Ólafur Jón Magnússon, skólaprestur í heimsókn á Akureyri 11.-13. okt.

Séra Ólafur Jón Magnússon skólaprestur heimsækir Akureyri dagana 11.-13. október. Markmið heimsóknarinnar er að kynna kristilegt skólastarf og komast í kynni við (ungt) fólk sem er áhugasamt um þátttöku. Ólafur Jón starfar fyrir Kristilegu skólahreyfinguna (KSH) sem eru samtök um kristilegt skólastarf á Íslandi, stofnuð 1979. Aðilar að KSH eru Kristileg skólasamtök (KSS, stofnuð 1946) og Kristilegt stúdentafélag (KSF, stofnað 1936) sem bæði standa fyrir starfi meðal skólafólks á höfuðborgarsvæðinu.
Á fimmtudagskvöld kl. 20 mun Ólafur Jón kynna kristilegt skólastarf í unglingastarfi Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri og flytja hugvekju.
Á föstudagskvöld verður kynningarkvöld í Félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð opið öllum. Húsið opnar kl. 19:30 og boðið verður upp á pizzu og gosdrykki. Kynning og umræður byrja kl. 20 og má búast við að dagskrá ljúki fyrir kl. 21.
Á laugardaginn flytur Ólafur Jón ræðu á samkomu Kristniboðsfélags Akureyrar kl. 17 í Sunnuhlíð undir yfirskriftinni: ,,Styrkist í Drottni og krafti máttar hans.“
Allir velkomnir.