðum og framfærslu barna sinna.

Í sveitahéruðum í Lyantonde og Rakai í Úganda aðstoðar Hjálparstarf kirkjunnar börn sem búa við örbirgð. Foreldrar barnanna eru annað hvort látnir af völdum alnæmis eða mjög lasburða og eru ekki færir um að tryggja heilsu þeirra og tækifæri til mannsæmandi lífs. Fjölskyldurnar búa í kofahreysum og hafa hvorki nægan aðgang að vatni og hreinlætisaðstöðu né næringarríkri fæðu. 

glæra 5 – Stuðningur við börnin

Slide5

Börnin njóta aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar sem veitt er í samstarfi við innlendu grasrótarsamtökin RACOBAO en þau hafa starfað í þágu HIV-smitaðra í Úganda í meira en áratug.

Aðstoðin felst fyrst og fremst í því að reist er einfalt múrsteinshús fyrir börnin, að tryggja þeim drykkjarvatn með 4000 lítra vatnstanki fyrir rigningarvatn, sem reistur er við hlið hússins, að tryggja hreinlæti með því að reisa útikamar og til þess að stuðla að góðri heilsu barnanna fá þau geitur til ræktunar, áhöld og útsæði til að hefja matjurtarækt á landspildu sem nágrannar leyfa börnunum að nota. 

glæra 6 – Stuðningur við börnin, framhald

Slide6

Börnin, eins og aðrar fjölskyldur sem njóta aðstoðar (börn sem búa ein, einstæðar HIVsmitaðar einstæðar mæður og ömmur með barnabörn á framfæri), fá rúm, dýnur, moskítónet og eldhúsáhöld með húsinu. Þau fá fræðslu um mikilvægi hreinlætis til að koma í veg fyrir sjúkdóma og njóta sálræns stuðnings starfsfólks RACOBAO. Allt fyrir pening sem kemur frá Íslandi. 

glæra 7 – Saga Harriet

Slide7

Konan á þessari mynd heitir Harriet. Hún sagði framkvæmdastjóra og fræðslufulltrúa Hjálparstarfsins sögu sína þegar þau voru í eftirlitsferð í Rakaihéraði í maí 2019:

„Ég fékk aðstoð frá RACOBAO og Hjálparstarfi kirkjunnar árið 2010. Þá var ég mjög veikburða af völdum alnæmis og gerði mér engar vonir um að lifa af. Mér var þá huggun í að vita að börnin mín fjögur myndu fá húsaskjól og aðgang að vatni og hreinlætisaðstöðu. Ég hugsaði: Ég get dáið sátt því ég veit að börnin mín fjögur eru komin í öruggt skjól.“

Harriet náði hins vegar heilsu á ný því hún fékk lyf og fræðslu um nauðsyn þess að hætta ekki að nota þau. Harriet er nú í sveitarstjórn þar sem hún leggur áherslu á að efla þjónustu við HIVsmitaða og börn þeirra. Hún sagði, „Hugsið ykkur, ég sem var við dauðans dyr og var sárafátæk, nú er ég komin í sveitarstjórn.“ Börnum Harriet vegnar vel og hafa gengið menntaveginn.

Saga Harriet hjálpar okkur að skilja mikilvægi aðstoðar við fólk sem býr við sárafátækt vegna alnæmis. það er ekki bara hún sem nýtur góðs af heldur börnin hennar og samfélagið allt.

glæra 8 – Unglingar í fátækrahverfum Kampala fá tækifæri

Slide8

Þessi mynd er tekin í einum af fátækrahverfum Kampala, höfuðborg Úganda.

Þar er Hjálparstarf kirkjunnar í samstarfi við samtökin Ugandan Youth Development Link, UYDEL, sem hafa áratuga reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum og eru leiðandi í baráttunni gegn mansali og barnaþrælkun í landinu.

Í Kampala eru um 17% fólks á aldrinum 15 – 29 ára án atvinnu. Börn og unglingar í fátækrahverfum höfuðborgarinnar eru útsett fyrir misnotkun af ýmsu tagi og eymdin leiðir til þess að þau verða auðveldlega fíkniefnum að bráð. Neyðin rekur unglingana til að taka þátt í glæpagengjum eða selja líkama sinn til að geta séð sér farborða.

UYDEL rekur smiðjur fyrir börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára og fjármagnar Hjálparstarf kirkjunnar starfið í þremur þeirra. Í smiðjunum þremur stunda um 500 unglingar nám ár hvert.

Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það getur nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

glæra 9 – Starfið í smiðjunum

Slide9

Í smiðjunum getur unga fólkið valið sér ýmis kjörsvið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, farsímaviðgerðir, saumaskap og sápugerð. Einnig eru á dagskrá dans, leik- og sönglist og íþróttir. Mikið er lagt upp úr því að styrkja sjálfsmynd unglinganna sem koma úr ömurlegum aðstæðum í fátækrahverfunum.

glæra 10 – ungar stelpur í matreiðslu og Salóme en saga hennar er sögð hér

Slide10

„Áður var eins og ég væri ekki til en núna vinn ég fyrir mér, ráðstafa launum mínum eins og ég kýs og fólk virðir mig,“ sagði Salóme, tvítug stúlka, sem útskrifaðist úr smiðju UYDEL og Hjálparstarfsins árið 2018 og vinnur nú sem herbergisþerna á stóru hóteli í Kampala, höfuðborg Úganda. Salóme sagði við Bjarna Gíslason, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins í maí 2019 að hún væri ánægð í vinnunni og þakkaði ítrekað fyrir tækifærið sem hún fékk með ársnámi í smiðjunni.

Eftir námið komu félagsráðgjafar UYDEL því til leiðar að Salóme kæmist á starfsnemasamning á hótelinu. Hún stóð sig vel og fékk þar fasta vinnu í framhaldinu. Salóme leggur fyrir af launum sínum vikulega en draumur hennar er safna nægu fé til að geta opnað eigin matsölubás. „Þú verður að vinna hörðum höndum til að ná árangri,“ sagði hún full bjartsýni. 

glæra 11 – Börn sem búa við örbirgð á Indlandi geta gengið í skóla

Slide11

Myndin sem þið sjáið nú er af börnum á Indlandi sem búa við sára fátæt en stunda nám og eru í heimavist þökk sé hjartahlýju fólki frá Íslandi.

Frá árinu 1989 hafa Hjálparstarf kirkjunnar og Fósturforeldrar sem styrkja börn til náms stutt starf Sameinuðu indversku kirkjunnar, United Christian Church of India eða UCCI, í Andhra Pradeshfylki í austurhluta Indlands.

UCCI rekur þar skóla, heimavist og spítala ásamt því að gefa fjölskyldum sem búa við sára fátækt Um mitt ár 2019 nutu 225 börn og unglingar stuðnings Fósturforeldra og Hjálparstarfsins til náms en auk þess greiðir Hjálparstarfið laun átta kennara við skólann. 

glæra 12 – Neyðaraðstoð við fólk sem býr við fátækt á Íslandi

Slide12

Nú víkjum við að verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar á Íslandi en á starfsárinu júlí 2018 – júníloka 2019 leitaði 2091 fjölskylda, um 5650 einstaklingar, aðstoðar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Aðstoðin felst fyrst og fremst í því að fólkið fær inneignarkort í matvöruverslunum en mikil valdefling felst í því að fólk versli sjálft þær nauðsynjar sem það þarf í stað þess að bíða í röð eftir matarpoka sem aðrir hafa fyllt.

Auk inneignarkorta fyrir matvöru veitir Hjálparstarfið aðstoð vegna kaupa á lyfjum og fólk getur sótt sér notaðan fatnað í fatamiðstöð Hjálparstarfsins að Háaleitisbraut 66 í Reykjavík.

Allur efnislegur stuðningur er veittur án tillits til trúar- og lífsskoðana, þjóðernis, litarháttar eða kyns þeirra sem hans leitar.

Aðstoð er veitt um land allt í samvinnu við presta, djákna, félags- og námsráðgjafa.

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins hafa sérstakan viðtalstíma á miðvikudögum klukkan 12:00 – 15:30. Í viðtölunum segir fólk frá aðstæðum sínum og hefur með sér gögn um tekjur og útgjöld síðasta mánaðar. Aðstoðin tekur meðal annars mið af viðmiðum Umboðsmanns skuldara um lágmarksfjárhæð sem dugar til framfærslu.

Öflugur hópur sjálfboðaliða aðstoðar fólk sem kemur til Hjálparstarfsins eftir notuðum fatnaði á þriðjudögum klukkan 10:00 – 12:00 og annar frækinn hópur sjálfboðaliða sem sjá má hér á myndum mætir á miðvikudögum og flokkar fatnað sem almenningur kemur með til Hjálparstarfsins og setur í hillur og á slár.

glæra 13 – Áhersla á aðstoð við börn og unglinga

Slide13

Velferð barna er í algerum forgangi hjá Hjálparstarfinu þegar kemur að aðstoð vegna efnaleysis.

Sérstök aðstoð er veitt þegar foreldrar hafa ekki efni á að kaupa skólatöskur, hlýjan vetrarfatnað, íþróttavörur og fleira sem til fellur í upphafi skólaárs og yfir veturinn.

Á starfsárinu 2018 – 2019 fengu 42 börn og unglingar yngri en átján ára styrki til íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs, meðalupphæð styrkja var 27.776 krónur. Fyrir milligöngu Hjálparstarfsins geta börn og unglingar einnig sótt sumarbúðir og sjálfstyrkingarnámskeið.

Á síðasta starfsári nutu einnig 58 ungmenni styrks til greiðslu skólagjalda í framhaldsskólum og fyrir bóka- og efniskostnaði. Meðalupphæð styrkja var 33.463 krónur.

Efnisleg aðstoð er mikilvæg en stundum dugar hún ekki ein og sér. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins leitast við að aðstoða fólk á heildrænan hátt og hafa þróað verkefni til að svara sem best þörfum þeirra sem leita eftir aðstoð.

Sumarfrí við Úlfljótsvatn er eitt af þeim verkefnum sem þróað hefur verið í þeim tilgangi en undanfarin sex sumur hafa Hjálparstarfið og Hjálpræðisherinn á Íslandi staðið saman að fjögurra daga sumarfríi fyrir fjölskyldur við Úlfljótsvatn (Myndin til vinstri).

Tilgangurinn með verkefninu er að stuðla að jákvæðri upplifun fyrir börn og foreldra sem búa við efnislegan skort og hafa alla jafna ekki tök á að fara saman í frí.

Meðal skipulagðra dagskrárliða eru klifur, sund, bátaferðir, bogfimi, vatnasafarí og kvöldvökur.

Annað verkefni sem stuðlar að uppbyggilegum samverustundum fjölskyldna sem leita stuðnings Hjálparstarfsins er matjurtarækt sem fólki er boðið að taka þátt í í Seljagarði í Breiðholti.

Verkefnið er í samstarfi við Hjálpræðisherinn í Reykjavík og hefur verið í gangi frá árinu 2015. Þátttaka í verkefninu hefur aukist jafnt og þétt en aldrei hafa fleiri tekið þátt í því en sumarið 2019 þegar tólf fjölskyldur tóku þátt í því.

Fjölskyldurnar setja niður grænmeti á vorin og huga að vexti þar til uppskera fæst að hausti en þá er námskeið um sultugerð og aðrar geymsluaðferðir.

Garðavinnan (myndin til hægri) hefur reynst tilvalið samvinnuverkefni fyrir fjölskyldurnar sem rækta ýmiss konar kryddjurtir, grænmeti og jafnvel jarðarber undir leiðsögn garðyrkjufræðings. Gildi verkefnisins felst ekki síst í útveru, hreyfingu og gæðasamverustundum fjölskyldnanna sem í því taka þátt.

glæra 14 – Valdefling og málsvarastarf

Slide14

Markmið Hjálparstarfsins er að aðstoða fólkið sem leitar eftir efnislegum stuðningi við að finna styrk sinn og getu til að takast á við erfiðar aðstæður og til þess að komast út úr félagslegri einangrun sem oft er fylgifiskur efnaleysis og hefur þróað starfið til að svara sem allra best þörfum og óskum þeirra sem leita eftir aðstoð.

Stattu með sjálfri þér – SMS- er verkefni sem hóf göngu sína í febrúar 2018. Markmið þess til tveggja ára eru að þátttakendur, konur sem eru utan vinnumarkaðar, fái bætt sjálfsmynd sína og aukna trú á eigin getu, að þær styrki tengslanet sitt til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og að þær eflist í foreldrahlutverkinu.

Konurnar hittast á fimmtudögum yfir vetrartímann undir handleiðslu félagsráðgjafa Hjálparstarfsins en velferðarráðuneytið styrkir starfið. Á myndinni hér til vinstri er Anna Steinsen frá KVAN að halda fyrirlestur fyrir hópinn um tengsl sjálfsmyndar, sjálfstrausts og þrautseigju.

Hjálparstarfið er málsvari þeirra sem búa við fátækt. Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar er formaður EAPN á Íslandi en það eru regnhlífasamtök þeirra félaga sem vinna að farsæld fyrir alla á Íslandi.

Lykilþáttur í starfsemi EAPN á Íslandi er virk þátttaka Pepp á Íslandi (PeP: People experiencing Poverty) sem samanstendur af öflugum hópi einstaklinga sem hafa sjálfir upplifað fátækt og félagslega einangrun. Á myndinni til hægri sést hvar fulltrúi Pepp afhendir blaðamanni Fjölmiðlaverðlaun götunnar sem Pepp veitir fjölmiðlafólki fyrir faglega umfjöllun um fátækt ár hvert.

glæra 15 – Töskur með tilgang

Slide15

Verkefnið Töskur með tilgang er gott dæmi um það hvernig verkefni Hjálparstarfsins geta þróast. Félagsrágjafar Hjálparstarfsins höfðu um nokkurt skeið tekið á móti konum sem þekktu lítt til íslensks samfélags og bjuggu við talsverða félagslega einangrun. Á sama tíma hafði Hjálparstarfið fengið að gjöf efnisstranga frá fyrirtækjum en fann ekki augljósa þörf fyrir þá. Enn fremur hafði Hjálparstarfinu áskotnast nokkrar saumavélar.

Hugmynd sem upp kom var fylgt eftir og úr varð að yfir vetrartímann hafa yfir 50 konur úr hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda hist í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd og endurvinna efni með því að sauma úr því fjölnota innkaupatöskur, grænmetispoka, dúka, skiptiteppi fyrir börn og margt fleira. Þær leggja þannig sitt af mörkum til að vernda umhverfið. Í lok saumavinnunnar borða konurnar svo saman hádegismat og kynnast betur en þær koma víða að og hafa ólíkan bakgrunn.

Verkefnið sem er samvinnuverkefni Hjálparstarfsins og Hjálpræðishersins stuðlar þannig að virkni og félagsskap þátttakenda, minni plastnotkun og endurnýtingu efnis. Það nýtur sífellt meiri vinsælda bæði meðal kvennanna sem vilja koma og þeirra sem vilja styrkja starfið og kaupa töskur og fleira sem konurnar sauma. Í febrúar 2020 er svo komið að tveir hópar hittast einu sinni í viku hvor því ekki er nægt rými fyrir fleiri en um 40 í rýminu sem verkefnið hefur aðstöðu í.

glæra 16 – Með þinni hjálp

Slide16

Hjálparstarf kirkjunnar – með þinni hjálp! er slagorð Hjálparstarfs kirkjunnar sem reiðir sig á fjárstuðning frá almenningi, félagasamtökum, stjórnvöldum og baklandi sínu – Þjóðkirkjunni til að sinna starfinu.

Tekjur Hjálparstarfsins frá 1. júlí 2018 til 30. júní 2019 námu 357,3 milljónum króna en alls var 355,1 milljón króna varið til verkefna og reksturs á starfsárinStofnunin varði alls 75,9 milljónum króna til verkefna í þróunarsamvinnu og 111,5 milljónum króna til mannúðaraðstoðar. Til verkefna innanlands varði Hjálparstarfið 87,6 milljónum króna og til fræðslustarfs 8,9 milljónum króna.

Hjálparstarfið býður fólki að greiða valgreiðslu í heimabanka þrisvar á ári og börn í fermingarfræðslu ganga í hús í nóvember og bjóða fólki að leggja starfinu lið.

Fyrirtæki styrkja starfið með sérstökum framlögum og með því að greiða fyrir stuðningskveðju í fréttablaði Hjálparstarfsins Margt smátt…

Félagasamtök og stéttarfélög styðja starfið og Hjálparstarfið nýtur styrkja frá stjórnvöldum bæði til verkefna á Íslandi og á alþjóðavettvangi.

Hjálparstarfið selur minningarkort á skrifstofunni og á vefsíðunni help.is og í vefversluninni gjofsemgefur.is fást gjafabréf Hjálparstarfs kirkjunnar en andvirði sölu þeirra rennur til verkefna heima og heiman.

Síðast en ekki síst er að nefna stuðning Hjálparliða sem styðja starfið með mánaðarlegu framlagi og gera stofnuninni enn betur kleift að rétta hjálparhönd þeim sem á þurfa að halda. Hjálparliðar voru um 2100 talsins í árslok 2019. Framlög Hjálparliða eru ein styrkasta stoðin undir starfinu. 

glæra 17 – Takk fyrir –Hjálparstarf kirkjunnar þakkar kærlega fyrir traust og veittan stuðning!

Slide17