Jólaboðskapur Matteusar – á þrettánda degi jóla

Þetta er nýr sálmur eftir Guðmundur Guðmundsson héraðsprests, saminn um þessi jól og lagið aðlagað að honum sem er eldra. Á þrettánda degi jóla er Jólaboðskapur Matteusar lesinn (Mt. 2.1-11). Það er jóladagur hjá bræðrum og systrum í Rétttrúnaðarkirkjunni og jólaguðspjall Matteusar er lesið um Betlehemsstjörnuna og vitringana:

Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. (Mt. 2.9-11)

Gamla mósaíkmyndin fá Ravenna á Ítalíu frá ca. 550 var innblásturinn að sálminum.

Falleg helgimynd mig minnir á
að mannkyn geymir í sér djúpa þrá
eftir lausn á lífsins gátu og neyð
að leiðin áfram reynist fólki greið.

Stjarna lýsir fögur fjöllin há
og ferðalangar þrír þau halda á,
þeir um ófær skörð þó komast skjótt
:,: í skini hennar helga jólanótt. :,:

Valdafólk í veröld ekki sér
að viska Guðs af manna speki ber,
þó að státi sinni þekking af
hún sælu trygga þeim þó enga gaf.

Visku Guðs þau hjartahreinu sjá
sem hylla barnið móður sinni hjá,
með þeim smæstu stendur Guð á jörð,
:,: Guðs syni færum lof- og þakkargjörð. :,:

Guðm. G.

Lagið hljóma svona. Nótur hér fyrir neðan.

jolabodskapurmatteusar

Nótur á Pdf-formi má nálgast hér.

vitringarnir_ravenna

Mósaíkmynd frá Ravenna á Ítalíu frá ca. 550 (Heimild Wikipedia)