Bréf Samkirkjunefnd v/ nóbelsverðlaunanna í okt. 2018

Það er athyglisvert að annað af tveimur handhöfum friðarverðlauna Nóbels í ár er prestsonurinn, leikmaðurinn og baráttumaðurinn dr. Denis Mukwege.  Hann er skurðlæknir frá Lýðveldinu Kongó. Hann hlaut þau ásamt Nadia Murad en þau hafa barist fyrir því að stöðva notkun kynferðislegs ofbeldis sem vopns í stríði og í hernaðarlegum átökum.

Dr. Denis Mukwege var einn af aðalræðumönnum heimsþings Lútherska heimsambandsins 2017 og hér fyrir neðan er útdráttur úr ræðu hans sem sent út til presta frá Samkirkjunefnd í júní 2017.  Einnig er hér slóðir á ræðuna í heild sinni og fleiri slóðir.

Í ræðu hans kom fram m.a. að sem prestssonur var hann vanur að fara með föður sínum í sjúkravitjanir og einn daginn spurði hann pabba sinn:  Pabbi þú biður með sjúkum, en hvers vegna gefur þú þeim ekki lyf?  Og faðir hans svaraði:  Það er vegna þess að ég er ekki læknir.  Þennan dag fæddist köllun hans að verða læknir og hann nam fyrst barnalækningar en þegar hann sá hversu há dánartíðni var meðal mæðra lærði hann kvensjúkdómafræði með það að markmiði að berjast gegn þessu vandamáli.   Eftir að hann upplifði að börn sem voru getin við nauðgun urðu einnig fórnarlömb nauðgana þá áttaði hann sig á að hann hefði ekkert val annað en að tala opinberlega um þetta og fordæma þessa ólýsanlegu grimmd.  Í upphafi voru viðbrögð hans við þessari grimmd að annast bæði andlega og líkamlega konur sem voru þolendur kynferðislegs ofbeldis síðan fór hann að tala upphátt um vandamálið.  Önnur viðbrögð voru að útvega  þolendum efnahagslegt sjálfstæði og þriðju viðbrögðin voru lagaleg, berjast gegn refsileysi.   Í ræðunni talar hann m.a. um hinn almenna prestdóm og náðina – að við þurfum að frelsa náðina.  Þau forréttindi að vera frelsuð fyrir náð Guðs knýr okkur til að berjast fyrir þau sem eru minna frjáls.  Og ójafnrétti sé til skammar fyrir mannkynið.  Kirkjan verður að vera rödd hinna raddlausu.  Hann talaði um að rætur kynferðislegs ofbeldis liggi í kenningum kirkjunnar þeim sem eru litaðar af fyrirlitningu á konum.

Í dag er hann einn fremsti skurðlæknir heimsins í að laga skaða sem hefur hlotist af nauðgunum og kynferðislegu ofbeldi.

Við erum hvatt til að lesa ræðuna í heild sinni.  Það sofnar enginn yfir þeim lestri.  Þetta efni passar við texta sunnudagins (20.s.e.þr.):  Jes.55:1-3a, Ef.5:15-21, Matt.22:1-14, að lifa Kristi.  Við lestur guðspjallstextans varð mér hugsað til orðtæks konunnar sem sagði að ekkert gaman væri af guðspjöllunum, því enginn væri þar bardaginn.  Eitthvað annað kemur á daginn í guðspjallinu.  Nóg er um blóðsúthellingar þar þó ritskýrendur séu sammála um að þær séu seinni tíma viðbætur og vísi í fall Jerúsalem árið 70 eftir Krist.  Það er þungur hljómur í texta sunnudagsins.  Væri ekki betra að fá að sleppa að predika út frá þessum texta og gleyma þessu neikvæða, öllum mörkum og ábyrgð.  Vissulega en við verðum að hafa þor til að berjast gegn óréttlætinu og opna umræðuna um hið illa.

Fyllist andanum (Ef.5). Með kveðju frá formannai samkirkjunefndar, Huldu Hrannar M. Helgadóttir

Úr bréfi frá Samkirkjunefnd júní 2017

Heimsþing LH var haldið í maí 2017 í Windhoek í Namibíu. Yfirskrift þingsins var Liberated by God´s Grace,  creation – not for sale, people – not for sale, salvation – not for sale / Frelsuð af Guðs náð, sköpunin – ekki til sölu, fólk -ekki til sölu, hjálpræðið – ekki til sölu.

Dr. Denis Mukwege skurðlæknir frá Lýðveldinu Kongó sem hefur m.a. verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels var aðalræðumaðurinn um efnið:  Fólk – ekki til sölu.  Erindi hans bar nafnið:  Trúboð til að koma upp um hið illa (Mission to Denounce Evil).  Lúthersk guðfræði, sérstaklega um stöðu kvenna í samfélaginu, er skilaboð um von til allra þeirra sem eru fórnarlömb siðferðislegs, líkamslegs og kynferðislegs ofbeldis.

„Það er okkar, erfingja Lúthers, í gegnum orð Guðs, að útrýma öllum machó djöflum sem eiga heiminn svo að konur sem eru fórnarlömb karlkyns villimennsku (grimmdar) geti upplifað Guðs ríki í lífi sínu.“

Mukwege hvatti konur til að: „Leiða sem konur; Bregðast við sem konur. Vertu þú sjálf – það verður styrkur þinn og tækifæri okkar. “

Mukwege benti á að ofbeldi gegn konum, nauðgun og kvenhatur sjáist ekki aðeins í Afríku, heldur um allan heim. Hann talaði um átökin í Lýðveldinu Kongó, sem skapaði mikið umrót, en kveikjan að því var þörf til að stjórna neðansjávarolíu Lýðveldisins Kongó.

„Þetta stríð, sem upphaflega náði til sjö afríkulanda, nefnt fyrsta stóra afríku stríðið snýst ekki um þjóðerni og felur ekki í sér trúarbrögð. Það er efnahagslegt stríð sem hefur þegar valdið meira en fimm milljónum dauðsfalla og þúsundum kvenna hefur verið nauðgað.

Hann sagði að það væri ljóst að þeir sem skipulögðu kerfisbundnar nauðganir, notuðu þær sem vopn í stríði til að ná markmiði sínu eins og að niðurlægja andstæðinga sína (og eyðileggja innri gerð samfélaga).  Hann sagði að rauð lína hafi verið sett alþjóðlega á móti notkun efnavopna en engin slík rauð lína hafi verið sett varðandi ofbeldi gagnvart konum í stríði.  Markmiðið er að hugsa um trúverðugleika fagnaðarerindisins á 21. öldinni, að frelsa náðina sem við höfum fengið með því að gera kirkjuna að ljósi sem enn skín í þessum heimi myrkursins, gegnum baráttu okkar fyrir réttlæti, sannleika, lögum, frelsi, í stuttu máli sagt, fyrir virðingu karls og konu. Þess vegna þarf að leiðrétta kenningar um ranglæti og kvenhatur, sem miðla fyrirlitningu, móðgun og þar af leiðandi ofbeldi á konum og setja í staðinn guðfræði sem virðir konur (theology of women´s esteem).  Þetta verk verður að byrja jafn snemma og trúfræðsla barna okkar,“ sagði Mukwege.  Sjá slóð:  https://www.lwfassembly.org/en/news/press-releases/mission-denounce-evil

Slóðir:

Hamingjuóskir frá WCC https://www.oikoumene.org/en/press-centre/news/wcc-congratulates-2018-nobel-peace-prize-laureates

WCC Jafnrétti, fimmtudagar í svörtu https://www.oikoumene.org/en/what-we-do/women-and-men

Frétt frá LWF um útnefndninguna  https://www.lutheranworld.org/news/keynote-speaker-lwf-assembly-awarded-nobel-peace-prize

Bréf frá LWF til Mukwege https://www.lutheranworld.org/sites/default/files/2018/documents/181005letter_to_nobel_prize_dr_mukwege_en.pdf

Bréf frá Nóbelsverðlaunanefndinni https://www.nobelpeaceprize.org/The-Nobel-Peace-Prize-2018

Ræða Mukwege á Heimsþingi LWF í fullri lengd https://www.lutheranworld.org/sites/default/files/2018/documents/lwf-12th-assembly-keynote-dr-mukwege.pdf

Story about keynote speech https://www.lwfassembly.org/en/news/press-releases/mission-denounce-evil

LWF work on gender justice  https://www.lwfassembly.org/en/news/press-releases/mission-denounce-evil