Kristniboðsdagurinn 2019

Kristniboðsdaginn ber upp á annan sunnudag í nóvember og verður því 10. nóvember n.k. Starfsfólk Kristniboðssambandsins sendir eftirfarandi kynningu á starfsinu. Það vill gjarnan minna á daginn. Mikið efni um kristniboðið má finna á vefsíðu þess sik.is. Auk þess má leita til skrifstofunnar sem leiðbeinir gjarnan varðandi efni og heimsóknir þeirra á vettvang safnaðanna. Senda má fyrirspurnir á ragnar@sik.is eða hringja í síma 533 4900. Útvarpsguðsþjónustan að þessu sinni verður frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði og mun Karl Jónas Gíslason kristniboði kynna og segja frá starfinu.
Upplýsingar um starf Kristniboðssambandsins
Fréttablað Kristniboðssambandsins, Kristniboðsfréttir, er dreift víða, ef fólk vill fá það sent má óska þess hjá skrifstofunni. Áskrift er ókeypis. Á heimasíðunni Kristniboðssambandsins eru helstu upplýsingar, www.sik.is.
Starf erlendis er annars vegar hefðbundið boðunar- og fræðslustarf í samvinnu við sjálfstæðar kirkjur í Eþíópíu, Keníu og Japan. Nú starfa kristniboðar í Japan á vegum Kristniboðssambandsins, Katsuko og Leif Sigurðsson á Rocko eyju í útjaðri Kobe. Þau starfa innan lútersku kirkjunnar í Vestur-Japan. Aðeins 1% Japana teljast vera kristnir og akurinn því stór.
Hins vegar er ýmiss konar hjálparstarf og þróunarverkefni, þ.e. kærleiksþjónusta, sem hefur alltaf verið eðlilegur hluti starfsins. Kristniboðssambandið styrkir ýmis verkefni, flest tengd menntun og skólagöngu í Eþíópíu og Keníu.
Loks má nefna öflugt fjölmiðlastarf, bæði útvarpssendingar til Kína og sjónvarpssendingar til Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Það starf er rekið í nafni Sat7, samkirkjulegs sjónvarpsstarfs sem tekur mið af menningu og aðstæðum í þessum löndum. Megnið af dagskránni er unnin af heimamönnum fyrir heimamenn og dagskrárgerð fagleg í alla staði. Starf Sat7 er einstaklega mikilvægt vegna stríðsátaka á svæðinu, fjölda flóttamanna og ofsókna í sumum löndum. Ein rásin, sú fimmta, er skólasjónvarp fyrir flóttabörn, Sat7 Academy. Kennd er arabíska og lestur, enska og stærðfræði. Skólasjónvarpið dregur úr hættunni á brottfalli úr námi. Auk þessa tekur Kristniboðssambandið þátt í undirbúningi svipaðs starfs í Pakistan og útvarpssendingum til Kína.
Kristniboðsalmanakið 2019
Almanakið er væntanlegt úr prentun síðar í mánuðinum og verður sent þeim sem þess óska. Sendið pantanirá sik@sik.is. Biskupsstoa sendir út almanök fyrir þær kirkjur sem eru utan höfuðborgarsvæðisins. Látið þá vita með pósti á runa@biskup.is– eða hringið í síma 528 4000. Því miður næst varla að dreifa almanakinu fyrir 10. nóvember.
Sóknarnefndir
Sóknarnefndum var nýverið sent bréf með beiðni um fjárstuðning. Þetta hefur verið gert einu sinni á ári í áratugi. Kristniboðssambandið þakkar kærlega fyrir allan þann stuðning frá sóknum landsins.
Samskot og gjafir
Hvatt er til þess að samskot séu tekin á kristniboðsdaginn. Vonast er til að sem flestir prestar og söfnuðir taki þeirri áskorun vel. (Ragnar Gunnarsson hefur nýverið birt pistil á trú.is um samskot). Einfaldast er að leggja það sem inn kemur á einhvern af reikningum Sambands íslenskra kristniboðsfélaga, kennitalan er 550269-4149:
Landsbanki: 0117-26-2800
Íslandsbanki: 0515-26-2800
Arion banki 0328-26-2800
Framlög sóknarnefnda er best að leggja inn á sömu reikninga. Gott er að fá sendan póst á sik@sik.is ef netbanki er nýttur. Sumt safnaðarfólk hefur ekki lausafé með sér í kirkju en vill gjarnan styrkja starfið. Því má benda á bankaupplýsingar og kennitölu sem verðainni í Kristniboðsalmanakinu og á vefsíðuna, www.sik.is/gjafir-til-starfsins.
Aðrar leiðir
Sumt fólk hefði viljað styrkja starfið en hefur litla fjármuni. Það getur styrkt það með því að gefa muni á Basarinn, nytjamarkaðinn Kristniboðssambandsins eða versla þar og eins með því að gefa frímerki, sem gjarnan lenda annars í ruslinu. Tekjur af frímerkjasölu og mynt hefur undanfarið verið um fjórar milljónir króna á ári eða meira.
Textar samkvæmt textaröð og kollektan
Sérstök textaröð kristniboðsdagsins er inni á vef kirkjunnar, en breytilegt er hvaða sunnudag eftir trínitatis hann ber upp á. Sjá nánar á https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuarid/kirkjuarid-nanar/?itemid=95529f58-05a6-11e8-942b-005056bc2afe. Það fer vel á að enda þennan pistil á orðum úr lexíu dagsins: Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Undir þetta skrifar framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins, Ragnar Gunnarsson með blessunaróskum til safnaðanna.
Samband íslenskra kristniboðsfélaga – í trú, von og kærleika, www.sik.is
Háaleitisbraut 58-60, 108 Reykjavík. Sími 533 4900 ragnar@sik.isog sik@sik.is