Stiklað á stóru í starfi Hjálparstarfs kirkjunnar júlí 2018 – febrúar 2019

Slide1

Glæra 1          Starfsárið 2018 – 2019

Starfsár Hjálparstarfsins er frá júlí – júní ár hvert. Ársskýrsla síðasta starfsárs er aðgengileg hér: www.help.is/doc/240. Hér á eftir verður stiklað á stóru í starfinu fyrstu átta mánuði núlíðandi starfsárs:

Slide2 

Glæra 2          Aðalfundur

Framkvæmdastjórn gaf kost á sér til áframhaldandi setu og var endurkjörin. Í framkvæmdastjórn eru Gunnar Sigurðsson formaður, Páll Kr. Pálsson og Salóme Huld Garðarsdóttir. Varamenn eru Hörður Jóhannesson og Vigdís Valgerður Pálsdóttir.

Á fundinum kynnti Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri, starfsskýrslu síðasta starfsárs, frá júlí 2017 – júní 2018, ásamt starfs- og fjárhagsáætlun 2018 – 2019. Bjarni Randver Sigurvinsson, guðfræðingur, hélt erindi þar sem hann rakti sögu múslima á Íslandi og fjallaði um hvernig hægt væri að byggja brýr á milli menningarheima.

Slide3

Glæra 3          Starfið hér heima: Stuðningur í neyð 

Ráðgjöf og efnislegur stuðningur 

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins hafa sérstakan viðtalstíma og taka á móti fólki sem leitar eftir ráðgjöf og efnislegri aðstoð á miðvikudögum klukkan 12:00 – 16:00.

Á fyrra starfsári fékk 1531 fjölskylda inneignarkort fyrir matvöru í 2841 skipti sem þýðir að nærri því hver fjölskylda hefur fengið inneignarkort tvisvar á starfsárinu.

Hjálparstarf kirkjunnar aðstoðar fólk í félagslegri neyð þegar sýkingar eða veikindi kalla á óvænt útgjöld vegna lyfjakaupa. Þó er ekki greitt fyrir lyf sem eru á lista Lyfjastofnunar yfir ávana- og fíknilyf. Á starfsárinu 2017 – 2018 naut 291 hjálparþurfi aðstoðar við lyfjakaup í 578 skipti.

Samtals fengu 53 börn og unglingar undir átján ára aldri styrk frá Hjálparstarfinu á síðasta starfsári til íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs.

Það sem af er af þessu starfsári hafa 57 ungmenni fengið styrk til greiðslu skólagjalda í framhaldsskólum og fyrir bóka- og efniskostnaði. Meðalupphæð hvers styrks er um 33.000 krónur.

Slide4

Glæra 4          Jólaaðstoð 2018

Alls nutu 1244 fjölskyldur eða um 3350 einstaklingar um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól.  Aðstoðin tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta fyrir matvöru en fólk fær einnig notaðan fatnað eða inneignarkort fyrir fatnaði, aðgöngumiða í leikhús og / eða bíó og inneignarkort hjá vinsælum veitingastöðum meðal barna og unglinga. Þá fá foreldrar efnislega aðstoð svo börnin geti fengið jólagjafir sem þau hafa sett á óskalistann.

Fyrir jól 2018 var gott samstarf um jólaaðstoð milli Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins í Reykjavík, og við Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefndir og Rauða krossinn á Eyjafjarðarsvæðinu og í Árnessýslu. Eins og fyrr gat fólk einnig leitað til presta og djákna í kirkjum vítt um land.

Slide5

Glæra 5          Fatasöfnun og -úthlutun

Hinir ómetanlegu sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins vinna ötullega við fataúthlutun á þriðjudögum og taka fatnað upp úr pokum, flokka og setja í hillur á miðvikudögum. Í desember 2018 fengu 253 fjölskyldur (um 680 einstaklingar) notaðan fatnað hjá Hjálparstarfinu, en það er svipaður fjöldi og í desember árið áður. Flesta aðra mánuði ársins leita að jafnaði milli 20 og 30 fjölskyldur eftir fatnaði hjá Hjálparstarfinu í viku hverri.

Slide6

Glæra 6          Valdefling og málsvarastarf 

Valdefling

Breiðholtsbrúin er vettvangur fyrir fólk á öllum aldri til að hittast, elda góðan mat, borða saman og blómstra á eigin forsendum. Brúin er opin í safnaðarheimili Breiðholtskirkju á mánudögum klukkan 11:30 – 13:30. Þar gefst tækifæri til að kynnast nýju fólki, víkka sjóndeildarhringinn og eiga gefandi gæðastund. Að brúnni standa Hjálparstarf kirkjunnar, Breiðholtskirkja, Fella- og Hólakirkja og Pepp á Íslandi.

Töskur með tilgang Vikulega hittast konur úr hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda og endurvinna efni með því að sauma úr því fjölnota innkaupatöskur, grænmetispoka, dúka, skiptiteppi fyrir börn o.fl.. Þannig leggja þær sitt af mörkum til að vernda umhverfið. Í lok saumavinnunnar borða konurnar svo saman hádegismat og kynnast betur en þær koma víða að og hafa ólíkan bakgrunn. Verkefnið stuðlar að virkni og félagsskap þátttakenda, minni plastnotkun og endurnýtingu efnis.

Borðum saman er samstarfsverkefni Hjálparstarfsins og samfélags Ahmadiyya-múslima á Íslandi sem hófst í mars 2017. Markmiðið er að bjóða fólki sem býr við verulegan skort upp á kvöldmat og notalega stund í Grensáskirkju tvö kvöld í mánuði.

Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar er spennandi verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar sem hófst  í  febrúar 2018. Markmið þess til tveggja ára eru að þátttakendur, konur sem búa við örorku og eru með börn á framfæri, fái bætt sjálfsmynd sína og aukna trú á eigin getu, að þær styrki tengslanet sitt til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og að þær eflist í foreldrahlutverkinu. Í mars og apríl 2019 er í gangi sex vikna hópmeðferð með fjölskyldufræðingi.   

Ræktaðu garðinn þinn: Hjálparstarf kirkjunnar skipulagði síðasta sumar matjurtarækt í Seljagarði í Breiðholti en verkefnið fór rólega af stað, meðal annars vegna kulda í maí. Garðyrkjufræðingur leiðbeindi þátttakendum en í Seljagarði er frábær aðstaða og gott samfélag. Þar er hægt að rækta salat, kryddjurtir, kartöflur, gulrætur og fleira. Við munum bjóða upp á verkefnið aftur nú í sumar.

Málsvarastarf

EAPN og Pepp á Íslandi, samtök fólks í fátækt

EAPN á Íslandi eru regnhlífasamtök þeirra félaga sem berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun á Íslandi. Samtökin eiga aðild að EAPN (European Anti Poverty Network) sem voru stofnuð árið 1990. Vilborg Oddsdóttir umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfsins er formaður EAPN á Íslandi. Lykilþáttur í starfsemi EAPN á Íslandi er virk þátttaka Pepp á Íslandi (PeP: People experiencing Poverty) sem samanstendur af öflugum hópi einstaklinga sem hafa sjálfir upplifað fátækt og félagslega einangrun. Þann 29. mars stendur EAPN fyrir morgunverðarfundi undir yfirskriftinni „Á okkar kostnað?: Innflytjendur – auður eða útgjöld?

Slide7

Glæra 7          Mannúðaraðstoð
Á starfsárinu hefur Utanríkisráðuneytið samþykkt fimm umsóknir Hjálparstarfs kirkjunnar um styrkt til mannúðaraðstoðar og veitt samtals 105 milljónum króna til þeirra verkefna. Um er að ræða mannúðarverkefni í Palestínu, Jórdaníu, Írak, Suður-Súdan og í Mið-Sulawesi í Indónesíu. Að viðbættu fé frá Hjálparstarfinu hefur 111,5 milljónum króna nýlega verið varið til mannúðaraðstoðar á þessum svæðum.

Slide8

Glæra 8          Eþíópía

Núverandi verkefni í þróunarsamvinnu í Eþíópíu hófst í byrjun árs 2018 en eftir meira en 10 ára starf í Jijigahéraði færðum við aðstoðina yfir til fólksins í Kebrebeyahhéraði sem er enn austar í Sómalíufylki. Sem fyrr er áhersla á auka aðgengi að vatni og bæta fæðuöryggi, vernda umhverfið, valdefla konur og auka jafnrétti. Verkefnið mun ná til um 10.000 manns á þrem árum.

Slide9

Glæra 9          Úganda

Börn sem búa við sára fátækt eru í forgangi í verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar

Skjólstæðingar eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína úr alnæmi og búa ein sem og HIVsmitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við sára fátækt.

Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins með því að reisa íbúðarhús með grunnhúsbúnaði, eldaskála með hlóðum sem spara eldsneyti og helstu áhöldum. Reistir eru kamrar og fólkið fær fræðslu um mikilvægi hreinlætis. Aðgangur að hreinu vatni er aukinn til muna með því að koma upp rigningarvatnssöfnunartönkum við hlið íbúðarhúsanna og með viðhaldi á brunnum í héruðunum. Fólkið fær svo geitur og hænur til að auka fæðuval og möguleika á tekjuöflun.

Á árinu 2019 áætlar Hjálparstarfið að aðstoða við byggingu húsa, eldaskála, kamra og vatnstanka fyrir átta fölskyldur sem samfélögin í Rakai og Lyantonde meta að séu í brýnustu þörf fyrir aðstoð.

Slide10

Glæra 10        Ungmennin sem fá séns í Kampalaverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar

Í janúar 2017 hóf Hjálparstarfið stuðning við börn og ungmenni í Kampala, höfðuðborg Úganda en samkvæmt Alþjóðabankanum er atvinnuleysi meðal ungs fólks hvergi meira í heiminum en einmitt þar eða um 60%. Verst er ástandið í höfuðborginni Kampala en þangað flykkist ungt og oftast ómenntað fólk úr sveitum landsins í von um betra líf. Margra þeirra bíður hins vegar að kúldrast í fátækrahverfum þar sem neyðin rekur þau til að taka þátt í glæpagengjum eða selja líkama sinn til að geta séð sér farborða. Börn og unglingar í höfuðborginni eru því útsett fyrir misnotkun af ýmsu tagi og eymdin leiðir til þess að þau verða auðveldlega fíkniefnum að bráð.

Kampalaverkefni Hjálparstarfsins er í þremur fátækrahverfum borgarinnar og varir í 3 ár. Áætlaður heildarkostnaður er um 33 milljónir króna. Markhópurinn eru 1500 börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára en markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það getur nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

Slide11

Glæra 11        Indland

Skóli og heimavist fyrir börn sem búa við fátækt í Andhra Pradeshfylki

Hjálparstarfið heldur enn um sinn áfram stuðningi sínum við skólastarf Sameinuðu indversku kirkjunnar, United Christian Church of India eða UCCI, sem var stofnuð árið 1972. Síðan þá hefur hún hjálpað fátæku fólki og börnum þeirra með því að halda úti skólastarfi og heimavist ásamt matargjöfum og spítalarekstri í Andhra Pradesh-fylki í austurhluta Indlands. Hjálparstarf kirkjunnar hefur í rúm þrjátíu ár stutt starfið með því að greiða fyrir börn í skóla og heimavist ásamt því að senda stök framlög vegna viðhalds bygginga og til starfsemi spítalans. Á þessu skólaári styrkir Hjálparstarfið og íslenskir fósturforeldrar 195 börn til skólavistar hjá UCCI. Hjálparstarfið greiðir einnig laun átta kennara.

Slide12 

Glæra 12                    Safnanir          

Haustsöfnun – Ekkert barn út undan!

Hjálparstarfið safnaði í ágúst og september fyrir aðstoð við efnaminni foreldra í upphafi skólaárs með valgreiðslukröfu í heimabanka að upphæð 2.600 krónur. Fyrirtæki, félagasamtök og sóknir þjóðkirkjunnar lögðu starfinu auk þess lið en alls söfnuðust um 7,3 milljónir króna. 

Fræðsla til fermingarbarna og fjáröflun með aðstoð þeirra um allt land
Í október fengum við góða gesti frá Úganda, þau Trudy Nakkazi og Douglas Lubega, til Íslands. Þau heimsóttu börn í fermingarfræðslu vítt um landið og ræddu við þau um líf sitt og aðstæður í Úganda ásamt því að segja þeim frá verkefnum Hjálparstarfsins í Úganda. Fermingarbörn í um 60 sóknum um land allt tóku þátt í fjáröflun fyrir verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku í nóvember. Alls söfnuðust um 7,8 milljónir króna.   

Jólasöfnun

Í jólasöfnun 2018 var safnað fyrir vatnsverkefnum Hjálparstarfsins í Eþíópíu og Úganda.  Heildarsöfnunarfé í desember og janúar að gjafbréfum meðtöldum nam 71 milljón króna en þar af söfnuðust 27,3 milljónir til aðstoðar innanlands. Sóknir, einstaklingar, fyrirtæki og samtök standa að baki þessum gjöfum.

Hjálparliði – við hvetjum alla til að gerast Hjálparliðar!!!

Fleiri en 2.000 Hjálparliðar styrkja Hjálparstarfið með reglulegu framlagi og gera okkur betur kleift að rétta hjálparhönd þeim sem á þurfa að halda. Þeir fá send fréttabréf í tölvupósti á tveggja mánaða fresti með nýjustu fréttum af starfinu.

Slide13 

Glæra 13        gjofsemgefur.is

Á fyrstu sjö mánuðum starfsársins 2018 – 2019 keypti fólk gjafabréf fyrir um 7,2 milljónir króna á www.gjofsemgefur.is. Geitin er enn vinsælasta gjöfin.  Segjum fólki frá gjöf sem gefur!

Slide14 

Glæra 14        Fréttablaðið Margt smátt…

Fréttablað Hjálparstarfsins kemur út fjórum sinnum á ári, tvisvar í tímaritsformi, sent til um 4.000 aðila, og tvisvar í dagblaðsformi, sent á heimili í landinu með Fréttablaðinu í upphafi jólasöfnunar og í upphafi páskasöfnunar. Í blaðinu segjum frá starfinu bæði hér heima og erlendis. Fyrirtæki og samtök kaupa auglýsingar og styrktarlínur í blaðinu.

Slide15 

Glæra 15        Samfélagsmiðlar og heimasíðan www.Help.is

Ný vefsíða er í smíðum sem á að auðvelda fólki að taka þátt í starfinu. Facebooksíða Hjálparstarfsins er mikið notuð til að auglýsa verkefni og viðburði. Þá notum við Instagram í auknum mæli til að segja frá starfinu í máli og myndum. Endilega hvetjið ykkar fólk til að læka við facebooksíðuna og Instagram Hjálparstarfsins, deila færslum og taka þátt í umræðum á þessum samfélagsmiðlum Hjálparstarfsins.

Slide16

Glæra 16        „Hjálparstarf kirkjunnar er hjálparstarfið okkar!“

Við erum stolt af starfinu og viljum að fleiri viti af þeirri aðstoð sem er í boði fyrir fólk í neyð á Íslandi og af þeim verkefnum sem í gangi eru í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Hjálpumst að við að láta boð út berast og gerumst Hjálparliðar! 😊 Takk!