Um hjálparstarf kirkjunna á 50 ára afmæli

Þann 9. janúar 2020 fagnar Hjálparstarf kirkjunnar 50 ára afmæli sem hjálparstofnun en á prestastefnu sumarið 1969 hvöttu prestar landsins kirkjuna til að koma á legg hjálparstofnun er sinnti hjálparstarfi og líknarmálum á vegum hennar. Þeir ákváðu jafnframt að leggja 1% af launum sínum til hjálparstarfsins.
Á fundi kirkjuráðs 9. janúar 1970 var formlega ákveðið að stofna Hjálparstofnun kirkjunnar. Séra Jónas Gíslason, síðar vígslubiskup, var ráðinn sem framkvæmdastjóri og hóf hann strax að skipuleggja söfnun fyrir Bíafra. Fyrsti stjórnarfundur Hjálparstofnunar kirkjunnar var svo haldinn 1. apríl 1970. Nafninu var síðar breytt í Hjálparstarf kirkjunnar.
Það er við hæfi á þessum merku tímamótum að kirkjan minni á sérstöðu sinnar eigin stofnunar og að við hvetjum kirkjufólk til að tala máli hennar og leggja henni lið sem slíkrar.
Ýmislegt verður gert til að fagna afmælinu á árinu, fréttblað Hjálparstarfs kirkjunnar, Margt smátt… mun koma út í afmælisútgáfu þann 4. apríl 2020, plakat verður hengt upp í kirkjum landsins og starfið kynnt í fjölmiðlum.
Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi í öllu starfi Hjálparstarfs kirkjunnar. Unnið er í þágu fólks sem býr við fátækt á Íslandi, þróunarsamvinnuverkefni með fólki í fátækari samfélögum heims og mannúðaraðstoð veitt á átakasvæðum og í kjölfar náttúruhamfara.
Á Íslandi veitir Hjálparstarf kirkjunnar fólki sem býr við fátækt aðstoð í neyðartilfellum ásamt því að beina fólki þangað sem það getur vænst aðstoðar sem stofnunin veitir ekki. Rík áhersla er á að tryggja velferð barna og því er sérstaklega hlúð að barnafjölskyldum. Starfið felst í því að greina vandann, veita félagslega ráðgjöf og efnislegan stuðning. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins starfa með prestum og djáknum, félagsþjónustu sveitarfélaga, öðrum mannúðarsamtökum, stofnunum og ráðuneytum að úrlausn verkefna en ekkert er skipulagt án þess að notendur þjónustunnar séu hafðir með í ráðum.
Verkefnin erlendis eru flest unnin í samstarfi við Lútherska heimssambandið og Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance. Meginmarkmið eru að fólk sem býr við sára fátækt geti séð sér farborða á sjálfbæran hátt. Verndun umhverfis og valdefling, og þá kvenna sérstaklega, eru áhersluþættir í verkefnunum sem unnin eru í samvinnu við fólkið sjálft á hverjum stað.
Á Indlandi eru um 200 börn og unglingar styrkt til náms og þau allra fátækustu fá vist á heimavist með fæði og heilsuþjónustu. Í Eþíópíu snýst verkefnið sem er í Austur-Eþíópíu, um að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólk geti aukið fæðuöryggi sitt með umhverfisvernd og bættum aðferðum í landbúnaði og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til heilla. Í verkefninu eru meðal annars stofnaðar sparnaðar- og lánahópar kvenna sem gerir þátttakendum kleift að byrja eign smástarfsemi, grafnar stórar vatnsþrær sem safna rigningarvatni, þurrkþolnari korntegundir kynntar til sögunnar og búfé bólusett. Í Úganda eru tvö verkefni annað í höfuðborginni Kampala og hitt í héruðunum Rakai og Lyantonde. Í fátæktarhverfum Kampala eru börn og unglingar útsett fyrir misnotkun af ýmsu tagi. Valdeflingarverkefni Hjálparstarfsins eru í þremur fátæktarhverfum borgarinnar, þar sem starfræktar eru smiðjur fyrir börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára. Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það getur nýtt til að sjá sér farborða. Ungmennin geta valið sér ýmis svið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð. Í héruðunum Rakai og Lyantonde snýr verkefnið að börnum sem misst hafa foreldra sína af völdum alnæmis og búa ein en líka HIV-smitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við sára fátækt. Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins sem býr í hriplekum hreysum við nístandi skort með því að reisa íbúðarhús, eldaskála, kamra og vatnstanka sem safna rigningarvatni. Fjölskyldurnar fá geitur, hænur, verkfæri, fræ og útsæði til grænmetisræktunar, allt í þeim tilgangi að auka fæðuval og möguleika fjölskyldnanna á að afla sér tekna.
Mannúðaraðstoð var veitt á síðasta starfsári vegna þurrka og átaka í Eþíópíu, vegna flóttafólks frá Sýrlandi sem býr í búðum í Jórdaníu, vegna átaka og fjölda særðra í Palestínu og til stuðnings fólki á vergangi vegna átaka í Írak og í Suður-Súdan.
Tölum öll máli Hjálparstarfs kirkjunnar á afmælisárinu. Við getum öll stutt starfið persónulega en nú styrkja 2.290 Hjálparliðar, Hjálparstarf kirkjunnar með mánaðarlegu framlagi. – Hjálparstarf kirkjunnar er hjálparstarfið okkar!
Nánari upplýsingar um starf Hjálparstarfs kirkjunnar á heimasíðunni help.is.