Fræðlu- og umræðukvöld í Glerárkirkju 13. febrúar – Sanntrúaður villutrúarmaður

Sanntrúaði villutrúarmaðurinn, og aðrar torræðar sögur er yfirskrift fræðslu- og umræðukvöldsins í Glerárkirkju miðvikudaginn 13. febrúar kl. 20. Það er séra Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, sem kynnir samnefnda bók Peter Rollins, sem hann þýddi. Hann verður með erindi í upphafi um efni bókarinnar sem er ögrandi viðfangsefni guðfræðinnar að skilja og lifa boðskap Jesú Krists.

Þorvaldur segir um bókina: “Ég heillaðist af bókinni vegna þess að dæmisögurnar eru fullar af guðfræði. Guðfræðin fjallar fyrst og fremst um það hvað það er að vera manneskja. Bókin dregur fam á heillandi og áhugaverðan máta kjarna kristinnar trúar.”

Eftir erindið verður kaffidrykkja og samtal. Að lokum verður endað með íhugun og bæn í kirkjunni. Allir velkomnir að hlusta og leggja sitt af mörkum í samtali.

5f6aed81-81bb-495b-bda9-893f0d761995

Hér á eftir fer kynning Þorvaldar á dæmisögunum:

“Skipulag bókarinnar er einfalt. Höfundurinn hefur búið til safn stuttra sagna sem er raðað í þrjá kafla með yfirskriftunum: Handan trúar, Guð er allsstaðar og hvergi, og Ummyndanir. Hverri sögu fylgja stuttar skýringar sem eru ætlaðar til að vera sem vegvísar fyrir lesandann. Þessar stuttu skýringar greina hins vegar ekki sannleikann í sögunni né eru þær lokaorðin og þær eru ekki endilega betri túlkun en einhvers annars sem gaumgæfir og hugsar innihaldið.

Sögurnar í bókinni eru þungaðar af möguleikum og eins og barn, hafa þær þann möguleika að geta vaxið meira en höfundurinn gæti vonað, talið mögulegt eða jafnvel þráð. Það er því hjálplegt að nálgast skýringarnar á svipaðan máta og maður gæti nálgast upplýsingar við hlið málverks á listasafni. Slíkar upplýsingar eru ekki ætlaðar til að útskýra listina eins og listin væri einhvern vegin ófullgerð eða óskiljanleg, heldur eru þær frekar ætlaðar til að veita leikmönnum auðveldari aðgang að innihaldi þeirra.

Eins og kemur fram í kynningunni fyrir þetta fræðslukvöld, þá eru dæmisögur þessarar bókar fullar af guðfræði. Guðfræðin fjallar fyrst og fremst um það hvað það er að vera manneskja, og draga sögur bókarinnar fram kjarna kristinnar trúar á heillandi og áhugaverðan máta.

Til að nálgast innihald dæmisagnanna, verður fyrst í örfáum orðum fjallað um mikla hvell, síðasta jökulskeið og hvernig frásögur Biblíunnar hafa fyrst verið varðveittar í munnlegri geymd.

Hugsa sér að ein bók, sem samanstendur af svo mörgum ritum, eftir marga höfunda, skuli hafa orðið til á þessum árþúsundum, og sérstaklega merkilegt þykir mér að í gegnum öll þessi rit sé rauður þráður sem virðist vera sá sami í öllum þessum textum, þótt höfundarnir séu fjölmargir, tímabilin ólík sem textarnir eru ritaðir á og svo að ritin hafi lifað af í gegnum öldusjó aldanna, pólitík, stríð, o.s.frv.

Það út af fyrir sig er mjög merkilegt. Það er þarna rauður þráður.

Þetta smásögusafn, þessar dæmisögur benda til þessa rauða þráðar, hver með sínum hætti.

Höfundurinn segir í inngangi:

Hvernig eigum við að tala um það sem ekki er hægt að orða?

Dæmisögur snúa á þá þrá mannsins að gera trúna einfalda og skiljanlega. Þær bjóða lesandanum ekki skýrleika, af því að þær neita að láta veiða sig í net einstrengingslegrar túlkunar.

Dæmisögur skipta ekki merkingu út fyrir þvætting, ekki reglu úr fyrir óreiðu. Þær benda fram hjá þessum greinarmun og bjóða okkur að taka þátt í hugsunarhætti sem miðar síður að því að fastsetja merkinguna en meira að því að gæða hana lífi og tilfinningum.

Sögurnar í bókinni eru þungaðar af möguleikum, eins og barn hafa þær þann möguleika að geta vaxið meira en ég gæti vonað, talið mögulegt eða jafnvel þráð.

Viðfangsefni dæmisagnanna er tilgangur lífsins og það að lifa merkingarbæru lífi. Guðfræðin sem birtist í þeim er að mínu mati vekjandi, hefur áhrif á guðsmynd manns og vökvar og virkjar sköpunarkraftinn. Slík guðfræði þykir mér heillandi.”

Velkomin til samtals miðvikudaginn 13. febrúar í Glerárkirkju kl. 20.