Ræða – Samkirkjuleg bænavika og fimm upphrópanir

 

samkbv_2019_kmynd01

Efni vikunnar 2019 var undirbúið í Indónesíu. Mynd af vef heimsráðs kirkna (WCC)

Ræðan flutt í Akureyrarkirkju 20. janúar þar sem klassískur kór kirkjunnar flutti sálma og messusöng frá ýmsum heimshornum.

 

Í gær byrjuðum við samkirkjulega bænaviku (laugardaginn 19. janúar) með guðsþjónustu í Aðventkirkjunni í Gamla Lundi hér á Akureyri. Þar á eftir áttum við fulltrúar safnaðanna samtal um bæn og helgihald með þeim sem voru samankomnir. Það var mjög áhugavert að heyra mismunandi áherslur og skilning en bænin í Jesú nafni sameinar okkur. Ætli við lærum ekki að skilja aðra með því að hlusta og leggja okkur fram við að skilja?

Ég lagði út frá kjörorðum þjóðkirkjunnar: „Biðjandi, boðandi, þjónandi þjóðkirkja“. Við höfum meira formfastar og vel orðaðar bænir meðan bræður okkar og systur í Hvítasunnukirkjunni og Hjálpræðishernum biðja upp úr sér eftir því sem andinn blæs þeim í brjóst. Kaþólski presturinn útskýrði hvernig sakramentið er þeim nærvera Jesú og eilífðarljósið minnir á það þegar komið er til kirkju til bæna. Og að helmingur aðventista sem eru um 25 milljónir, borða ekki kjöt og lifa lengur fyrir vikið. Það á að vera vísindalega rannsakað. Gestgjafarnir í gær buðu upp á hollan mat. Þá kom það fram að allar þessar kirkjur reka víðtækt hjálparstarf út af fyrir sig og saman. Efnið að þessu sinni er frá Indónesíu. Íbúar eru 250 milljónir, þjóð sem býr á 17 þúsund eyjum og skiptist í 13 hundruð þjóðflokka. 86% eru múslimar og 10 % kristnir. Þau þurfa virkilega að takast á við það að lifa saman en hafa mótað stefnu sem við mættum taka okkur til fyrirmyndar: „Eining í fjölbreytileika“.

Mig langar til að vekja athygli ykkar á vikunni og hvetja ykkur til að taka þátt. Ef þið komist á bænastundirnar þá er það fínt en ekki síður að taka þátt í daglegri bæn. Það er bæði heimsráð kirkna og kaþólska kirkjan sem standa að þessari framkvæmd. Í meira en öld hefur kristið fólk komið saman til bæna í Jesú nafni af þessu tilefni.

I. Hvað er bæn í Jesú nafni?

Í fyrra þýddi ég sálm í tengslum við samkirkjulega bænavikuna sem kórinn flutti hér á undan. Ég held að mér hafi tekist ágætlega að tjá hvað bæn er í þýðingu minni:

Þú réttir fram hönd til hjálpar, Drottinn minn,
heyrir bæn og ákall fólks í neyð.
Þú þekkir sorg og tár,
þú þjáning hlaust og sár,
kom og þrautir lina, faðm mót oss breið.

(Allur sálmurinn og lagið má sjá og heyra hér)

Fyrst þetta: Bænin er að ákall Guð í neyð sinni. Það segir í biblíunni að sá sem ákallar Drottinn mun hólpinn verða (Rm 10.13). Bænin byggist á því að við treystum Guði og er æfing í því að treysta. En þá verður Guð að vera traustsins verður og það er ekki hans heldur okkar vandi, vegna þess að mynd okkar af Guði eða jafnvel möguleiki okkar að gera okkur hugmynd um Guð er svo takmörkuð eða rangsnúin. Þess vegna notum við tákn og myndmál sem vísar út fyrir raunveruleikann. Myndin sem sálmurinn dregur upp og er auðvitað úr biblíunni. Hún sýnir okkur Guð sem kemur til hjálpar og réttir fram hönd og breiðir út faðm sinn. Guð er sá sem þú væntir alls góðs af. Vandi okkar er að við þekkjum ekki slíka gæsku nema í skuggsjá og sitjum föst í raunveruleika okkar sem er fullur af þjáningu.

Svo þetta: Við þurfum því að öðlast rétta mynd af Guði eða þekkja Guð eins og hann er. Og hvernig getur það gerst? Það er myndin af Jesú sem birtir okkur Guð eins og hann er. Jesús er meira en táknmynd, hann er sjálfur í persónu sinni og veru fagnaðarerindið, þegar hann kemur til okkar. Marmaramynd Thorvaldsens í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn: Komið til mín, er sönn mynd af Jesú, þar sem hann réttir fram hendur sínar til okkar, beygir sig niður, til að lyfta börnum sínum upp og hjálpa. Allir steindu gluggarnir í kirkjunni boða það.

Og í þriðja lagi: Í bæninni eigum við samfélag við Guð fyrir Jesú og heilagur andi gerir okkur viðkvæm eða næm á fólkið í kringum okkur. Vegna þess að við höfum notið náðar Guðs og elsku, það án þess að við höfum verðskuldað það, þá skiljum við þjáninguna með öðrum hætti. Ef við hefðum aldrei séð hjartagæsku Guðs í myndinni af Jesú, þar sem hann réttir fram hönd sína til hjálpar, þá vissum við ekki að til þess hefur Guð sett okkur í þessa veröld, til að elska náunga okkar. Kristinn maður neitar því að þjáningin og myrkrið sé það síðasta sem mætir okkur, heldur játar og fullyrðir að það er Guð, ljós og faðmur, í grunni tilveru okkar. Svo að þjáningin verður ekki böl, heldur hvatning til bæna, umhyggju og góðra verka. Við vinnum ekki góð verk til  að hljóta einhver verðlaun frá Guði, heldur til þess eins að verða meðbræðrum og systrum til góðs. Það eru síðusár og naglaför á höndum og fótum Jesú í mynd Thorvaldsens til að boða okkur það að Guð þekkir þjáningar lífsins, stendur með börnunum sínum og elskar þau öll.

Þetta er náttúrlega glórulaust tal en það er viska Guðs að vegna þess að hann elskar, þá hljótum við að elska, finna til samkenndar með öllum bræðrum okkar og systrum sem þjást eins og við, finna til, ganga erfið spor, en þar er líka Guð með okkur öllum. Það er bæna-andinn.

II. Fimm upphrópanir um bænalíf

Það hafa verið ýmsar upphrópanir í gangi í síðustu viku. Eins og þessi einfaldi boðskapur: Þú ert nóg! Jóna Hrönn Bolladóttir tók undir í fésbókarfærslu með Öldu Karenu að það væri jákvætt að fólk finni sig í sjálfum sér. Og ég er þeim sammála. Ég ætla að lokum að setja bænina í víðara samhengi og reyndar eins og Lúther gerði einnig í sínum skrifum með fimm upphrópunum. Svo ég bæti gráu ofan á svart. Fyrst þessi:

1. “Ég er nóg!” Það er kannski uppgötvun Lúthers á nútímamáli. Sú uppgötvun bjargaði honum frá að verða vitstola í trúarbaráttu sinni. Hann hefði kannski orðað það svo að “náð þín, Guð, nægir mér”. Hann taldi Guð hafa með grundvallartraust hvers manns að gera. Að trúa er að treysta Guði að hann vilji manni vel. Velvildin er grundvöllur tilveru okkar manna. Jesús birtir okkur Guð sem er náðugur, vill okkur vel, stendur með okkur. Bænin er fyrst þetta að ákalla Guð í neyð sinni. Jesús svarar þeirri bæn með því að koma sjálfur til okkar í manns mynd, vera til staðar í mannkyninu, lifa og deyja með börnunum sínum, til að reisa þau upp með sér.

2. “Ég get þetta” Þá upphrópun tek ég úr teiknimynd Walt Disney Dúmbó. Lestin brunar áfram með Cyrkusinn í eftirdragi í vögnunum. Þegar hún erfiðar upp brekkurnar segir hún: “Ég get þetta”. Og henni tókst það. Bænin er að þegar erfiðað er upp brekkurnar, tekist á við raunveruleikann eins og hann er, þá vegna þess að við erum elskuð af Guði, vegna þess að í grunni tilveru okkar er velvild, samkennd, samhygð, þá held ég áfram, hvað sem tautar og raular, þó að blási úr öllum ryfum, þrýstingurinn alveg að drepa mann, þá sleppir bænarinnar fólk ekki voninni. Þú getur horft á eigin dauða og séð Jesú á krossinum með þér. Handan við krossinn er upprisa til eilífs lífs.

3. Þriðja slagorðið: “Ég er órór uns ég hvíli í Guði”, sagði heilagur Ágústínus kirkjufaðir. Hann snéri frá heiðinni dulhyggju til kristni. Það held ég að sé vandi vakningarkristindómsins að hafa gjaldfellt orðið „trúrækni“. Lúther gerði það ekki. Reglusemin var nauðsynlegur þáttur í að fylgja Jesú Kristi að hans mati. Þegar þú ert kaldur eða köld skaltu taka til við að lesa í Guðs orði, fara til þeirra sem tilbiðja Jesú, lesa og biðja, þá fer heilagur andi að tala til þín fyrir orðið. Það eru til ótal margar trúarhefðir sem við getum lært af, eins og andlegt líf reglubræðra og systra í kaþólsku kirkjunni, tíðarbænir, bænasamkomur, kyrrðarbæn og fyrirbænastundir o.s.frv. sem allar hafa það að markmiði að binda okkur við Jesú og sjá líf okkar í ljósi hans. Hann sagði: “Komið til mín, ég mun veita ykkur hvíld” (Mt 11.28). Það er lífslögmál að erfiða og hvílast. Meira segja Guð hvíldi sig af verki sínu og það var ekkert smáræði, öll sköpunin, stjörnukerfin og sólkerfin öll, hann mátti vera að því að hvílast, en við erum að drepa okkur á streitu, vegna þess að við stöldrum ekki við til að undrast og þakka.

4. Fjórða atriðið. Samhygð er lausnarorðið. “Samhygð er öllu fólki eðlislæg.” “Á því byggjum við vonir okkar”, segja þeir Desmond Tutu og Dalai Lama í Bókinni um gleðina. Þar ræða þessir öldungar saman um erfiða reynslu sína og leiðina til gleði í þrautum. Trúarsamfélagið miðlar traustinu manna á milli eða á að gera það. Ef ekki þá skulum við biðja um það, annars erum við eitthvað annað en Guð hefur hugsað sér með söfnuðina og kirkjurnar. En líka út á við. Ef flæðið heldur ekki áfram til annarra, þ.e. kærleikurinn sem Guð kveikir með traustinu til sín, þá verðum við eins og Dauðahafið, ferskar lindir og ár renna til okkar, en ekkert frá okkur og vatnið verður fúlt. Þetta er annað lífslögmál sem Guð hefur lagt okkur í brjóst. Þess vegna halda þessir vitringar því fram að samhygðin sé grundvöllur gleðinnar, að gefa veldur því að við getum gefið ennþá meira og þannig styrkist samkenndin og gleðin magnast. Þetta er öðru vísi hagfræði en menn telja að gildi í hagkerfi heimsins en lífið er allt annað en aurar eða rafræn skiptimynt.

5. “Réttlætinu einu skalt þú framfylgja”, er þema samkirkjulegrar bænaviku í ár. Það er Móses sem á þessi orð. Reyndar í tengslum við hátíðir hertekinnar þjóðar á flótta. Það áttu að vera vikuhátíðir, eins og við höldum nú, reyndar átta daga bænaviku, til að minna okkur á systur og bræður okkar í Indónesíu, efla okkur í samhygð. Efni vikunnar er undirbúið á einum stað af kirkjunum á svæðinu og nú er það Indónesía. Undirbúningsnefndin þar hefur skoðað samfélagið, horfst í augu við neyðina, eins og hún blasir við, og hvetur okkur til að bera þau málefni fram fyrir Guð. Um leið gerist það að við sjáum okkar aðstæður í þeirra ljósi, það er líka spilling hér, það er líka misrétti hér, það eru auðmenn sem vilja græða meira en góðu hófi gegnir og ýta með því öðrum niður í moldina. Guð er gegn allri þvingun og ofbeldi. Sá sem niðurlægir bróður eða systur gengur gegn Guði, lífslögmálunum, sem hann hefur lagt okkur á hjarta og skapað okkur með. Bænin er að taka stefnu með Guði í lífi og starfi, „réttlætinu einu skalt þú framfylgja“.

Ef biðjandi þjóðkirkja er ekki á þessari leið þá er hún ekki aðeins að svíkja sjálfa sig heldur Guð. Og það á við alla kristna menn. Það er bænin í þessari merkingu sem sameinar okkur, bænin í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.

Nánari upplýsingar:
Facebook/Bænavika 18-25 janúar