Hjálparstarf kirkjunnar 50 ára – fréttir af ráðstefnu um valdeflingu kvenna og nokkrar myndir

Ráðstefna í tilefni af 50 ára afmælinu tókst með ágætum eins og kemur fram á fasbók starfsins:
Við erum í skýjunum með málþingið okkar í gær í tilefni fimmtíu ára starfsafmælis Hjálparstarfs kirkjunnar! Kærar þakkir til ykkar allra, – um eitt hundrað manns, sem mættuð á málþingið þrátt fyrir veður! Og takk frú Agnes og frú Eliza og herra Magnús fyrir frábær erindi! Og takk herra Sigfús fyrir frábæra fundarstjórn og þátttakendur í verkefnum okkar fyrir ykkar mikilvæga innlegg! Og takk Rauði krossinn fyrir blómin!
Hér með fylgja nokkrar myndir frá ráðstefnunni.
Ráðstefnan var á Grand Hotel í Reykjavík fimmtudaginn 9. janúar kl. 16:30 til 18:30. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Valdefling kvenna – frasi eða framfarir.
Hjálparstarf kirkjunnar fagnaði fimmtíu ára starfsafmæli þenna dag 9. janúar 2020 en formleg ákvörðun um hjálparstofnun á vegum íslensku þjóðkirkjunnar var tekin á fundi kirkjuráðs þann 9. janúar 1970.
Hjálparstarfið hefur frá stofnun haft það hlutverk að veita fólki sem býr við sára fátækt neyðaraðstoð, hver svo sem orsök neyðarinnar er. Aðstoðin er veitt þannig að hún sé valdeflandi, – að hún sé raunveruleg hjálp til sjálfshjálpar.
Markhópar Hjálparstarfsins hvort sem er í verkefnum hér á Íslandi, á átaka- eða náttúruhamfarasvæðum eða í þróunarsamvinnuverkefnum í einna fátækustu samfélögum heims er fólkið sem býr við erfiðustu aðstæðurnar og getur síst veitt sér björg upp á eigin spýtur.
Á málþinginu á afmælisdaginn sjálfan, þann 9. janúar 2020, var fjallað um valdeflingu kvenna og leitast við að svara því hvort sú aðferð væri aðeins frasi í hjálparstarfi eða hvort hún leiddi til raunverulegra framfara í samfélögum þar sem henni er beitt.
Frú Eliza Jean Reid, forsetafrú, og Magnús Árni Skjöld Magnússon, forseti félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Bifröst, fluttu erindi en þau eru bæði virk í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.
Þá sagði Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, frá þróunarsamvinnu í Eþíópíu og Úganda og félagsráðgjafarnir Sædís Arnardóttir og Vilborg Oddsdóttir fjallaði um aðferð í verkefnum Hjálparstarfsins hér heima á Íslandi.
Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands og verndari stofnunarinnar flutti ávarp í upphafi málþings.