Prédikunarhópur í Sunnuhlíð 12, 15. jannúar kl. 9:15

Boðið verður upp á prédikunarhóp fyrir presta og áhugasama sem vilja takast á við prédikunartexta sunnudagana framundan. Hópurinn hittist annan hvern miðvikudag kl. 9:15 til 10:45 í Sunnuhlíð 12, á skrifstofu prófastsdæmisins. Teknir verða fyrir guðspjalltexti næstu tvo sunnudag, aðaláhersla á texta næsta sunndags. Næsti fundur verður miðvikudaginn 15. janúar.
Guðspjall 19. janúar – 2. sunnudagur eftir þrettándann:
Jóh 2.1-11
Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“
Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“
Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann.
Guðspjall 26. janúar – 3. sunnudagur eftir þrettándann:
Matt 8.1-13
Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“
Þegar Jesús kom til Kapernaúm gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: „Drottinn, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“
Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“
Þegar Jesús heyrði þetta undraðist hann og mælti við þau sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi ykkur: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki en börn ríkisins munu út rekin í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“
Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.
Ef einhver vill leggja eitthvað til varðandi þessa texta er velkomið að skrifa nokkrar línur eða leggja fram spurningu til umhugsunar.