Um möguleika þess að tala við Guð

Sr. Guðmundur Guðmundsson flutti þessa hugleiðingu á Lindinni 19. nóvember um möguleika þess að tala við Guð. (Það má hlusta á hana hér). Margir í samtímanum gera ekki ráð fyrir Guð, hvað þá að tala við hann, en kristið fólk má ekki láta það trufla sig, því að Jesús kallar fólk til samfélags við Guð himneskan föður sem elskar börnin sín.
Áfram held ég með hugleiðingar mína um það að tala við Guð. Oft á tíðum er það svo að efi læðist að manni hvort það sé mögulegt. Ástæðan er vafalaust sú að samtími okkar gerir ekki ráð fyrir Guði. Það er svo sem engin ný bóla. Í Davíðssálmum veltir sálmaskáldið því oftar en einu sinni fyrir sér þegar menn segja við hann að Guð hjálpi ekkert, hann sé ekkert og með háði spyrja hann: „Hvar er Guð þinn?“ (Sl. 13.1-3, 42.4-5). Þá er það umhugsunarvert að margir eru þeir sem þurfa að berjast gegn kristnum trúararfi til að sanna eigin stöðu eins og þeir eigi í glímu við Guð innra með sér. Það sem er nýtt við samtíma okkar er eins og guðleysið sé gengið lengra. Sumir eru þeir sem gera ekki ráð fyrir Guði né neinum æðri veruleika. Tilveran er útskýrð út frá efninu einu. Og jafnvel að hún hafi ekki aðra merkingu en þá sem við gefum henni. Af tómri tilviljun erum við hér í alheimi. Það er skelfilegt að mínu mati þegar ályktað er að þetta sé vísindaleg niðurstaða.
Jesús var á öðru máli. Í einni merkustu ræðu veraldar, Fjallræðunni, kennir hann okkur að tala við Guð eins og himneskan föður. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að í þessari ræðu var Jesús að kenna okkur að tala við Guð eða tilbiðja föðurinn himneska. Ekki ætla ég að rekja rökin fyrir þessu hér en bendi á að í ræðunni miðri kennir Jesús okkur Faðir vorið, sem er uppistaðan í bæn kristinna manna. Þá eru þar þessi orð Jesú um að biðja og leita:
Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. 8 Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu[ stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann? (Mt. 7.7-11).
Í Fjallræðunni opinberar Jesús hver Guð er með þessum orðum meðal annarra. Faðirinn á himnum gefur þeim góðar gjafir sem biðja hann miklu frekar en okkar jarðnesku foreldrar sem hafa þó vit til að vilja börnum sínum vel og gefa þeim það sem er þeim til góðs, vel flest. Það er deginum ljósara að Jesús ætlast til þess að fylgjendur sínir biðji og láti ekki úrtölur stoppa sig í því. Þó að allur heimurinn hrópaði þetta gagnast ekki skulum við frekar hlýða boði Drottins vegna þess að það er betra.
Ef þú tekur Jesús á orðinu og biður þá reynir þú að tal þitt við Guð skapar samfélag við þinn himneska föður sem vill þér ekkert nema það sem er þér til góðs. Þessi opnun til Guðs verður til þess að þú öðlast samband við Guð. Það snýr ekki þannig að þú klifrar upp til himna og bankar á himnadyrnar heldur hefur Guð komið til þín í Jesú Kristi og bankar hjá þér. Það hljómar kannski skringilega en gefur tilverunni dýpri merkingu sem djúpt niðri er þrá mannkynsins í gegnum aldirnar og birtist í trúarbrögðunum. Djúp og innilega þrá eftir Guði sjálfum. Þess vegna er það svo ótrúlegt en satt að Jesús mætir þessari þrá með því að skapa raunverulegt samband við Guðs með því sem hann sagði og gerði. Í bæn og tilbeiðslu ræktum við þetta samband við Guð.
Fyrir mánuði síðan var ráðstefna um bókmenntafræðinginn C. S. Lewis (1898-1963) í Reykjavík. Það má hlusta á erindi frá þeirri ráðstefnu á vef Lindarinnar. Hann var breskur eða reyndar írskur að uppruna. Hann var kristinn maður og varði trúna gegn guðlausri gagnrýni sem var komin á hæsta stig. Sjálfur hafði hann afneitað guði strax við fermingu og kennarar í framhaldsskóla og háskólum studdi hann á þeirri leið. Þannig var andrúmsloftið á þeim tíma. Það sem hann er kannski þekktastur fyrir eru Narníu bækurnar. Með ævintýralegum sögum var hann að flytja boðskap kristninnar í glímu við samtíma sinn sem var í stríði gegn nasismanum. Í stríðinu flutti hann uppörvandi erindi í BBC fyrir landa sína. Náin vinur hans var J. R. R. Tolkien (1892-1973) sem samdi Hringadrottins-sögu. Hún hefur verið kvikmynduð eins og Narníubækurnar. Þeir studdu hvorn annan að skrifa sögur sem þeir vildu gjarnan sjálfir lesa. Tolkin hjálpaði Lewis til trúar. Þeir voru sérfræðingar í bókmenntum miðalda og m.a. Norrænum goðsögum og skrifuð undir áhrifum þeirra. Þeir sköpuðu hugmyndaheim sem hefur fengið hljómgrunn á okkar tímum vegna þess að þessar sögur gefa tilverunni merkingu. Eitt kvöldið gengu þeir um götur Oxford á Bretlandi ásamt öðrum vini og ræddu þessi mál. Þá komu til tals frásagnir guðspjallanna og orð Tolkien sem var kristinn maður urðu til að opna Lewis leið til kristninnar. Tolkien sagði við hann að öðru vísi en aðrar goðsagnir væri sagan um Krist sönn, hún gerðist í raun og veru. Það væri tal Guðs til okkar. Þannig svaraði hún til leitar og þrár manna eftir dýpri sannindum en blasa við á yfirborðinu. Fyrir Lewis varð þannig Kristur í einstakri stöðu gagnvart mönnum sem kemur á sambandi við Guð. Það er ekki sjálfgefið heldur oft á tíðum eins og lítil skíma, ljósbjarmi, sem hverfur manni auðveldlega. Það verður að leggja rækt við sambandið við Guð með lestri Guðs orðs og bæn. Hann tók glímuna við samtíma sinn og þjáninguna og dauðann. Maður sem hafði verið í skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar glatað en haldið í trúna. Maður sem hafði glímt við hugmyndaheim samtíma síns með Drottni sínum.
Mín hugleiðing á þessum degi eða tal við Guð er dálítið í þessum anda. Það er um möguleika þess að eiga samtal við Guð. Við skulum gera þessa íhugun að bæn okkar nú:
Um möguleika þess að eiga samtal við Guð
Guð, eftir orðum spekinganna,
sem ég hef verið að takast á við í huga mínum,
þá á ég varla að geta átt í samskiptum við þig.
Skynsemin frá tímum upplýsingarinnar
er löngu búin að afgreiða þig
og senda þig handan við eða út fyrir skynsemina.
Ekki beint þakklæti fyrir vitið sem þú gafst okkur hlutdeild í.
Siðferðið þarf stundum á þér að halda,
til að hlýða einhverju skylduboði,
sem á að vera æðri en mannlegar hugmyndir,
sprottið af réttri breytni,
en aðrir segja það mesta óþarfa,
mannúðin ein nægi og er miklu betri.
Ekki mikil virðing fyrir því sem þú hefur sagt
í mannlegri sögu og birtist m.a. í trúarbrögðunum.
Þetta hvorutveggja krefst frumkvæðis af manninum,
sem hugsandi veru, siðferðisveru og samfélagsveru.
Kannski er það þess vegna sem þú mátt ekki vera með.
Þú truflar hugsanir okkar.
En tilfinningarnar eru með öðrum hætti.
Þær bregðast við einhverju ytra áreiti.
Varðandi tilfinningarnar er maðurinn þiggjandi,
undrast og þakkar.
Með tilfinningunum reynir maðurinn
að tilveran er heild.
Sumir meina að með þeim greinum við þig
sem skapara og endurlausnara,
vegna þess að þú gefur okkur tilfinningu fyrir þér.
Það er eitthvað til í því að með hjartanu skynjum við þig.
Með einhverjum hætti þekki ég þig,
þannig að ég er að tala við þig.
Er það sjálfsblekking sálar minnar
eða er það á hinn veginn, að ég þekki þig af verkum þínum?
Ég trúi því að þú sért góður,þess vegna vil ég vera mannúðlegur,
og ég bind mig við þig og orð þín,
vegna þess að þar veitir þú mér þekkingu
á veruleikanum eins og hann er,
með skynsamlegum orðum,
þannig að ég sé í gegnum blekkinguna,
sé þig í ljósinu,
svo að ég átti mig á myrkri skynseminnar,
viljans og tilfinninganna, eins og Páll postuli talar um.
Það eru hin miklu umskipti í hugsun minni,
hvort ég er einn eða að þú ert og ég þess vegna.