Æskulýðsmót Æskey og Æska haldið helgina 15.-17.mars 2019

 

Tæplega 90 manns tóku þátt í fjórðungsmóti hér á Akureyri helgina 15.-17.mars. Skipulagning var í höndum æskulýðsfulltrúa Akureyrarkirkju að þessu sinni, en einnig kom starfsmaður KFUM/K og djákni Glerárkirkju að sem og prestar/leiðtogar að austan. Þetta er jú samstarfsverkefni.

Þema mótsins var umhverfismennt og sjálfsstyrking og miðuðu verkefni mótsins að þessum tveimur þáttum. Á föstudagskvöldinu voru haldnar leiksmiðjur sem höfðu það markmið að efla sjálfstraust krakkanna og jafnframt leyfa þeim að kynnast öðrum krökkum. Þetta voru góðar og gefandi leiksmiðjur sem höfðu einnig skemmtigildi fyrir börn og leiðtoga. Að því loknu var haldið diskótek og fenginn reyndur Dj til að stjórna. Börnin fengu góða hreyfiútrás fyrir svefninn og voru orðin ansi þreytt þegar þau lögðust loks á koddann.

Fræðsla laugardagsins snerist um umhverfisvernd. Sindri Geir guðfræðingur og æskulýðsfulltrúi KFUM /K stjórnað þar góðum fyrirlestri og sýndi áhugaverðar glærur. Bindum við vonir við að þessi vitneskja fylgi þeim áfram í lífinu og skilji eitthvað eftir. Að því loknu var haldið í ratleik sem snerist einnig um umhverfisvernd og þurftu börnin að leysa ýmsar þrautir sem snúa að umhverfinu okkar. Meðal annars límdu þau rusl á stóran kross, sem var settur upp í lokamessu mótsins.  Teknar voru myndir og ýmislegt föndrað og brallað og var „pokanum „ svo skilað með metnaðarfullum lausnum. Mótstjóri og leiðtogi fóru yfir og kynntu niðurstöður síðar um daginn, þar sem allir uppskáru örlítil verðlaun, en fyrsta sætið var skipað ÆFAK og Húsavík sem höfðu skírt sitt lið Akurvík.

Á laugardeginum var „frjáls tími“ á dagskránni. Þá gafst krökkunum tími til að skoða Akureyri og gera eitthvað sem þeim þótti spennandi, s.s. fara í sundlaugina, á matsölustaði, í bíó eða annað sem þeim datt í hug. Var þetta einkum gert fyrir krakkana að austan sem koma sjaldan til Akureyrar. Tíminn nýttist líka vel þarna til að styrkja tengslin milli leiðtoga og krakkanna, þar sem þau voru saman að gera eitthvað annað en vanalega. Oft verða þetta góðar stundir og reynast vel.

Hæfaleikakeppnin er árviss viðburður á þessum mótum og vantaði ekki hæfileikana að þessu sinni. 8 atriði voru æfð og hófst keppnin sjálf kl. 20:00 á laugardagskvöldið. Keppninni stjórnuðu tveir ungleiðtogar að austan og skemmtu með uppákomum og atriðum inn á milli. Dómnefndin var skipuð 2 prestum og einum leiðtoga. Seyðisfjörður uppskar 1 sætið sem besta atriðið. Einnig voru veitt verðlaun fyrir frumlegasta atriðið sem UD glerá fékk og fyndnasta atriðið sem Vopnafjörður fékk. Við getum öll verið stolt af þeim krökkum sem stigu á svið þetta kvöld. Það krefst hugrekkis sem er mikilvægt að efla.  Um klukkan 22:00 þetta kvöld fór svo allur hópurinn í helgistund í Akureyrarkirkju sem Sindri Geir og krakkar í KSS skipulögðu og stjórnuðu. Sú stund var afar notaleg, hlý og góð í alla staði. Þar voru stuttar hugvekjur, söngur og bænaganga. Einnig buðu Sindri og Sunna djákni upp á fyrirbænir fyrir krakkana sem vildu. Þótti eftirtektarvert hversu mörg börn vildu láta biðja fyrir sér og myndaðist þónokkur röð. Góð hugmynd væri að bjóða upp á svoleiðs oftar í öðrum stundum og hafa leiðtogar talað um það sín á milli.

Sunnudagurinn hófst á tiltekt og þrifum hjá hópnum og gekk það allt vel. Hópurinn arkaði í Akureyrarkirkju í lokamessu mótsins um 11 leytið. Messan einkenndist af verkefnum barnanna sem og þátttöku. Þau sungu og lásu og einn hópur hafði skreytt kirkjuna. Í lokin fengur allir fararblessun í lófann og héldu svo niður í Safnaðarheimilið að þiggja léttar veitingar.

Krakkarnir kvöddust þar, en einhver tengsl höfðu myndast sem halda etv. alveg fram að næsta móti, hver veit. Í minningunni lifir vonandi ánægjuleg helgi hjá sem flestum.

Mótstjóri er afar þakklátur fyrir hvernig til tókst. Öll dagskrá gekk upp og umgengni um mótsstaðinn gekk vel. Börnin voru okkur til mikils sóma og geta því leiðtogar, prestar og foreldrar verið sáttir með sín börn. Stefnt er að svipuðu móti að ári, en þá mun ÆSKA sjá um skipulagningu. Við hlökkum til að hittast að nýju! Vegna nýrra persónuverndarlaga er ekki hægt að sýna myndir af krakkahópunum, því miður, en á myndunum sem fylgja má sjá nokkur af verkefnum krakkanna sem unnin voru þessa helgi.

Sonja Kro, æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju.