Erindi Kristjáns Vals Ingólfssonar um helgihald kirkjunnar komið á netið

Merking og hlutverk messunnar í bænalífi og tilbeiðslu safnaðarins
Fyrirlesari: Kristján Valur Ingólfsson
Umræðukvöldin í Glerárkirkju verða að þessu haust þrjú á hálfs mánaðar fresti og beinast að söfnuðinum. Öllum í söfnuðunum gefst þar tækifæri til að leggja orð í belg um málefni sem brenna á kirkjunni. Kvöldin hefjast með inngangserindi, svo er boðið upp á kaffi og yfir kaffinu eru málin rædd. Kvöldin enda með helgistund í kirkjunni. Fyrsta kvöldið verður um merkingu og hlutverk messunnar. Sr. Kristján Valur Ingófsson var vígslubiskup í Skálholti og hefur verið í helgisiðanefnd þjóðkirkjunnar um árabil, auk þess að starfa í ólíkum söfnuðum meðal annars Norðanlands.
Stutt lýsing á erindi kvöldsins:
Jesús sagði: ,,Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“(Matt.18.20) og við síðustu kvöldmáltíðina sagði hann: Gjörið þetta í mína minningu. (Lúk.22.19).
Þó að undirskrift auglýsingar um guðsþjónustur sunnudagsins sé venjulega prestsins eða sóknarnefndarinnar þá er það engu að síður trú kristins safnaðar að Jesús sjálfur kalli hann saman til messu og sendi hann þaðan út til þjónustu.
Um þessar mundir er það sameiginlegt áhyggjuefni allra kristinna safnaða í Evrópu að þeim fer fækkandi sem sækja almenna guðsþjónustu safnaðar síns hvern sunnudag, og að þeim fjölgar sem segja sig frá kirkju- og safnaðaraðild og jafnframt fækkar þeim ungu foreldrum sem bera börn sín til skírnar.
Ástæða dvínandi kirkjusóknar gæti verið einföld: Það er, að þessi þróun merki dvínandi trúarþörf, og eða, að fólkið sem myndar söfnuðinn telji ekki lengur að trúarþörf hans verði svalað þar.
Fyrirlesarinn sem er nýkominn af Allsherjarþingi Samtaka evangeliskra kirkna í Evrópu mun í þessum fyrirlestri annarsvegar varpa ljósi á glímu hinna evangelisku kirkna í Evrópu við þessar spurningar, en hinsvegar draga fram markmið, mikilvægi og tilgang messunnar í bænalífi og tilbeiðslu kristins safnaðar sem einmitt í messunni mætir frelsara sínum sem söfnuður, en ekki aðeins sem einstaklingur í sínu persónulega trúarlífi.
Allir hjartanlega velkomni
Horfa á erindið:
Merking og hlutverk messunnar í bænalífi og tilbeiðslu safnaðarins
Jesús sagði: ,,Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“ (Matt.18.20) og við síðustu kvöldmáltíðina sagði hann: Gjörið þetta í mína minningu. (Lúk.22.19).
Þó að undirskrift auglýsingar um guðsþjónustur sunnudagsins sé venjulega prestsins eða sóknarnefndarinnar þá er það engu að síður trú kristins safnaðar að Jesús sjálfur kalli söfnuðinn saman til messu og sendi hann þaðan út til þjónustu. Þjónustu við Guð og við náungann.
Inntak og eðli hverrar guðsþjónustu og samkomu kristins safnaðar í nafni Jesú Krists er að Jesús kallar fólkið til sín og sendir það út.
Það má segja þetta öðruvísi:
Hann kallar það til sín til þess að senda það út.
Kristniboðsskipunin sem við köllum svo: Það er: síðustu orð Jesú Krists á jörðu áður en hann steig upp til himna, samkvæmt vitnisburði hinna fyrstu votta hans, voru þessi orð sem okkur eru af hjarta kunn og kær:
Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Matt. 28. 18-20
Í þessum orðum felst sendingin út til heimsins og þjóðanna og einstaklinganna og kallið fram fyrir Guðs auglit í Jesú nafni, inn til skírnarinnar og uppfræðslunnar og til tilbeiðslunnar.
Um þessar mundir er það sameiginlegt áhyggjuefni allra kristinna safnaða í Evrópu, – í Evrópu fyrst og fremst, – að þeim fer fækkandi sem sækja almenna guðsþjónustu safnaðar síns hvern sunnudag; að þeim fjölgar sem segja sig frá kirkju- og safnaðaraðild og jafnframt fækkar þeim foreldrum sem bera börn sín til skírnar. Þó að þetta sé mest áberandi víðast hvar, þá eru mörg merki þess að þessi þróun síðustu ára sé að snúast við.
Ástæða dvínandi kirkjusóknar gæti verið einföld: Það er, að þessi þróun merki dvínandi trúarþörf, og eða, að fólkið sem þó myndar söfnuðinn, það er skráðir meðlimir, telji ekki lengur að trúarþörf hans verði svalað þar.
Sé þetta er rétt þá er nauðsynlegt að endurskoða merkingu og gildi þess að vera skráður í söfnuð, samkvæmt hinni Norður-Evrópsku venju, sem við erum hluti af, en horfa í vaxandi mæli til þeirra fyrst og fremst sem vilja vera lifandi söfnuður dag frá degi og axla ábyrgð vegna trúarinnar – í söfnuði sínum og er það jafn eðlilegt og sjálfsagt að iðka og rækta sitt trúarsamfélag við Jesú Krist og trúsystkini sín í hvert sinn og þau eiga kost á kirkjugöngu.
En. Það bendir bara, almennt séð, ekkert til þess að trúarþörf minnki. Kannanir sýna að meðal þeirra fjölmörgu sem engin trúartengsl hafa í gömlu Austur-Evrópu, þar sem kristni var útrýmt með markvissum hætti eftir síðari heimstyrjöld, þar vex bænalíf. Þörfin fyrir eitthvað sem stendur utan og ofan við hið daglega og persónulega, eitthvað sem er sterkara en maður sjálfur og er tilbúið til að gefa af styrk sínum þeim sem um það biður, þessi þörf er vaxandi. Hún leiðir af sér bænalíf sem er ekki tengt kirkju, söfnuði eða kristni beinlínis og í því felst alveg ný áskorun til kristninnar.
Þetta minnir á það sem við heyrum í frásögn Postulasögunnar 17.22-23
Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: „Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn, því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: ,Ókunnum guði’. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður.
Í kynningu á þessum fyrirlestri stendur að fyrirlesarinn sem var nýlega á Allsherjarþingi Samtaka Evangeliskra kirkna í Evrópu muni í þessum fyrirlestri annarsvegar varpa ljósi á glímu hinna evangelisku kirkna í Evrópu við þessar spurningar, en hinsvegar draga fram markmið, mikilvægi og tilgang messunnar í bænalífi og tilbeiðslu kristins safnaðar, sem einmitt í messunni mætir frelsara sínum sem söfnuður, en ekki aðeins sem einstaklingur í sínu persónulega trúarlífi, sem hann þó gerir sannarlega og líkast til fyrst og fremst.
Góð systkin.
Fátt er okkur betur þekkt af orðum ritningarinnar sem hver messa endurtekur, en innsetningarorð heilagrar kvöldmáltíðar.
Drottinn vor Jesús Kristur tók brauðið nóttina sem hann var svikinn, gjörði þakkir og braut það og gaf lærisveinum sínum og sagði: Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.
Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn, gjörði þakkir, gaf þeim hann og sagði: Drekkið allir hér af. Þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði, sem fyrir yður úthellist til fyrirgefningar syndanna. Gjörið þetta svo oft sem þér drekkið í mína minningu.
Þessi orð byggja á vitnisburði postulanna og guðspjallamannanna.
Páll postuli ritar í fyrra bréfi sínu til Korintumanna:
Metið sjálf það sem ég segi. Bikar blessunarinnar sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? Af því að brauðið er eitt, erum vér hin mörgu einn líkami því að vér eigum öll hlutdeild í hinu eina brauði. (1.Kor. 10.15-17)
Ennfremur ritar Páll í sama bréfi:
Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“
(Síðan segir Páll) Hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur. Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins á óverðugan hátt verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi sjálfan sig áður en hann etur af brauðinu og drekkur af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur án þess að gera sér grein fyrir að það er líkami Drottins, hann etur og drekkur sér til dómsáfellis. (1.Kor. 11. 23-29)
Ritað er í Lúkasarguðspjalli.
Og er stundin var komin gekk Jesús til borðs og postularnir með honum. Og hann sagði við þá: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður áður en ég líð. Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki.“ Þá tók hann kaleik, gerði þakkir og sagði: „Takið þetta og skiptið með yður. Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins fyrr en Guðs ríki kemur.“ Og hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.“ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt. (Lúk. 22.14. – 20.)
Marteinn Lúter byggði sína kvöldmáltíðarguðfræði fyrst og fremst á tvennu. Í fyrsta lagi á því þegar Jesús sagði: Gjörið þetta í mína minningu, og þegar hann sagði er hann braut brauðið: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Og þegar hann rétti þeim kaleikinn: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt. Þetta: fyrir ykkur, varð megin áhersla lúterskrar kenningar um sakramenti kvöldmáltíðarinnar. Jesús sjálfur, réttir okkur brauð og vín til að við neytum af því, af því að líkami hans er brotinn og blóði hans úthellt fyrir þig og fyrir okkur.
Hann kallar okkur til sín í messunni til að næra okkur með þessari gjöf, svo að hann geti sent okkur út til þjónustunnar við náungann og þar með við Guð.
Nákvæmlega þetta er kjarni málsins.
En áður en að þessu kemur í trúarlífinu, hefur margt gerst sem ræður úrslitum um framhaldið. Við megum aldrei gleyma því að fyrirbænin, trúariðkunin í sinni smæstu einingu, sem hefst þegar foreldri biður með eða fyrir barni sínu er æðsta og viðvarandi tilsjónarskylda kirkjunnar. Án hennar er engin kirkja. Það er vegna þess að með því er lögð leiðin frá heimilinu til kirkjunnar, frá fjölskyldunni til safnaðarins, frá foreldrunum til Jesú Krist sem í senn er móðurfaðmur og föðurkné Guðs dýrðar.
Við megum heldur aldrei gleyma því að hinn minnsti neisti geymir í sér kraft hins mikla elds, og að veik trú hefur sama aðgang að guðsríkinu og sterk. Ekkert getur komið í stað þeirra bænarorða sem leita fram í huga og á varir hvers og eins.
Orðin ábyrgð og hlutverk eru merkingarfull orð. Á bak við þau geta verið önnur tvö: köllun og þjónusta. Ábyrgð og hlutverk í starfi safnaðanna í kirkjunni byggir á því að þar býr að baki heilög köllun til heilagrar þjónustu. Jesús Kristur kallar kirkju sína til starfa. Kirkjan er starfandi samfélag lifandi trúar. Hún er samfélag þeirra sem skírð eru til nafns Jesú Krists og þar með heilagt félag allra skírðra, og lifandi líkami Jesú Krists á jörðu. Eðli og inntak og grundvöllur kirkjustarfsins er Jesús Kristur sem kallar börn sín saman og sendir þau út.
Einfaldast er að sjá þetta fyrir sér í sakramentum kirkjunnar. Miðja guðsþjónustulífsins er heilög kvöldmáltíð. Jesús býður til borðs. Hann kallar saman kirkjuna.
Upphaf kristnilífsins er skírnin. Skírnin felur í sér sendinguna með boðskapinn um lífið með Kristi og í Kristi. Hann sendir út. Þetta tvennt er innöndun og útöndun kristninnar.
Sérhver hópur sem kemur saman undir merkjum kirkjunnar kemur saman í Jesú nafni. Það er ekkert leyndarmál, eða hulinn veruleiki, og þess vegna er engin sérstök krafa um að á það sé minnt í hvert sinn og tekið er til starfa á vettvangi kirkjunnar, í safnaðarheimili, í kirkjugarði eða í kirkjunni sjálfri. Það er til dæmis engin skylda að lesa bæn áður en súpan í safnaðarheimilinu er löguð eða borin fram, nema það sé innri skylda trúaðrar manneskju sem býr til súpuna. En þessi huldi veruleiki trúarlífsins getur orðið til þess að trúarlífið sé líka hulið þegar það á að vera opinbert. Það er í rauninni eini vandinn í samhengi trúarlífs og kirkjustarfs. Í hve miklum mæli á trúarlífið að vera ríkjandi þáttur í kirkjustarfinu? Hvernig er hæfileg blanda trúarlegra þarfa og annarra þarfa í kirkjustarfi yfirleitt?
Til þess að halda sig við súpuna þá má segja sem svo að það er alltaf góður siður að byrja hvert starf með bæn, líka það að búa til súpu, þar sem bæði er beðið fyrir verkinu sjálfu og þeim sem elda og þeim sem síðan borða hana. Þó að það væri ekki gert þá myndi það ekki teljast til vanrækslusynda. En ef súpan svo er borin á borð alveg bænarlaust, þá má kalla það vanrækslu.
En vegna þess að borðbæn er afar fátíður siður á íslenskum heimilum, og vegna þess að hverskyns samkomuhald tekur alltaf mið af þeim venjum sem þáttakendurnir taka með sér, þá er alls ekki víst að beðið sé heldur yfir súpunni þegar hún kemur á borðið, né að gjafaranum allra góðra hluta sé þakkað það sem þegið er úr hans hendi, og þjónar hans og þernur hafa lagað af kunnáttu sinni.
Guðsþjónusta kristinnar kirkju er venjulega kennd við sunnudaginn. En í því tilfelli sem hér um ræðir og í áþekku samhengi þarf alltaf að skoða guðsþjónustuna í ljósi hversdagsins, vegna þess að það þarf að samhæfa guðsþjónustu daglegrar tilbeiðslu helgihaldi einstaklinga og fjölskyldna við hina almennu sunnudagsguðsþjónustu safnaðarins og trúariðkun kynslóðanna.
Ég hef á öðrum stað og öðrum tíma orðað þetta þannig:
Eins og það er í eðli mannsins að næra sig og hvílast, er það í eðli kristins manns að hafa samfélag við Guð og koma saman, fleiri og færri til sameiginlegrar tilbeiðslu. „Því að hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“ (Matt.18.20).
Eitt höfuðeinkenni kristinnar trúar (og trúariðkunar) er að hún er hvorttveggja í senn: félag milli manna og milli manns og Guðs. Að trúin er félagsskapur milli manna kemur vel í ljós í því að við biðjum ekki: „Faðir minn, þú sem ert á himnum“, heldur „Faðir vor,“ – hvort sem við biðjum sem hópur eða við biðjum ein.
Hið sameiginlega helgihald safnaðarins er stefnumark alls kristnilífs í söfnuðinum. Jesús Kristur sendir lærisveina sína, og þar með einnig okkur og segir: „Farið út um allan heim og predikið fagnaðarerindið öllu mannkyni“ (Mark. 16.15)
Jesús Kristur kallar lærisveina sína, og þar með einnig okkur, til máltíðar sinnar og segir „Gjörið þetta í mína minningu“. (Lúk. 22.19b). Þau sem höndluð hafa verið af þessum boðskap eru kölluð til þess að koma á fyrsta stefnumóti Guðs og manns í lífi nýs einstaklings sem borinn er í heiminn.
Þetta er stundum kölluð útöndun og innöndun kirkjunnar eins og fyrr var nefnt. Þetta eru sakramenti hennar tvö, og dýpstu leyndardómar trúarinnar og trúarlífsins. Allt annað byggir á þeim, frá fyrsta andartaki til hins síðasta. Í grundvelli helgihalds kristinnar kirkju er bæn og signing móður og föður yfir vöggu barns síns.
Grunnurinn sem við byggjum á er lagður með því að það sem við höfum tekið í arf gefum við börnum okkar. Um leið og við þökkum Guði fyrir lífgjöf hans þegar við tökum á móti barni, þá hefst guðsþjónustan sem aldrei lýkur. Undanfari hennar er sú þökk sem stígur upp úr hjarta foreldris þegar líf hefur kviknað í móðurkviði og hin fyrsta bæn fyrir lífi og framtíð hins nýja einstaklings. Það er fyrsta helgihaldið í lífi barns. Svo fylgir signingin yfir vögguna, og bænarorð fyrir nótt og fyrir nýjan dag. Allt sem síðar gerist, bænirnar og versin sem börnin læra, kirkjugangan, kristinfræðikennslan, fermingarfræðslan, æskulýðsstarfið, foreldrafræðslan, eldriborgarastarfið, miðar að sameiginlegu helgihaldi, frá hinni fyrstu signingu yfir vöggu, til hinnar síðustu signingar yfir gröf.
Helgihald og trúarlíf lifir og nærist af helgihaldi heimilisins.
En ef þessi eina klukkustund hinnar sameiginlegu guðsþjónustu á sunnudegi er ekki hápunktur í daglegu helgihaldi safnaðar og einstaklings, heldur fer ekkert annað helgihald fram í lífi hans, þá er ekki von til þess að guðsþjónustan lifi, og sé sótt og rækt.
Bænin í kirkjunni verður óskiljanleg ef aldrei er beðið bænar utan kirkju. Og varla mun nokkur fylgjast vel með lestrum úr ritningunni þegar tungutak hennar er framandi af því að heyrandinn hefir aldrei lagt sig eftir því að læra það. Og varla ratar nokkur að máltíð Drottins, ef það er gleymt að sérhver málsverður á jörðu er þeginn úr hendi Guðs.
Forsenda guðsþjónustunnar er að til er Guð sem hægt er að snúa sér til og eiga samfélag við. Athöfnin sjálf byggir á nærveru hans. Kristur er sjálfur nær og með honum allt það verk sem hann vann okkur og heiminum til hjálpar. Saga hans okkur til hjálpar, hjálpræðissagan, lifandi og virk, er kjarni kristinnar guðsþjónustu.
Þegar hún er rifjuð upp í guðsþjónustunni er hún um leið okkar eigin saga, vegna hinnar lifandi nálægðar Jesú sjálfs. Orð og athöfn messunnar fylgja þessari sögu, og eru á sama tíma sviðsetning hennar og endurlifun. Í miðju helgihaldi safnaðarins er því guðsþjónustan. Messan.
Hún kann að vera með ýmislegu yfirbragði, en innihald hennar er einungis eitt: Jesús er þar sjálfur í miðjum hópi barna sinna.
Í guðsþjónustu safnaðarins tekur þú þér stöðu í hópi þeirra sem tilbiðja hann á himni og á jörðu. Söfnuðurinn er hópur fólks á sömu leið, til fundar við Drottin, til hátíðar á himnum. Það stefnumark einkennir líf þess. Samkomur þeirra í nafni Jesú Krists helgast af því.
Hátíðin sjálf, hin komandi hátíð á himni, verður lifandi og virk við borð Drottins, þar sem mætast himinn og jörð. „Sá Guð, sem hæst á himni situr, er hér á jörð oss nær“. Jesús Kristur, sá sem situr í hásæti himnanna, er hér á jörð.
Söfnuðurinn kemur saman á helgum stað og syngur Guði lof. Þeirri lofgjörð linnir ekki þótt hringt sé út, heldur breytist hún í þjónustu við meðbræður og systur meðan dagur er. Því að líf kristins manns og kristins safnaðar er guðsþjónusta.
Það er margt líkt með göngu okkar, hins kristna safnaðar, og göngu mannanna tveggja sem forðum héldu frá Jerúsalem til Emmaus, hálfgert í flótta og vonleysi vegna þess að Jesús þeirra var krossfestur.
Jesús gekk til þeirra á leiðinni, augu þeirra voru haldin svo að þeir þekktu hann ekki, en þeir námu staðar, þeir sendu hann ekki burt, snéru ekki baki við honum, heldur hlustuðu á orð hans og báðu hann síðast að koma inn með sér og neyta með sér kvöldverðar, og þá lukust upp augu þeirra og þeir þekktu hann. Jesús stöðvaði flóttann, Jesús bægði vonleysinu burtu, Jesús styrkti þá með návist sinni.
Í hvert eitt sinn sem við göngum út um kirkjudyr frá því að hafa heyrt orð Drottins og þegið næringu við borð hans erum við send á slíka Emm-ausgöngu, send upp að hlið náungans með skilaboðin um að hinn upprisni kemur sjálfur til þess að brjóta brauðið við borðið sitt og að við eigum öll að koma. Og ef það eru gild forföll þá eigum við að fara þangað með máltíðina, því að þetta er hin mikla kvöldmáltíð á himni og á jörðu, og forsmekkur hinnar himnesku, við endi aldanna.
Þetta er það sem gerist á sunnudegi í sameiginlegri messu safnaðarins. Og það sem gerist þar þarf að eignast endurhljóm í helgihaldi hinna virku daga. Ekki bara vegna þess að ýmsir þeir sem taka þátt í kirkjustarfinu koma ekki til kirkju á sunnudeginum, af margvíslegum ástæðum, heldur vegna þess að líf kristins safnaðar er guðsþjónustulíf, og alveg sérstaklega á virkum dögum.
Í sjálfu sér er aldrei neitt hversdagslegt við helgihald. Hverskyns helgihald kallar til veruleika sem er heilagur og hátíðlegur, líka mitt í gráma hversdagsleikans. Það sem átt er við er að helgihaldið má ekki vera eitthvað það sem bundið er við tiltekna daga, helgar og hátíðir. Helgihald verður að vera hluti hins daglega lífs, annars er helgihald sunnudagsins nánast eins og leiksýning, eða tónleikar. Hvort tveggja getur haft mikil áhrif á okkur og skilið eftir varanleg gildi hið innra með okkur, en við færum ekki upp konsert eða leikrit heima fyrir.
Það sem sameinar helga daga og virka, messuhald og hópastarf, starfsfólk og þátttakendur, er bænin.
Bænin sem er fyrirbæn með hundrað nöfnum, eða lítið andvarp á rauðu ljósi. Án hennar er ekkert trúarlíf, engin trúariðkun, ekkert kirkjustarf.
Við höfum verið minnt á það með alveg sérstökum hætti síðustu ár að það eru að koma inn í landið flóttamenn sem vilja setjast hér að. Ég ætla ekkert að ræða um vandamálið flóttamenn eða hælisleitendur sem fá lögformlega meðferð til að setjast hér að eða er vísað frá. Ég er bara að hugsa um aðkomufólk frá öðrum löndum sem vill vera hér og gera Island að sínu nýja heimalandi.
Þessi staðreynd hefur neytt okkur til að hugsa um það hvernig við náum tengslum við fólk sem hefur trúarlegan bakgrunn og trúarlega þörf sem við gætum svalað ef við vildum. Við teljum oftast að við höfum ekki forsendur til þess yfirleitt að leita þeirra heldur þurfum við að bíða eftir því að þau leiti okkar. Hvað gerum við þá? Við gætum hengt utan á allar kirkjur skilti með orðinu Velkominn, á mörgum tungumálum. En svona skilti hefur enga merkingu nema á bak við það sé persóna sem mætir þeim sem svara auglýsingunni: Velkominn.
Góðu vinir. Þessar aðstæður sem snúa að flóttamönnum og hælisleitendum setja okkar eigin leit að fólki sem vill vera með okkur í liði í alveg nýtt samhengi.
Fólkið sem tilheyrir þjóðkirkjusöfnuðunum er ekkert öðruvísi en almennt gerist. Þar af leiðandi er að finna í þeim hópi svo ólíkar trúarhugmyndir að mismunur hinnar mismunandi kenningar kristinna kirkna og trúfélaga í heiminum er hverfandi miðað við það. Með öðrum orðum, það þarf að nota alveg sömu aðferðir við að laða okkar eigið fólk til kirkju eins og þau sem eru ekki hluti af okkar samfélagi.
Við glímum við spurningar um það hvers fólk leitar og hvar það leitar og hvort það finnur það sem það leitar að. En við getum líka einfaldað spurninguna og spurt okkur sjálf: Hvers leitum við?
Það er ekki víst að við séum mikið frábrugðin öllum hinum. Og það er alveg víst að okkur er ekki ætlað að skipta fólki upp í við og hin, vegna þess að það er markmið sundrarans mikla, en ekki Jesú Krist sem sagði að við skyldum vera eitt í honum. Ekki eins, sannarlega ekki eins, en eitt. Eining í fjölbreytileikanum. Vegna Krists og með Kristi.
Hvers leitum við og hvers leitar fólk eins og við, sem erum eins og annað fólk. Það erum bara við. Hin eru líka við.
Við leitum að lífsfyllingu og lífshamingju. Við leitum að vellíðan, að öryggi, að réttlæti, að friði, að gleði og heilbrigði, að skemmtun, að vináttu, að félagsskap og að ást.
Við vitum að þetta er allt til staðar í kirkjunni. Eða vitum við það ekki. Eða er þetta einmitt ekki til staðar í kirkjunni á samkomum hennar?
Við vitum hvað við höfum. Við vitum hvaða skilaboð Jesús Kristur hefur sjálfur gefið okkur um það sem við eigum að miðla til þeirra sem til okkar koma og til þeirra sem hugsanlega hafa áhuga en koma ekki.
Orðið er mælt fram af munni þess sem til er kallaður. En munnurinn er aðeins eitt tæki og einn hluti persónu. Kalla þú, segir Jesaja. Ekki kalla þú rödd eða munnur heldur þú sem hefur rödd og munn til þess að kalla.
Hvers þörfnumst við?
Að heyra samhljóm í því sem borið er fram fyrir Guð á bænastundum safnaðarins og minna eigin hugsana, þarfa og langana.
Aðeins Guð getur gefið þennan samhljóm.
Aðeins hann getur uppfyllt bænir.
Biðjum.
Það mun aldrei neitt sem við gerum megna að breyta því sem þarf. En Guð gerir það. Guð sem við treystum og trúum á og biðjum til.
Hann sem heyrir.
Góð systkin. Fyrir tveim öldum eða svo komu fram sterkar raddir og kenningar um það að skynsemin væri æðst dyggða, Guð væri sá sem skapaði heiminn, en hefði engin frekari afskifti af sköpuninni en að vegna þess væri skynsamlegt að trúa á tilvist Guðs. Raun-veruleikinn væri veruleiki og annað væri ekki til. Þessi hugmyndafræði birtist með sterkum hætti einnig innan kirkna og safnaða, og meira að segja í myndlistinni í kirkjunum, þar sem eina gilda spurningin var: Er þetta góð mynd af Jesú?
Tilbeiðslan, að stíga inn í hinn hulda veruleika trúarinnar, vék fyrir skynseminni. Og þegar presturinn bað við altarið í kirkjunni kom spurningin: Af hverju talar hann við vegginn? Hálfhringur altarisgráðanna var hálfhringur sem endaði við vegginn, en ekki helmingur þess hrings sem annars er hulinn í hinum hulda himneska heimi.
Við erum enn að glíma við hugmyndir af þessu tagi. Og meðan svo er þá erum við í vandræðum með að tala um tilbeiðslu og tilbeiðsluform við önnur en þau sem sjálf hafa þorað að stíga yfir þroskuldinn milli hins sýnilega og ósýnilega.
Merking og hlutverk messunnar í bænalífi og tilbeiðslu safnaðarins, felst einfaldlega í því að þar mætum við Jesú sjálfum, við hlýðum kalli hans og tökum á móti honum í sinni þreföldu nálægð, í Orðinu, í sakramentinu og í söfnuði þeirra sem hann hefur helgað sér í heilagri skírn. En þar fyrir utan í þeirri nálægð trúarinnar og tilbeiðslunnar sem hann veitir með sínum hætti hverjum þeim sem til hans leitar utan við, ofar og umhverfis hina skilgreindu þreföldu nálægð. Í þessari nálægð nýtir Drottinn Jesús sér margvísleg tæki og leiðir sem engin leið er að skilgreina til fulls.
Þessi nálægð er einfaldlega leyndardómur trúarinnar og leyndardómur tilbeiðslunnar og það er aðeins ein örugg leið til að fara á mis við þann leyndardóm, nefnilega að sinna ekki um hann.
Því að iðkun tilbeiðslunnar og bænalífsins lýkur upp leyndardómum trúarinnar rétt eins og hin forna myndlist kristninnar er í senn gluggi til að horfa inn til hins himneska og gluggi himinsins til að horfa til okkar.
En þó að við höfum engan Íkon hefur tilbeiðslan sjálf þetta sama einkenni.