Héraðsfundur 2019 – fundargerð

Héraðsfundur var haldinn í prófastsdæminu 27. apríl í Akureyrarkirkju. Hér er birt fundagerð. (Mynd frá héraðsfundi 2018)
Héraðsfundur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis 2019
Haldinn í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju 27. apríl kl. 11-16
Fundurinn hófs með helgistund sem séra Sólveig Halla Kristjánsdóttir annaðist í Akureyrarkirkju.
Séra Jón Ármann Gíslason prófastur setti fundinn. Því næst var gengið til dagskrár. Fundarstjórar voru kosnir prófastur og Valgerður Sverrisdóttir formaður Laufás- og Greinivíkursóknar.
Fundarritarar voru kosin þau Sonja Kro æskulýðsfulltrúi, séra Hildur Sigurðardóttir settur sóknarprestur í Langanesprestakalli og séra Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur til aðstoðar.
Prófastur flutti skýrslu héraðsnefndar. Skýrslan í heild er í gögnum héraðsfundar. Hann greindi frá þeim breytingum á starfsmannahaldi sem orðið hefur. Séra Hannes Blandon lét af störfum og séra Jóhanna Gísladóttir tók við prestsþjónustunni í Laugalandsprestakalli tímabundið meðan sameining prestakalli er óráðin á kirkjuþingi. Séra Bolli Pétur Bollason var í námsleyfi síðastliðinn vetur og séra Sólveig Halla Kristjánsdóttir leysti hann af í Laufás- og Grenivíkurprestakalli. Séra Gunnlaugur Garðarsson var í þriggja mánaðar námsleyfi á árinu. Þá hefur Daníel Þorsteinsson organisti sagt upp störfum og mun hætta þegar nýr organisti hefur verið ráðinn til starfans. Þá var Sonja Kro ráðinn æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju og í 30% starfshlutfall hjá prófastsdæminu. Hún var með 90 manna æskulýðsmót, hún hefur verið með námskeið fyrir fermingarbörn og námskeiðið Verndum þau fyrir starfsfólk kirknanna.
Þá fjallaði hann um erfiðari málefni sem er skerðing sóknargjalda. Hann fór yfir staðreyndir málsins og sagði sóknargjöld lögvernduð félagsgjöld. Greiðsluformið hefði breyst með staðgreiðslu skatta. Ríkisvaldið bauðst til að annast innheimtuna. Framhaldið væri vel þekkt að sama gjald hefur verið innheimt í áratug og niðurskurður með þeim hætti að ríkisvaldið hefur haldið eftir því sem með rétti heyrir kirkjunni til. Málið er enn í vinnslu samninganefndar ríkis og kirkju. Þá fjallaði hann nokkuð um trúfélagaskráningu og nauðsyn þess að prestar aðstoði og leiðbeini fólki með skráninguna ef báðir foreldrar eða forráðamenn eru ekki í þjóðkirkjunni.
Varðandi önnur atriði er vísað í skýrsluna.
Minnst var látinna samstarfsfólk í sóknarnefndum: Hafliða Jósteinssonar, Finns Baldurssonar, Júlíönnu Ingvadóttur.
Næst á dagskrá voru reikningar og fjárhagsáætlun sjóðsins sem Sæbjörg Kristinsdóttir gjaldkeri kynnti. Kom fyrirspurn um heimsóknarþjónustu sem var hætt en svarað því til að prófastsdæmið hefði ákveðið að leggja áherslu á barna- og æskulýðsstarf með ráðningu æskulýðsfulltrúa á síðasta fundi. Bent var á að það launaliðurinn þyfti að koma fram í reikningum eins og heimsóknarþjónustan áður. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.
Þá var komið að starfsskýrslum sókna og starfsmanna. Fundarstjóri gaf fundinum tækifæri að fylgja skýrslum sínum eftir. Svo gaf hann Sonju Kro orðið sem kynnti sig og gerði grein fyrir sínum störfum. Hún sagði starfið í mótun og vildi gjarnan fara eftir þörfum og eftirspurn. Því næst gerði séra Guðmundur grein fyrir störfum sínum og fór yfir starfskýrslu Hjálparstarfsins og greind frá stefnu Jóla-aðstoðar. Þakkaði fyrir gott samstarf og hvatti til aukinnar þjónustu kirkjunnar. Starfsskýrslur þeirra eru í gögnum fundarins.
Stefán Magnússon kirkjuþingsfulltrúi flutti fréttir af nýliðnu kirkjuþingi. Hann benti á upplýsingar á kirkjuþing.is. Sagði að þingfundir í tveimur lotum, haust og vor, væri til bóta. Það hefði orðið að fresta ýmsum málum vegna samninga milli ríkis og kirkju á mars þinginu m.a. sameiningarmálum prestakalla. Ekki hefði orðið neinar breytingar á fjárhagsstöðunni. Það þyrfti að huga að öðrum tekjum en sóknargjöldum. Ræddi um samninga við presta þar sem kjararáð var lagt niður. Þá ræddi hann um skerðingu sóknargjalda. Það hefði orðið 45% skerðing á þeim frá 2008. Gætir þess misskilnings að þau séu framlag ríkisins til kirkjunnar þó að viðurkennt sé lögformlega að um sóknargjöld sé að ræða. Samningar ríkis og kirkju hafa lent í frosti vegna ráðherraskipta en hann vonaðist til að sæi fyrir endann á þessu. Hann taldi að kirkjunnar menn þyrftu að vera betri í að markaðssetja sig, að við þyrftum að vita hvað við stöndum fyrir og hvað við erum að gera.
Í umræðum eftir erindi Stefáns koma fram óþreyja bæði varðandi samning ríkis og kirkju um laun og sjóði og varðandi skerðingu sóknargjalda. Séra Svavar A. Jónsson las 60. gr. laga um stjórn- og starfshætti kirkjunnar og skyldi ekkert í þessari málsmeðferð þar sem þetta væri lögverndaðar tekjur kirkjunnar. Þá lýsti hann áhrifum þess á svæðinu að sameiningarmál væru ekki kláruð. Grunnhugmyndin með sameiningunni væri að dreifa þjónustubyrðinni. Það hefði verið lögð mikil vinna í sameininguna heima fyrir. Séra Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup varð til svara og talaði um nýtt bréf þar sem var lögð væri til stærri sameiningu: Laugalandsprestakall, Akureyrarprestakall og Glerárprestakall, og jafnvel Laufásprestakall. Markmiðið væri að efla samstarf presta. Séra Gunnlaugur Garðarsson sóknarprestur Glerárprestakalls taldi nauðsynlegt að haft yrði samráð og slík mál rædd til hlítar. Valgerður Sverrisdóttir tjáði sig um fjársvelti kirkjunnar og að það væri ekki boðlegt að ríkisvaldið taki til sín hluta sóknargjaldanna. Einnig ræddi hún þessar stærri sameiningarhugmyndir í þessu nýja bréfi frá biskupafundi. Tók því sjálf nokkuð vel en efaðist hún nokkuð um að sameining yrði vinsæl í Höfðahverfinu. Taldi það óþægilegt fyrir sóknirnar að sameiningar væru ekki kláraðar þar sem prestaskipti stæðu fyrir dyrum hjá þeim. Séra Solveig vígslubiskup benti á að sameining sókna væri málefni heima fyrir en prestakallaskipanin sé málefni kirkjuþings og kirkjustjórnar. Séra Guðmundur nefndi samstarfshugmyndir væri nokkurra ára gömul tillaga en prestum hefði ekki lánast að fylgja þeim eftir. Þessi framgangsmáti væri til að knýja þær fram. Taldi það óþarfa að setja niður sóknarpresta til að koma samstarfi á, mætti eins endurvekja minni prófastsdæmi eða búa til starfseiningar presta sem myndu skipuleggja starfið á samráðsfundum, en sá sem veldist til að stjórna yrði að vera í stjórnunarstöðu. Elín frá Svartárkoti sagðist ekki lítast á þessar stóru sameiningar prestakalla þar sem hún kæmi úr stóru prestakalli, Laufásprestakalli, og væri lítið tillit tekið til vegalengda. Prófastur gerði grein fyrir innihaldi í umræddu bréfi frá biskupafundi sem hefði borist stuttu fyrir héraðsfundinn. Auður Thorberg formaður Saurbæjarsóknar talaði um að miklar umræður hefðu farið fram um sameiningar Laugalands- og Akureyrarprestakalls. Taldi sig nokkuð jákvæða sjálfa varðandi stærri sameiningu en þá yrði að taka upp málið upp á nýtt með öllum aðilum.
Erindi fundarins flutti séra Jóhanna um nýjung í safnaðarstarfi svo kallaða „Family ministry“ upp á ensku. Hún hefur kynnt sér þessa starfsaðferð á Bretlandi á undanförnum árum sem er nýjung í hagnýtri guðfræði. Hugsunin er sú að skipta fjölskyldunni ekki upp í ýmsar starfsgreinar í kirkjustarfi heldur að þjóna fjölskyldunni í heild. Sundurgreiningin hefði unnið á móti sér með tímanum. Nú væri þörf á samveru fjölskyldunnar í kirkjulegu samhengi. (Erindið er á eything.com og hægt að hlusta á það þar.)
Fundarmenn tjáðu sig að þetta væri áhugaverð nálgun og vafalítið rétt. Séra Sólveig Halla taldi þetta rýma vel við þá fjölskylduráðgjöf sem hún hefði menntað sig í. Séra Guðmundur benti á að Séra Jón Ómar Gunnarsson hefði gert tilraunir með þetta í Glerárkirkju þegar hann þjónaði þar, verið líflegt og gefandi fyrir þátttakendur.
Héraðsnefndargreiðslur voru samþykktar samkvæmt þóknunarnefnd.
Kosningar í embætti prófastsdæmisins fóru þá fram og niðurstaða sem hér segir:
Héraðsnefnd:
- Séra Sigríður Munda Jónsdóttir aðalmaður
- Séra Sighvatur Karlsson varamaður
- Sægjört Kristinsdóttir leikmaður í héraðsnefnd aðalmaður
- Gísli Sigurðsson varamaður
Tveir skoðunarmenn reikninga:
- Gestur Jónsson og Auður Thorberg
- Kolbrún Pálsdóttir og Kolbrún Gunnarsdóttir til vara
Fjórir fulltrúar leikmanna á leikmannastefnu og fjórir til vara:
- Bryndís Baldursdóttir
- Guðný Gestsdóttir
- Jón Oddgeir Guðmundsson
- Bjarney Súsanna Hermundardóttir
Varamenn:
- Guðlaug Anna Ívarsdóttir
- Valgerður Sverrisdóttir
- Svava Jóhannsdóttir
- Narfi Björgvinsson
Einn fulltrúi í fulltrúaráð Hjálparstarf kirkjunnar og varamaður til 2ja ára:
- Séra Guðmundur Guðmundsson
- Þóra Fríður Björnsdóttir varamaður
Þrír fulltrúar í fræðslunefnd prófastsdæmisins og þrír til vara:
- Séra Stefanía Guðlaug Steinsdóttir
- Auður Thorberg Jónasdóttir
- Sindri Geir Óskarsson
Varamenn: - Hrund Hlöðversdóttir
- Aníta Jónsdóttir
- Stefán Bjarni Sigtryggsson
Önnur mál voru ekki rædd.
Séra Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup lauk með stuttri helgistund, las Davíðssálm 103 og fór með bæn og blessun.
Fundinum lauk svo með kaffiveitingum áður en menn fóru til síns heima.
Ritarar
Sonja Kro
Hildur Sigurðardóttir
Guðmundur Guðmundsson