Alþjóðlegur dagur gegn einelti og kynferðisofbeldi

Næstkomandi föstdag 8. nóvember er alþjóðlegur dagur gegn einelti og kynferðisofbeldi. Eins og fyrri ár óskar biskup í bréfi til presta og safnaða eftir því að kirkjuklukkum verði hringt kl. 13 í 7 mínútur þar sem því verður við komið. Hringt er í 1 mínútu fyrir hvern dag vikunnar til að vekja athygli á baráttunni gegn einelti og kynferðisofbeldi. Bætum heiminn og gerum hann öruggari og lífvænni.
Bæn fyrir þeim sem líða vegna eineltis og ofbeldis:
Drottinn Guð. Þú sem gleðst með glöðum og þjáist með þjáðum. Vitja þú allra barna þinna þar sem þau eru stödd á lífsins leið. Sérstaklega biðjum við fyrir þeim sem hafa reynt einelti og kynferðisofbeldi. Líkna þeim og gakktu með þeim veginn fram. Gef þeim kraft og styrk á þeirri vegferð og lát þau finna að kærleikur þinn sigrar allt myrkur og böl. Megi ljós þitt og blessun lýsa og vísa veginn til bata.